Vegna óveðurs eða ófærðar

Kæru foreldrar og forráðamenn

Veðurspá er fremur slæm fyrir morgundaginn og nokkrir hafa haft samband til að spyrja um skólahald. Það eru sameiginlegar verklagsreglur fyrir alla grunnskólana á Akureyri og ágætt að rifja upp ef slæmt veður er í aðsigi. Vonum samt það besta og að veðrið verði milt og gott hjá okkur á Akureyri.

Verklagsreglur
Tilkynning lögreglu. Ef veður eða færð er með þeim hætti að morgni að lögregla mælir með því að skólahald verði fellt niður, er brugðist við því. Þá fellur niður allt formlegt skólahald í leik- og grunnskólum Akureyrarbæjar, samkvæmt tilmælum lögreglu.

Sviðsstjóri fræðslusviðs er í slíkum tilvikum í sambandi við lögreglu að morgni og kemur tilkynningu í RÚV og Bylgjuna um að kennsla sé felld niður í leik- og grunnskólum á Akureyri. Er þá gert ráð fyrir því að fyrsta tilkynning sé birt kl. 7.00 að morgni. Sviðsstjóri fræðslusviðs sendir þá sms til leik- og grunnskólastjórnenda með tilkynningu um að skólahald falli niður. Skólastjórnendur sendi þá þegar á sína starfsmenn upplýsingar um stöðu mála.

Ábyrgð foreldra. Almennt þegar vond vetrarveður ganga yfir verða foreldrar ávallt að meta sjálfir hvort óhætt sé að senda barn í skólann ef ekki hefur komið tilkynning frá lögreglu um að skólahald skuli falla niður. Í hverjum skóla er alltaf einhver hluti starfsmanna mættur til að taka á móti þeim börnum sem kunna að mæta, ef upplýsingar um lokun að tilmælum lögreglu hafa ekki náð til foreldra að morgni. Sé barn heima vegna veðurs eða ófærðar þarf að tilkynna það í sms/síma eða með tölvupósti.

Ábyrgð skólayfirvalda. Af öryggisástæðum er hver skóli ábyrgur fyrir því að stjórnandi/starfsmaður sé kominn í skólann að morgni fyrir skólabyrjun ef vera skyldi að einhverjir mættu. Þeir eru þá upplýstir um að skólahald falli niður og nemendur/leikskólabörn skuli vera heima. Tryggja skal öryggi ungra grunnskólabarna, að þau séu ekki send ein heim aftur heldur tryggt að ábyrgðaraðili sæki. Af öryggisástæðum verða einhverjir að vera í húsi til kl. 10:00.

Síðast uppfært 09.12 2019