Oddeyrarskóli hlýtur styrk til Norðurlandasamstarfs um menntun án aðgreiningar

Hér er samstarfshópurinn í heimsókn í Mæla skólanum í Telemark í Noregi 2015.

Oddeyrarskóli, ásamt Háskólanum á Akureyri, hlaut á dögunum veglegan Nordplus styrk til þátttöku í tveggja ára Norðurlandasamstarfi þar sem skoðuð eru skólasamfélög sem hafa markvisst leitað leiða til að starfa í anda menntunar án aðgreiningar. Styrkurinn nemur tæpum 7 milljónum króna.

Markmið verkefnisins er að dýpka þekkingu okkar á því hvernig skólar og skólasamfélög geta styrkt færni sína til að mæta þörfum allra nemenda. Skoðaðir eru starfshættir í námi nemenda, kennslu og vinnubrögðum kennara sem og annarra sem að náminu koma. Hópurinn mun skoða hvað einkennir kennara, stjórnendur og skólamenningu þeirra skóla sem þykja ná góðum árangri í að mæta þörfum ólíkra nemenda. Reynt verður að skilja hvernig ólíkir þættir, svo sem menntun kennara og stjórnenda, stoðkerfið, starfsþróun og stjórnun (leadership) vinna saman við að styðja góða starfshætti í anda menntunar án aðgreiningar.

Skólasamfélög verða heimsótt í Tromsø í Noregi, í Gautaborg í Svíþjóð og á Akureyri á Íslandi til að gera athuganir og ræða við fólk úr skólasamfélaginu (foreldra, nemendur, kennara, stjórnendur, stoðþjónustu o.fl.) um hvernig skólasamfélagið vinnur saman að því að styðja við starfshætti skóla í þessum anda.

Í þessu samstarfi eru þrír fulltrúar frá hverju landanna þriggja. Fulltrúar Íslands í þessu verkefni eru Kristín Jóhannesdóttir, skólastjóri Oddeyrarskóla, Birna Svanbjörnsdóttir lektor við Háskólann á Akureyri og Jenný Gunnbjörnsdóttir, kennsluráðgjafi.

Síðast uppfært 29.05 2018