UNICEF-hreyfingin

Í gær tóku nemendur Oddeyrarskóla þátt í UNICEF- hreyfingunni. En í mörg undanfarin ár hafa nemendur tekið þátt í áheitahlaupi til stryktar UNICEF. Hlaupið var í logni og blíðu eins og þessar myndir bera með sér. Markmiðið með UNICEF hreyfingunni er að fræða börn um réttindi í Barnasáttmálanum og virkja þau til samstöðu með jafnöldurum sínum um allan heim.

SKÓLALEIKUR

Hvað er „skólaleikur“.

Haustið 2017 stóð Akureyrabær í fyrsta sinn fyrir „skólaleik“. Um er að ræða tveggja vikna aðlögunartímabil leikskólanemenda að grunnskólanum sínum. Þar sem nemendur eru í flestum tilvikum að koma úr fleiri en einum leikskólum bæjarins er lögð megináhersla á að börnin kynnist innbyrðis ásamt því að þau kynnist skólahúsnæðinu, matsalnum, frístundinni, útisvæðinu o.fl.

„Skólaleikur“ er starfræktur í tvær vikur og hefst á þriðjudegi eftir verslunarmannahelgi. Opnunartíminn er frá kl. 7.45 – 16.15 og býðst foreldrum að velja um tvö tímabil frá 12. – 19. ágúst (6 dagar) eða alla 10 dagana þ.e. 6. – 19. ágúst að báðum dögum meðtöldum.

Gert er ráð fyrir að börnin ljúki leikskólagöngu sinni um sumarlokun leikskóla og  stendur til boða að hefja „skólaleik“ í grunnskólanum sínum þriðjudaginn eftir verslunarmannahelgi*. Þeir foreldrar sem þurfa nauðsynlega á leikskóla að halda að loknu sumarleyfi leikskólans og fram að „skólaleik“, eru beðnir að snúa sér til skólastjóra leikskólans með óskir sínar.

Gjaldskrá fyrir „skólaleik“ er hin sama og í leikskóla og eru gjöldin innheimt með sambærilegum hætti og leikskólagjöld.

Sótt er um „skólaleik“ í íbúagátt Akureyrarbæjar á síðunni https://www.akureyri.is/

Vinsamlega athugið að eftir sem áður þurfa þeir foreldrar sem óska eftir frístund fyrir börn sín yfir vetrartímann, að sækja um það sérstaklega á umsóknareyðublaði fyrir grunnskóla.

*Verslunarmannahelgi er fyrsta helgi ágústmánaðar. Mánudagurinn eftir verslunarmannahelgi er almennur frídagur.

Hlutu 3. sætið í Siljunni

Þeir Jóhannes Ísfjörð, Óskar Óðinn og Steinar Bragi, nemendur í 10. bekk Oddeyrarskóla tóku þátt í Siljunni. Strákarnir hömpuðu 3. sætinu fyrir myndband sem þeir gerðu um bókina Elmar fer í göngutúr. Umsögnin sem þeir fengu fyrir myndbandið var: Mjög sniðugt, frumlega leyst og vel teiknað. Skemmtileg notkun á teikningum í anda bókarinnar.

Siljan er myndbandasamkeppni Barnabókaseturs Íslands fyrir grunnskólanemendur. Markmið keppninnar er að auka áhuga barna og unglinga á bóklestri. Keppt er í tveimur flokkum, 5. – 7. bekk og 8. – 10. bekk. Siljan er opin nemendum í öllum skólum landsins og er keppnin er styrkt af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu. 

Við óskum þeim Óskari, Jóhannesi og Steinari Braga innilega til hamingju með flottan árangur!

Hér má sjá mynband strákanna: