Síðustu tvær vikurnar hafa börnin í 1. og 2. bekk upplifað mikil ævintýri. Einn daginn barst þeim flöskuskeyti með bréfi frá sjóræningjahrói sem sagðist vera villtur og rataði ekki heim. Síðan þá hafa börnin skrifast á við sjóræningjann og kennt honum ýmislegt. Til dæmis hafa þau þurft að leiðbeina honum með muninn á stöfunum b, p og d, kenna honum áttirnar og fjöllin í kringum okkur auk þess að leiðbeina honum með almenna mannasiði og kurteisi. Hver og einn nemandi hefur skrifað honum bréf með ýmsum spurningum og leiðbeiningum. Einn daginn þegar nemendur mættu í skólann voru blaut fótspor um alla stofu ásamt litlum demöntum. Þetta þótti börnunum afskaplega spennandi. Tvö bréf fundust svo í stofunni. Í öðru þeirra voru vísur en í hinu, sem var sendibréf, mátti finna vísbendingu um nafn sjóræningjans. Þar voru allir stafirnir í rugli og nú ætla börnin að takast á við það verkefni um helgina að leysa stafaruglið og komast að því hvað sjóræningjahróið heitir. Ef til vill koma foreldrar til hjálpar 🙂
Sjóræningjaævintýrið er hluti af vinnu í byrjendalæsi og hafa kennarar í gegnum það samþætt vinnuna við nám í fleiri greinum, s.s. stærðfræði, lífsleikni, myndlist, landafræði og ritun.
Myndir eru komnar á myndasíðu skólans, athugið að þær eru í tveimur möppum.
Síðast uppfært 08.11 2014