Þuríður Lilja Rósinbergsdóttir námsráðgjafi Oddeyrarskóla hlaut á dögunum styrk frá Norðurorku vegna verkefnis sem hún er að fara af stað með í 8. bekk. Hún vinnur það ásamt kennurum bekkjarins, Maríu Aðalsteinsdóttur og Hrafnhildi Guðjónsdóttur. Auk þess hefur hún fengið mikilvægan liðstyrk Sigríðar Þórisdóttur kennara og sálfræðings. Verkefnið hefur skammstöfunina DAM, en það snýst í megindráttum um að vinna með streituþol, samskiptahæfni, núvitund og tilfinningastjórn. Þessi hugmyndafræði hefur lengi notuð sem meðferðarúrræði hjá börnum með þunglyndi eða sjálfsskaðandi hegðun, en hefur á síðustu misserum verið aðlöguð og nýtt í forvarnarskyni í bandarískum skólum. Nýlega var gefið út námsefni á ensku sem tengist efninu og gott er að styðjast við.
Sigríður Þórisdóttir er búsett í Bandaríkjunum og þekkir DAM mjög vel. Þuríður námsráðgjafi sótti námskeið hjá henni síðastliðinn vetur og í kjölfarið varð til samstarf um verkefnið. Sigríður bauð fram krafta sína í vinnuna og vinnur hún með nemendum í janúar og svo aftur í apríl/ maí.
Nýttar verða tvær kennslustundir á viku frá janúar og fram í maí í verkefnið. Nemendur 8. bekkjar svöruðu matslistum í upphafi verkefnisins og munu síðan svara við lok vinnunnar til að leitast við að meta þætti sem vinnan skilar.
Þuríður sótti um styrk til Norðurorku til að styðja við verkefnið og föstudaginn 6. janúar hlaut hún 200.000 króna styrk. Styrkurinn verður nýttur til að styðja við fræðsluna. Einnig styður Icelandair Hotels á Akureyri við verkefnið og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir það.
Í síðustu viku var foreldrum nemenda í 8. bekk boðið til fundar þar sem verkefnið var kynnt.
Við þökkum Sigríði Þórisdóttur innilega fyrir sitt mikla framlag til verkefnisins og jafnframt þökkum við Norðurorku fyrir veglegan styrk!
Síðast uppfært 31.01 2017