Á vordögum fékk Oddeyrarskóli upplýsingar um veglega styrkveitingu úr Sprotasjóði til að fylgja eftir verkefni næsta skólaár sem við köllum „Bætt líðan – aukin fræðsla“. Verkefnið snýst um að auka fræðslu til nemenda, starfsfólks og foreldra með það að markmiði að efla geðheilbrigði. Nemendur fá fræðslu í formi ART kennslu fyrir tvo árganga sem taka 12 vikna námskeið til að efla félagsfærni, reiðistjórnun og eflingu siðgæðisþroska. Þá munu þeir árgangar sem ekki fá ART fá styttri fræðslu um valda þætti er snúa að geðrækt og líðan og verður sniðin að aldri og þroska en gæti t.d. snúist um símanotkun, svefn eða kvíða.
Starfsmenn fá einnig fræðslu sem snýr að geðheilsu barna og foreldrar í völdum árgöngum fá sérstaka fræðslu um þætti er snúa að farsæld barna. Þá er liður í verkefninu að auka samstarf og samverustundir við alla foreldra skólans og endurvekja bekkjarkvöld eða seinniparts samveru einu sinni á skólaárinu hjá öllum nemendum og foreldrum.
Við ætlum að breyta rými inn af bókasafni þar sem áður var tölvuver og síðustu tvö ár sérkennsluaðstaða en þar er hugmyndin að hafa aðstöðu þar sem nemendur geta unnið í ró og næði ef þeir þurfa að að hvíla sig á bekkjarumhverfinu tímabundið.
Síðast uppfært 29.06 2023