LESTU

leshilla6 leshilla5Í gær var hátíðardagur í Oddeyrarskóla. Við héldum að vanda upp á Dag íslenskrar tungu, að þessu sinni með hátíðlegri athöfn í sal skólans.

Akureyrarbær skrifaði á síðasta ári undir þjóðarsáttmála um læsi. Þjóðarsáttmálinn hefur það markmið að öll börn geti við lok grunnskóla lesið sér til gagns. Við höfum í rúmlega ár verið að vinna að gerð nýrrar læsistefnu í samvinnu við aðra skóla á Eyjafjarðarsvæðinu. Hún felur í sér fjölbreytta nálgun á læsi, m.a. með auknum æfingum, vinnu með lesskilning, ritun og hið talaðaða mál. Oddeyrarskóli hefur á þessi ári lagt megináherslu á samræður og hugtakaskilning samhliða því að vinna stöðugt að því að vekja áhuga nemenda á því að lesa fjölbreyttan texta.

Þegar við vorum á kafi í þessari vinnu og leit að betri leiðum kom Svanhildur Daníelsdóttir fyrrverandi aðstoðarskólastjóri með hugmynd sem ekki var staðist. Hún sýndi okkur mynd af bókahillum úr stöfum sem mynduðu orðið „R E A D“ og um leið hvatti hún okkur til að taka hugmyndina lengra og að sjálfsögðu á íslensku. Það stóð ekki á viðbröðgunum og nú, tæpu ári síðar, prýða hillurnar anddyri skólans og þjóna þeim megintilgangi að auka áhuga nemenda á lestri bóka.

Til að þessi draumur gat orðið að veruleika fengum við ýmsa styrki, t.a.m. frá Blikk- og tækniþjónustunni og Pólýhúðun, en þessi fyrirtæki önnuðust gerð hillanna. Skólinn fékk veglegan styrk frá útskriftarnemendum síðasta vors, en þau færðu skólanum peningagjöf í kveðjuskyni. Jafnframt fékk skólinn styrk frá Byko.

Nauðsynlegt er að auka bókakost skólans við svona tækifæri. Unnur Vébjörnsdóttir formaður foreldrafélagsins, stóð fyrir söfnun í fyrirtækjum á svæðinu og færði hún í dag skólanum 200.000 kr. til bókakaupa. Einnig fengum við 50.000 króna styrk til bókakaupa frá Akureyrarapóteki.

Við í Oddeyrarskóla færum öllum þeim sem komið hafa að þessu upplífgandi verkefni okkar bestu þakkir.

Það er einstaklega dýrmætt þegar starfsfólk skólans, fyrrverandi starfsfólk, nemendur, foreldrar og samfélagið allt bera svo hlýjan hug til skólans að þeir eru tilbúnir til að leggja á sig auka vinnu eða fjármagn til að glæða skólasamfélagið og gleðja nemendur okkar – og okkur öll!

Hér má sjá tengil á vef Akureyrarbæjar þar sem fjallað er um lestrarhilluna okkar.

Hér má sjá fb færslu Blikk- og tækniþjónustunnar með myndum.

 

Síðast uppfært 17.11 2016