Um þessar mundir berst foreldrum allra grunnskólabarna á Akureyri bréf frá Soffíu Vagnsdóttur, fræðslustjóra Akueyrarbæjar þar sem hún vekur athygli foreldra á læsisátaki okkar og mikilvægi þess að við hjálpumst öll að við lestrarnám barnanna. Hún biðlar til foreldra um að vera með í lestrarátaki skólanna á Akureyri. Bréfið endar á eftirfarandi orðum:
„Með þessu bréfi biðla ég til ykkar allra um að vera með í lestrarátaki skólanna á Akureyri. Við ætlum okkur að ná frábærum árangri með börnin okkar. Við viljum festa í sessi þá hugsun að það er á ábyrgð okkar allra að börnin okkar verði læs. Að þau séu hvött, studd og hafi góðar fyrirmyndir. Þetta er grundvallaratriði. Í Reykjanesbæ náðist á örfáum árum frábær árangur í samræmdum prófum með sameiginlegu átaki í læsi. Þar var lyft grettistaki þar sem allir hjálpuðust að og öxluðu ábyrgð. Þetta viljum við gera á Akureyri. Við ætlum að ná árangri. Við þurfum ykkur kæru foreldrar með í liðið.“
Við hvetjum alla foreldra/forráðamenn barna í Oddeyrarskóla til að kynna sér innihald þessa bréfs.
Síðast uppfært 01.09 2015