Í lok nóvember stendur til að nemendur í 9. bekk Oddeyrarskóla fari í starfskynningar í fyrirtæki hér á Akureyri eða í nágrenni.
Starfskynningar eru liður í náms- og starfsfræðslu skólans og byggja m.a. á aðalnámsskrá grunnskóla (2011) en þar er m.a. kveðið á um tengsl skóla og nærsamfélags.
Þá er óskað eftir því að strákar kynni sér vinnustað/starfsgrein þar sem konur eru almennt í meirihluta og að stelpur kynni sér vinnustað/starfsgrein þar sem karlar eru almennt í meirihluta. Nemendur mega einnig vera báða dagana á ,,óhefðbundnum“ vinnustað ef vilji er fyrir hendi og samþykki fæst á vinnustaðnum.
Þessi kynjabundni þáttur er liður í jafnréttisáætlun Oddeyrarskóla sem m.a. byggir á 23. gr. jafnréttislaga þar sem segir: Í náms- og starfsfræðslu og við ráðgjöf í skólum skulu piltar og stúlkur óháð kyni hljóta fræðslu og ráðgjöf í tengslum við sömu störf.
Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands eru konur t.d. í miklum meirihluta starfa í heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu og fræðslustarfsemi. Karlar eru hins vegar í miklum meirihluta starfa í mannvirkjagerð og iðnaði svo dæmi séu tekin. Að starfskynningu lokinni fræða nemendur foreldra sína, samnemendur og kennara um það sem þeir hafa kynnt sér á vinnustað. Umsjón með framkvæmd starfskynninga hafa Þuríður námsráðgjafi og Hrafnhildur umsjónarkennari.
Síðast uppfært 21.11 2014