Smiðjudagar tileinkaðir fjölmenningu

IMG_0010 IMG_5750Dagana 19. og 20. mars voru smiðjudagar tileinkaðir fjölmenningu haldnir í Oddeyrarskóla.

Í Oddeyrarskóla er fjölmenningarlegt samfélag og því fögnum við. Við erum af mörgum þjóðernum og er því mikilvægt að kynnast ólíkum löndum og menningu þeirra.

Nemendur nýttu nemendaþing í vikunni á undan til að ræða möguleg viðfangsefni og velja sér stöðvar til að sækja á smiðjudögum, en stöðvarnar voru af ýmsu tagi. Nemendur voru í 10 manna hópum, sem voru samsettir þvert á árganga. Þannig var líklegt að í hverjum hópi væru nemendur frá 1.-10. bekk.

Hver hópur sótti fjórar stöðvar. Margir nemendur völdu sér að kynnast mat og matarmenningu mismunandi landa. Einhverjir föndruðu þjóðfána, lærðu um ólík tungumál og letur, gerðu grímur eða kynntu sér dýralíf ólíkra landa. Eins fóru sumir hóparnir í leiki frá ólíkum löndum, fóru í ratleik, dönsuðu þjóðdansa eða horfðu á landsleiki milli landanna sem um ræddi. Einhverjir nemendur nýttu sér upplýsingatæknina og bjuggu til Kahoot verkefni um löndin eða gerðu stuttmyndir. Þá lærðu sumir nemendur að segja fyrstu 10 tölurnar á fjölmörgum tungumálum.

Dagarnir heppnuðust einstaklega vel. Nemendur voru jákvæðir og duglegir við verkefni sín og athafnir og var gleðin var við völd.

Sérstakt hrós fá eldri nemendur skólans, sem stóðu sig eins og alltaf einstaklega vel við að annast yngri nemendur og gera þeim þannig kleift að njóta daganna enn betur en ella.

 

Síðast uppfært 27.04 2016