Snillingarnir – þjálfun í samskiptum, tilfinningastjórn og athygli barna með ADHD

snillingarnirFjölskyldudeild Akureyrarbæjar býður börnum með ADHD að taka þátt í námskeiði til að efla færni á ýmsum sviðum. Námskeiðið er fyrir börn fædd árið 2004 og 2005 og eru 6 börn í hverjum hóp. Áhersla er lögð á að auka færni barna í félagslegum samskiptum, skapstillingu, sjálfsstjórn og að bæta athyglisgetu þeirra. Hópurinn hittist tvisvar í viku 2 tíma í senn, í 5 vikur (10 skipti alls) með tveimur þjálfurum. Eftirfarandi þættir eru teknir fyrir með börnunum í litlum hópum:

Tilfinninga- og reiðistjórnun: Börnunum eru kenndar ýmsar aðferðir við að stilla tilfinningar sínar þegar það er ekki viðeigandi að sýna þær, m.a. reiðistjórnun í samskiptum. Þar að auki læra þau um tilfinningar, svipbrigði og áhrif aðstæðna á líðan þeirra og annarra. Sú þekking mun nýtast þeim í samskiptum við aðra.

Félagsfærni: Farið er yfir atriði eins og hvernig og hvenær er viðeigandi að hefja samskipti við aðra, samskiptareglur og aukna færni í að setja sig í spor annarra.

Sjálfsstjórn: Kenndar eru aðferðir sem nýtast við að hamla hvatvísi og auka stjórn á eigin hegðun.

Þrautalausnir: Farið er yfir aðferðir við að leysa ýmis vandamál sem upp koma á skynsamlegan hátt. Í því felst að finna valmöguleika í stöðunni, hugsa um mögulega útkomu hvers valmöguleika og velja bestu lausnina til að ná ákveðnu markmiði.

Athyglisþjálfun: Í hverjum tíma eyðir hvert barn u.þ.b. 20 mínútum í tölvuforriti sem er ætlað að auka athyglisgetu, vinnsluminni og vinnsluhraða.

Þjálfarar á námskeiðinu verða Helga Vilhjálmsdóttir og Guðný Dóra Einarsdóttir sálfræðingar við Sérfræðiþjónustu skóla á Fjölskyldudeild.

Námskeiðið verður 10. mars–9. apríl, 2014 á mánudögum og miðvikudögum kl. 16:15-18:15, 10 skipti alls.

Til að sækja um Snillinganámskeiðið vinsamlegast sendið umsókn á þar til gerðu umsóknarblaði og sendið á Fjölskyldudeild fyrir 24. febrúar. Umsóknarblað geta forráðamenn fengið hjá skóla eða á Fjölskyldudeild. Nánari upplýsingar hjá Helgu Vilhjálmsdóttur og Guðnýju Dóru Einarsdóttur í síma 460-1420 eða  með tölvupósti á helgav@akureyri.is eða gudnydora@akureyri.is

Þátttökugjald: kr. 7.000 fyrir námskeiðið

umsoknareydublad_snillinga

Síðast uppfært 13.02 2014