Byrjendalæsi í Oddeyrarskóla

IMG_0838IMG_0833Oddeyrarskóli er einn af fyrstu skólunum til að taka upp Byrjendalæsi sem kennsluaðferð í lestrarkennslu yngstu barnanna. Hér var unnið mikið frumkvöðlastarf fyrstu árin í innleiðingu aðferðarinnar. Kennarar höfðu ekki námsefni til að styðjast við og unnu hörðum höndum að því að skapa góða umgjörð um læsiskennslu í 1. og 2. bekk með dyggum stuðningi starfsmanna Háskólans á Akureyri.

Kennarar skólans eru sammála um að aðferðin hafi marga kosti umfram það sem áður var notað, hún bjóði upp á stöðuga þróun og hafni jafnframt engum öðrum góðum lausnum í læsisnámi barna. Mikið er lagt upp úr því að allir þættir læsis fái athygli; þ.e. umskráning, lestur, ritun og talað mál. Verkefnin innan þessara þátta eru fjölbreytt og fær sköpunarkraftur nemenda og kennara að njóta sín við val á þeim. Mikil áhersla er lögð á að nálgast þarfir nemenda út frá reglulegu mati á stöðu þeirra svo þeir fái verkefni við hæfi. Mikil vinna hefur verið lögð í að finna og útbúa verkefni og leiðir til að bregðast við á markvissan hátt þegar árangri er ábótavant í þeim skimunarprófum sem lögð eru fyrir.

Árangur Oddeyrarskóla á samræmdum prófum er sveiflukenndur og má skýra það með ýmsum þáttum. Kennsluhættir eru ávallt skoðaðir þegar rýnt er í niðurstöður prófa og tökum við fagnandi hverjum þeim leiðum sem geta fleytt okkur áfram í átt að betri árangri með nemendum okkar. Skólinn hefur nýtt PALS aðferðina í læsisvinnunni sem styður vel við það sem gert hefur verið í Byrjendalæsi. PALS er þó ekki heildstæð leið sem hægt er að nota allt skólaárið en góð viðbót sem hentar mörgum nemendum. Eins nýtum við skimunarprófið Leið til læsis til að skima eftir lestrarvanda og fylgja eftir framförum. Leið til læsis fellur einnig vel að hugmyndum Byrjendalæsis og styður vel við það. Við teljum Byrjendalæsi vel til þess fallið að hjálpa börnum að ná árangri í námi í 1. og 2. bekk en fjölmargir aðrir þættir skipta þar einnig máli.

Byrjendalæsi fellur einkar vel að hugmyndum sem birtast í Aðalnámskrá grunnskóla frá 2011, bæði hvað varðar markmið í íslensku og áherslum á að efla lykilhæfni nemenda.

Við upphaf innleiðingar á byrjendalæsi var búið til myndband til að kynna þessa nálgun í lestrarnámi og hvetjum við aðila skólasamfélagsins til að skoða það hér.

Meðfylgjandi myndir eru frá heimsókn Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra þegar hann kom á degi íslenskrar tungu 16. nóvember 2013 til að kynna sér hugmyndafræði byrjendalæsis.

Síðast uppfært 26.08 2015