Forvarnardagur gegn einelti

Forvarnardagur gegn einelti er 8. nóvember ár hvert. Í dag gaf skólinn öllum nemendum í 1. bekk og þeim sem eru nýir í 2. – 4. bekk handprjónaðar húfur sem á stendur: Gegn einelti. Þetta er í fjórða sinn sem við í Oddeyrarskóla gerum þetta en starfsmenn prjónuðu húfurnar. Húfurnar eru merktar hverju barni og hver húfa er með sína liti og eru þær fjölbreytilegar í útliti eins og nemendahópurinn. Við hófum daginn með söngstund í 1. – 4. bekk og lögin sem við sungum í dag voru öll tileinkuð vináttunni. Húfurnar voru svo afhentar í lok þeirrar samverustundar.

Á forvarnardegi gegn einelti er ákveðið viðfangsefni í hverjum árgangi til að vekja sérstaka athygli á þeirri vá sem einelti er og mikilvægi þess að standa saman. Samskiptamál og mikilvægi virðingar og vináttu eru þó rædd mun oftar í skólanum og ber á góma flesta daga. Í Oddeyrarskóla er stuðst við forvarnarefni gegn einelti sem kallast „Stöndum saman“ en þar er fræðsla um hvað einelti er og leiðir til að bregðast við óæskilegri hegðun og framkomu.