Á viðtalsdegi þann 16. október var foreldrum skólans boðið að sækja fræðslu í skólanum í formi menntabúða og fræðsluerinda. Sérfræðingar innan og utan skóla tóku að sér fræðsluna og var í þetta sinn hægt að velja á milli nokkurra ólíkra erinda. Menntabúðir voru um 30 mínútur hver og gátu allir valið að mæta á eina til fjórar slíkar á milli klukkan tvö og fjögur þennan dag. Könnun var gerð á áhuga foreldra í formi skráningar í gegnum tölvupóst en allir gátu mætt óháð þeirri skráningu. Við vorum mjög ánægð með mætinguna og vonum að þeir sem komu hafi haft gagn og gaman af. Við höfum undanfarið ár verið að taka lítil skref í áttina að því að breyta fyrirkomulagi á viðtalsdögum í Oddeyrarskóla og höfum við hug á að halda áfram að þróa þetta samstarf og samtal við foreldra með það að leiðarljósi að styrkja skólasamfélagið, auka tengsl og bæta almennt skólastarf. Við þökkum foreldrum og starfsfólki fyrir daginn, við finnum fyrir miklum stuðningi og vilja allra til að þróa samstarfið áfram.
Síðast uppfært 18.10 2019