Tónlistar- og leiklistarhópi unglingastigs boðið í leikhús

Gullna hliðiðFimmtudagskvöldið 16. janúar var leiklistar- og tónlistarhópi af unglingastigi  Oddeyrarskóla boðið til generalprufu á uppfærslu Leikfélags Akureyrar á leikverki Davíðs Stefánssonar, Gullna hliðinu. Jafnframt var hópnum boðið að eiga samtal við leikstjóra og leikmyndahönnuð að sýningu lokinni.

Vel var mætt og nutu nemendur sýningarinnar sem er í alla staði alveg frábær. Þótt texti verksins sé þungur þá er honum gerð afar góð skil og þannig að allar kynslóðir skilja hann vel. Nemendur voru sammála um leikurinn hafi verið tilþrifamikill auk þess sem leikmynd er frábærlega hönnuð.

Kennari og nemendur sem þáðu þetta boð leikhússins eru sammála um að þessi sýning henti fólki á öllum aldri og væri þannig frábær fjölskyldustund.  Þarna gefst líka tækifæri til að heiðra minningu Akureyrarskáldsins Davíðs Stefánssonar og halda í þann arf sem hann færði komandi kynslóðum.

Við þökkum leikfélagi Akureyrar innilega fyrir gott boð 🙂

Síðast uppfært 17.01 2014