Félagsmiðstöðin Stjörnuríki – forvarnarfræðsla

katr-nÁ Akureyri eru starfræktar fimm félagsmiðstöðvar sem allir grunnskólar sveitarfélagsins hafa aðgang að. Allt starfsfólk Félak vinnur að sameiginlegum markmiðum og þjónustar aldurshópinn 10 – 16 ára.

Katrín Ósk Ómarsdóttir er okkar helsti tengiliður, en hún er umsjónarmaður félagsmiðstöðvarinnar Stjörnuríkis, en svo kallast félagsmiðstöðin okkar í Oddeyrarskóla. Umsjónarmenn félagsmiðstöðvanna starfa sem forvarna- og félagsmálaráðgjafar hjá Akureyrarbæ og sjá því einnig um aðgerðaráætlun forvarna fyrir 0 – 25 ára samhliða starfinu í félagsmiðstöðvunum.

Börn og unglingar í bænum geta sótt þá félagsmiðstöð sem þau kjósa óháð sínum heimaskóla. Opið er fjögur kvöld í viku í mismunandi félagsmiðstöðvum fyrir unglinga og einnig eru reglulegir viðburðir um helgar. Að auki er fjölbreytt klúbbastarf fyrir alla aldurshópa sem dreifist á alla virka daga. Í öllum grunnskólum er kennd valgrein, félagsmálafræði, fyrir nemendur í 9. og 10. bekk. Meðal verkefna valsins eru kompás mannréttindafræðsla, umræður, hópefli, sjálfsstyrking, skipulagning félagsmiðstöðvar viðkomandi skóla og viðburðarstjórnun.

Katrín og Arnór Heiðmann eru með opið hús á mánudögum fyrir nemendur í 8.-10. bekk, einnig er klúbbakvöld á miðvikudagskvöldum fyrir sama aldur en Arnór og Arna halda utan um það starf. Miðstigsopnun (5.-7. bekkur) er að loknum skóla á þriðjudögum og er hún í umsjón Katrínar ásamt nemendum í valgreininni.

Hér vinstra megin á heimasíðu skólans má sjá tengil þar sem dagskrá ársins er vel útlistuð. Við hvetjum nemendur og foreldra að kynna sér dagskrána vandlega og nýta þá afþreyingu og þjónustu sem í boði er.

Í öllu starfi Félak eru forvarnir hinn rauði þráður starfsins sama hvort það er í leikjaformi eða beinni fræðslu. Forvarnarstarf hefur löngum sannað gildi sitt í að draga úr áhættuhegðun og annars konar óæskilegum áhrifum á lýðheilsu barna og unglinga.

Umsjónarmenn félagsmiðstöðvanna eru jafnframt umsjónarmenn forvarna. Það fyrirkomulag eykur samstarf Félak við skólanna og auðveldar á margan hátt skipulag og annað samstarf. Starfsmenn hafa unnið forvarnardagatal með yfirliti yfir þá fræðslu sem fram fer í skólanum á skólaárinu. Meðal þeirrar fræðslu sem nemendur skólans munu njóta, eftir því í hvaða bekk þeir eru, er um jafnrétti og hamingju, fræðsla um netnotkun, fræðsla um fjármálavit, erindi frá Grófinni – geðverndarsamtökum, vímuefnafræðsla og hinsegin fræðsla. Eins og síðustu ár ætlar Sigga Dögg að fræða nemendur 8. bekkjar um kynlíf og 7. bekkur fær fræðslu um netið og samskipti. Of langt mál er að segja frá öllu sem framundan er, en inn á heimasíðu Rósenborgar, www.rosenborg.is er hægt að skoða velferðaráætlun sem gildir frá 2015-2017.

Síðast uppfært 12.10 2016