Skólahald í dag

Skólahald verður með eðlilegum hætti í dag í leik- og grunnskólum Akureyrarbæjar og tónlistarskólanum. Veðurspá gerir ekki ráð fyrir mjög slæmu veðri hér á Akureyri. Þó er vissara að hafa varann á og fylgjast vel með viðvörunum og tilkynningum á heimasíðum skólanna og Akureyrarbæjar.

Útivistardagur í dag

Við höldum okkar striki og förum í Hlíðarfjall í dag. Það er mikið frost svo það er afar mikilvægt að allir séu vel klæddir en það má alltaf leita í skjól innan húss ef þarf. Skíðafæri er gott og veður milt fyrir utan kuldann.

Frístund opnar fyrr í dag og þar verður tekið á móti börnum sem þar eru skráð. Aðrir koma heim í fyrra fallinu en þetta er skertur skóladagur skv. skóladagatali.

Áætluð viðfera í fjallinu er eftirfarandi en ef breytinga verður þörf munu nemendur 1. – 7. bekkjar ljúka viðveru í skólanum skv. þessu tímaplani. Boðið verður upp á hádegismat við komu í skólann.

1. – 4. bekkur. Mæting í skóla kl. 08:10. Rútur í Hlíðarfjall kl. 08:15 og til baka kl.11:15.      

5. – 7. bekkur. Mæting í skóla kl. 08:30. Rútur í Hlíðarfjall kl. 08:45 og til baka kl. 12:00.

8. – 10. bekkur. Mæting í skóla kl. 8:45. Rútur í Hlíðarfjall kl. 9.00 og til baka kl.12:15.

Útivistardagur í Hlíðarfjalli fimmtudaginn 13. febrúar

Stefnan er tekin á útivistardag í Hlíðarfjalli fimmtudaginn 13. febrúar. Samkvæmt veðurspá verður talsvert frost þennan dag en úrkomulaust og mjög hægur vindur. Þar sem veður eru válynd munum við taka stöðuna snemma á fimmtudagsmorgni og setja upplýsingar á heimasíðuna eins fljótt og auðið er, um hvort farið verður í fjallið eða ekki. Færslunni verður deilt á facebooksíðu skólans og einnig verður sendur tölvupóstur til foreldra. Mikilvægt er að klæða sig eftir veðri og taka með gott nesti.

Árshátíð Oddeyrarskóla 2020

Árshátíð nemenda Oddeyrarskóla verður haldin í lok janúar. Undirbúningur er í fullum gangi en það hefur m.a. áhrif á íþróttakennslu en íþróttasalurinn er undirlagður fyrir æfingar vikuna fyrir árshátíð og þá þarf ekki að koma með íþróttaföt.

Föstudaginn 24. janúar er tvöfaldur skóladagur eins og fram kemur á skóladagatali. Nemendur mæta í skólann á venjulegum tíma en þennan dag verður kennsla ásamt því sem allir árgangar sýna sín árshátíðaratriði og allir fá að horfa á atriðin hjá hinum. Skóla lýkur klukkan 14:15 hjá öllum nemendum þennan dag en Frístund er að venju opin til kl. 16:15.

Á laugadag eru foreldrasýningar ásamt glæsilegu kaffihlaðborði foreldrafélagsins sem er í boði milli sýninga. Sýningarnar eru þrjár svo rýmra sé um gesti í salnum. Ekkert kostar inn á sýningarnar en það kostar 1000 kr. fyrir fullorðna og 500 kr. fyrir börn á skólaaldri á kaffihlaðborðið. Nemendur 10. bekkjar eru með stærsta atriðið eins og hefð er fyrir en leikstjóri er Ívar Helgason. Árshátíðaratriði bekkjar eru sem hér segir:

Klukkan 11:00 sýna 1., 3., 8. og 10. bekkur

Klukkan 13:00 sýna 2., 4., 6. og 10. bekkur

Klukkan 15:00 sýna 5., 7., 9. og 10. bekkur

Nemendur mæta til umsjónarkennara áður en sýning hefst (nánari upplýsingar hjá hverjum umsjónarkennara) og dvelja með kennara þar til sýningu lýkur. Eftir það eru þeir á ábyrgð foreldra. Við biðjum gesti um að sýna tillitsemi á sýningum og vera ekki með óþarfa ráp.

Mánudaginn 27. janúar er frí í skólanum vegna viðveru nemenda og starfsfólks á laugardeginum. Föstudaginn 31. janúar er árshátíðarball unglingastigs frá kl. 20:30-23:30.

Skóli fimmtudaginn 12.12.

Skólahald verður í öllum skólum bæjarins á morgun, fimmtudag, samkvæmt dagskrá. Veðrið virðist ganga hægar niður en spáð var og því hefur gengið hægar að hreinsa götur bæjarins. Framkvæmdamiðstöð reiknar með að moka fram á kvöld og hefja mokstur kl. 4 í fyrramálið.

Skóli fellur niður eftir hádegi í dag, þriðjudag vegna veðurs

Skólahald fellur niður á Akureyri frá kl. 13. Frístund lokar einnig þá.

Við mælumst til að foreldrar barna í 1. – 4. bekk sæki börn sín og óskum eftir að þeir foreldrar sem vilja að yngri börn gangi heim láti vita í síma 4609550 eða sendi póst til rannveig@oddeyrarskoli.is. Nemendur í 5. – 10. bekk mega ganga heim að hádegishléi loknu en ef foreldrar ætla að sækja eldri börn þarf að láta okkur vita svo við getum komið skilaboðum til þeirra.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun varðandi morgundaginn, við látum ykkur vita um leið og ákvörðun liggur fyrir.

Forvarnardagur gegn einelti

Forvarnardagur gegn einelti er 8. nóvember ár hvert. Í dag gaf skólinn öllum nemendum í 1. bekk og þeim sem eru nýir í 2. – 4. bekk handprjónaðar húfur sem á stendur: Gegn einelti. Þetta er í fjórða sinn sem við í Oddeyrarskóla gerum þetta en starfsmenn prjónuðu húfurnar. Húfurnar eru merktar hverju barni og hver húfa er með sína liti og eru þær fjölbreytilegar í útliti eins og nemendahópurinn. Við hófum daginn með söngstund í 1. – 4. bekk og lögin sem við sungum í dag voru öll tileinkuð vináttunni. Húfurnar voru svo afhentar í lok þeirrar samverustundar.

Á forvarnardegi gegn einelti er ákveðið viðfangsefni í hverjum árgangi til að vekja sérstaka athygli á þeirri vá sem einelti er og mikilvægi þess að standa saman. Samskiptamál og mikilvægi virðingar og vináttu eru þó rædd mun oftar í skólanum og ber á góma flesta daga. Í Oddeyrarskóla er stuðst við forvarnarefni gegn einelti sem kallast „Stöndum saman“ en þar er fræðsla um hvað einelti er og leiðir til að bregðast við óæskilegri hegðun og framkomu.