Fréttir frá nemendum úr valgreininni fjármálalæsi

Í valgreininni fjármálalæsi í Oddeyrarskóla höfum við í haust unnið nokkur skemmtileg verkefni.

Fyrsta verkefnið sem við unnum var að skoða verð á Glerártorgi. Allir nemendur völdu sér eina dýra vöru, t.d. tölvu og sjónvarp. Við reiknuðum svo út hvað það kostaði að kaupa vöruna með því að taka lán fyrir vörunni t.d. með Netgíró og Pei. Niðurstaðan var sú að kostnaður við að kaupa vöruna með afborgunum var allt frá 13% – 25%. Við reiknuðum einnig hversu miklu munaði að kaupa vörur í litlum eða stórum umbúðum. Í öllum tilfellum var hagstæðara að kaupa meira magn, t.d. kostaði ½ líter af mjólk 130 kr. og 1 líter 212 kr. Þannig munaði 48 krónur á sama magni.

Hópurinn fór á tvær bílasölur og valdi sér álitlegan bíl til að ,,kaupa”. Nemendur reiknuðu út hvað það kostar að taka bílalán og hve mikil útborgun ætti að vera. Allir settu upp ársyfirlit sem sýndi hvað kostaði að eiga og reka bílinn í heilt ár. Flestum kom að óvart hvað það var dýrt að reka bílinn. Ekki var nóg að geta staðið við útborgun eða afborganir. Nemendur flettu upp á kostnaði, t.d. við umfelgun, smurningu, tryggingar, viðhald, dekk, bifreiðargjöld o.s.frv.  

Eitt af verkefnum vetrarins var að búa til áætlun til að safna peningum og settu nemendur sér markmið og upphæð til að leggja fyrir mánaðarlega. Þannig var verkefnið sett upp í töflureikni og nemendur fundu ársvexti og reiknuðu hvað færi há upphæð í fjármagnstekjuskatt.

Við erum einnig að fylgjast með verðþróun á ákveðnum vörum í matvöruverslun og berum saman verð í ágúst og desember. Niðurstöður af þeirri könnun benda ekki til verðhækkana. Nemendur hafa líka fylgst með verði á bensíni og olíu við höfum notað handhæga síðu á netinu sem heitir gsmbensin.is. Þannig höfum við séð að einn lítri af bensíni hefur hækkað um nokkrar krónur, líklega vegna þess að gengi íslenskrar krónu hefur lækkað gagnvart öðrum gjaldmiðlum.

Í flestum verkefnum studdist hópurinn við bókina Fyrstu skrefin í fjármálum eftir Gunnar Baldvinsson sem skólinn fékk að gjöf. Með bókunum fylgdu spil með hugtökum sem tengjast fjármálum og fjármálalæsi sem við höfum notað mikið. Í lokin settum við helstu hugtök upp í Quizlet sem var góð tilbreyting.    

Nemendur í fjármálalæsi í Oddeyrarskóla og María Aðalsteinsdóttir, kennari

Síðast uppfært 07.12 2018