Upphátt

Upplestarkeppnin „Upphátt“ um vandaðan upplestur og framburð fór fram í Kvosinni, sal Menntaskólans á Akureyri í gær. Áður hét keppnin Stóra upplestrarkeppnin en nú hefur sú breyting orðið á að keppnin er alfarið í höndum fræðsluskrifstofu og grunnskólanna á Akureyri hvað varðar skipulag og af því tilefni var ákveðið að breyta um nafn. Athöfnin var hátíðleg að vanda þar sem fimmtán nemendur úr 7. bekk grunnskólanna á Akureyri og Hrísey lásu texta eftir Hrund Hlöðversdóttur og ljóð eftir Sigmund Erni Rúnarsson ásamt því að velja og flytja ljóð að eigin vali. Flutt voru tónlistaratriði í umsjón Tónlistaskólans á Akureyri en flest þeirra voru flutt af nemendum 7. bekkjar. Oddeyrarskóli átti tvo fulltrúa, þá Olaf og Snjóka sem stóðu sig báðir með mikilli prýði en Snjóki vann keppnina í ár og er það einkar gleðilegt þar sem Oddeyrarskóli hefur aldrei átt sigurvegara fyrr í Stóru upplestrarkeppninni. Við erum afar stolt af nemendum okkar og ekki síður Leylu sem æft hefur af kappi með aðstoð umsjónarkennarans Dóra og Þórarins. Hér má sjá fleiri myndir frá keppninni.

Síðast uppfært 28.03 2022