Dagurinn í dag var einn af þessum dásamlegu dögum í skólastarfinu!
Hinn árlegi fjölgreindadagur var í dag og unnu allir nemendur skólans á aldursblönduðum stöðvum um allan skóla, 18 mínútur á hverri stöð. Við leitumst við að vera með fjölbreyttar stöðvar sem þjálfa nemendur á sviðum ólíkra greinda Gardners.
Meðal viðfangsefna dagsins voru trjámálun, ýmsar íþróttaþrautir, rúmfræðiþrautir, að þekkja fuglahljóð, spurningakeppni í Kahoot og að þrykkja á og sauma fjölnota innkaupapoka. Elstu nemendur skólans eru hópstjórar og bera ábyrgð á hópnum sínum allan daginn. Vinapör eru saman svo yngri nemendur njóta góðs liðsinnis vina í eldri árgöngum skólans.
Öllum að óvörum (nema Mörtu eldvarnarfulltrúa) fór eldvarnarkerfið af stað í miðjum klíðum. Rýma þurfti skólann skv. rýmingaráætlun. Nú reyndi á, því aðstæður voru heldur óvenjulegar. En æfingin gekk ljómandi vel og voru allir nemendur komnir á sinn stað á grasvellinum á tveimur mínútum. Stefnt er að næstu æfingu í vor.
Fleiri myndir eru væntanlegar á myndasíðu.
Síðast uppfært 05.10 2016