Vegna slæmra aðstæðna hefur útivistardegi í Hlíðarfjalli, sem átti að vera 10. febrúar, verið frestað. Aðstæður eru ekki góðar eins og er en vonandi gefst tækifæri til að fara síðar í vetur.
Author Archive: Skólastjóri
Lífshlaupið 2025
Spennandi Lífshlaupsáskorun hefst í skólanum! 🏃♂️🏃♀️
Nú er komið að því sem margir hafa beðið eftir með eftirvæntingu – Lífshlaupið 2025 er hafið. Þetta frábæra framtak, sem hvetur okkur öll til að hreyfa okkur meira og lifa heilbrigðara lífi. Setning fór fram á sal skólans í dag þar sem heilsueflingarnefnd skipulagði viðburð og nemendur og starfsfólk dansaði saman.
Nemendakeppnin hefst af krafti þann 5. febrúar og stendur til 18. febrúar. Þetta er frábært tækifæri fyrir alla nemendur til að taka þátt í skemmtilegri áskorun þar sem hver og einn getur lagt sitt af mörkum til að efla heilsuna og styrkja bekkjarliðið sitt. Við hvetjum alla nemendur til að vera með, því saman erum við sterkari!
Starfsfólk skólans lætur ekki sitt eftir liggja og tekur þátt í sérstakri starfsmannakeppni sem stendur enn lengur, eða frá 5. til 25. febrúar. Það er einstaklega hvetjandi fyrir nemendur að sjá kennarana sína og annað starfsfólk taka virkan þátt í verkefninu.
Lífshlaupið er frábær leið til að koma sér af stað, prófa nýja hreyfingu og hafa gaman saman. Hver mínúta telur og öll þátttaka skiptir máli! Hvort sem þú velur að ganga, hlaupa, hjóla eða dansa – allt er það framlag til heilsunnar og liðsheildarinnar.
Nú er tækifærið til að taka þátt í þessari skemmtilegu áskorun. Sýnum hvað í okkur býr og gerum þetta „lífshlaupsár“ að því besta hingað til! Áfram við öll! 💪

Glæsileg árshátíð í Oddeyrarskóla
Árshátíð Oddeyrarskóla fór fram þann 30. janúar síðastliðinn og tókst einstaklega vel til. Gleði og hamingja skein úr andlitum nemenda og starfsfólks á þessum skemmtilega degi þar sem jákvæður skólabragur var í hámarki.
Sérstakt tilefni var til að fagna þennan dag, því nemendur skólans höfðu náð þeim frábæra árangri að safna 5000 þrumum. Fyrir þennan glæsilega árangur var öllum nemendum boðið upp á girnilega pizzuveislu sem vakti mikla lukku.
Foreldrafélag skólans átti stóran þátt í því að gera þennan dag ógleymanlegan. Við viljum koma á framfæri sérstöku þakklæti til allra foreldra og ekki síst stjórnar foreldrafélagsins fyrir þeirra ómetanlega framlag og stuðning. Samstarf heimilis og skóla er einstaklega dýrmætt og skilar sér í ánægjulegri skólagöngu barnanna okkar.
Árshátíðin er góð áminning um þann sterka skólabrag sem ríkir í Oddeyrarskóla og þá samstöðu sem einkennir skólasamfélagið okkar. Við hlökkum til að halda áfram að byggja upp jákvætt og uppbyggilegt skólastarf með stuðningi allra sem að skólanum koma.

Árshátíð 2025
Árshátíð Oddeyrarskóla verður haldin fimmtudaginn 30. janúar. Að morgni eru sýningar fyrir alla nemendur skólans en eftir hádegi eru foreldrasýningar. Að þessu sinni verða sýningar tvær. Ekkert kostar inn á sjálfar sýningarnar en frjáls framlög á reikning nemendafélagsins eru vel þegin, 0302-13-000229, kt. 4509082580.
Fyrri sýning klukkan 15:00
1.bekkur, 2. bekkur, 5. bekkur, 7. bekkur, 9. bekkur og 10. bekkur
Seinni sýning kl. 16:30
3. bekkur, 4. bekkur, 6. bekkur, 8. bekkur og 10. bekkur
Kaffisala foreldrafélagsins er eftir báðar sýningar. Við hvetjum alla til að staldra við og gæða sér á glæsilegum veitingum og styrkja þar með foreldrafélagið. Verð er krónur 1500 fyrir fullorðna og 500 fyrir börn. Hægt er að kaupa miða í kaffihlaðborðið fyrirfram hjá ritara, best að hafa samband við sunneva@oddeyrarskoli.is ef menn vilja forðast raðir og einnig verða seldir „kaffimiðar“ fyrir sýningu. Posi á staðnum.

Smiðjur á unglingastigi – bætt námsmenning
Fyrsta vika vorannar hófst á skemmtilegan og óhefðbundinn hátt á unglingastigi. Kennsla samkvæmt stundaskrá var felld niður og í staðinn haldin smiðja sem lagði áherslu á að efla námsvitund nemenda og stuðla að bættri námsmenningu.
Á mánudaginn fengu nemendur tækifæri til að ígrunda eigin sjálfsmynd, byggja upp sjálfstraust og velta fyrir sér eigin gildum, hlutverki og framtíðardraumum. Þeir voru hvattir til að skoða hvert þeir vilja stefna og hverju þeir vilja ná fram í lífinu.
Á þriðjudaginn var farið yfir mikilvægi markmiðasetningar þar sem nemendur lærðu að setja sér SMART markmið fyrir bæði námið og daglegt líf. Að auki var haldið nemendaþing þar sem þau ræddu saman í hópum um ýmis málefni tengd náminu, svo sem metnað, mikilvægasta fagið að þeirra mati, samskipti kennara og nemenda og fleira. Þetta gaf nemendum gott tækifæri til að láta skoðanir sínar í ljós og læra hver af öðrum.
Miðvikudagurinn var tileinkaður fjölbreyttum leikjum og æfingum sem miðuðu að því að efla jákvæð samskipti og byggja upp traust milli nemenda. Þeir fengu tækifæri til að stíga út fyrir þægindarammann, æfa sig í að treysta félögum sínum og leggja áherslu á að sýna virðingu, styðja hvert annað og vinna saman.
Á fimmtudaginn var fjallað um hugarfar og starfsemi heilans. Nemendur lærðu hvernig þeir geta tileinkað sér vaxandi hugarfar, bæði í námi og lífinu almennt. Einnig var lögð áhersla á mikilvægi seiglu og þrautseigju við að takast á við erfið verkefni og áskoranir. Að auki fengu nemendur innsýn í starfsemi heilans, þar sem þau kynntust mismunandi hlutum hans og hlutverkum þeirra. Þetta veitti nemendum betri skilning á því hvernig hugarfar getur haft áhrif á hegðun og tilfinningar þeirra.
Smiðjan endaði svo á uppskeruhátíð á föstudeginum þar sem niðurstöður úr verkefnum vikunnar voru kynntar áður en farið var í Skautahöllina. Hér má sjá fleiri myndir.

Bingó – fjáröflun 10. bekkjar
10. bekkur Oddeyrarskóla ætlar að skella í eitt gott nýársbingó næstkomandi sunnudag, 12. janúar. Fullt af góðum vinningum og vöfflusala í hléi.
Við mælum með að fólk mæti snemma, því það hefur gerst að færri hafa komist að en vilja.
Húsið opnar kl 13:30 og mun spjaldið kosta 1000.-
Hlökkum til að sjá ykkur,
Nemendur 10. bekkjar Oddeyrarskóla

Gleðileg jól
Starfsfólk Oddeyrarskóla óskar öllum nemendum, foreldrum og forráðamönnum ásamt öðrum velunnurum skólans gleðilegrar jólahátíðar með þökk fyrir samstarfið á árinu sem er að líða.
Skólahald hefst að nýju skv. stundaskrá 6. janúar. Frístund er opin 2. janúar fyrir þau börn sem búið er að skrá þann dag.
Að venju var jólahurðasamkeppni en hér má sjá myndir af bekkjarstofum og svo nokkrar myndir þar sem starfsmenn tóku sig til og skreyttu. Dómnefnd valdi hurðir 4. bekkjar og 9. bekkjar sem flottustu jólahurðirnar þetta árið.

Kosningaþema á unglingastigi
Undanfarnar vikur hafa nemendur á unglingarstigi tekið þátt í kosningaverkefni. Nemendum var skipt í hópa þvert á bekki og dregið var um hver væri með hvaða stjórnmálaflokk. Nemendur fengu svo það verkefni að útbúa kynningu á flokknum og mátti nota allar hugmyndir til að gera „sinn“ flokk sem áhugaverðastan. Í dag voru svo settir upp kynningarbásar og kjörklefi og þegar nemendur á mið- og unglingastigi höfðu kynnt sér hvað flokkarnir hafa fram að bjóða, með framsetningu nemenda, var gengið til kosninga. Hér má sjá nokkrar myndir frá kjördegi í Oddeyrarskóla.

Forvarnardagur gegn einelti
Þann 8. nóvember er forvarnardagur gegn einelti. Í Oddeyrarskóla er komin áralöng hefð á að gefa nemendum í 1. bekk húfur sem á stendur „GEGN EINELTI“. Húfurnar eru síðan merktar hverju barni. Starfsmenn skólans, foreldrar og aðrir velunnarar prjóna húfurnar fyrir skólann og við erum nú þegar byrjuð að safna húfum fyrir 1. bekk á næsta skólaári. Að þessu sinni fengu líka tveir nemendur í 2. bekk húfur en þeir byrjuðu í skólanum eftir að fyrsti bekkur í fyrra fékk sínar húfur.

Söngsalur 9. október
Í síðustu viku var söngsalur í Oddeyrarskóla þar sem allir nemendur komu saman inni í íþróttasal. Í upphafi var veitt viðurkenning fyrir „Göngum í skólann“ en það var 2. bekkur sem stóð sig hlutfallslega best og fékk viðurkenningarskjal frá heilsueflingarnefnd. Þá var veitt viðurkenning á yngsta stigi, miðstigi og unglingastigi fyrir Skólahlaup ÍSÍ.
Á þessari söngstund voru sungin óskalög nemenda en nemendur í öllum árgöngum máttu velja sér eitt lag og texti var birtur á skjá. Þetta var skemmtilegt uppbrot í samstarfi við Tónlistaskólann en við reiknum með að hafa fjóra söngsali á skólaárinu.


