Skipulagsdagur mánudaginn 2. nóvember 2020

Fræðsluyfirvöld á Akureyri hafa ákveðið að hafa skipulagsdag mánudaginn 2. nóvember í leik- og grunnskólum, tónlistarskólanum og frístundastarfi vegna hertra sóttvarnaaðgerða stjórnvalda. Þetta er gert svo starfsfólk skólanna fái svigrúm til að endurskipuleggja skólastarfið og tryggja að sóttvarnir verði eins vandaðar og kostur er.

Þriðjudaginn 3. nóvember verður starf leik-, grunn og tónlistarskóla samkvæmt breyttu skipulagi og nýrri reglugerð um sóttvarnir í leik- og grunnskólum.

Nánari upplýsingar um skólastarfið verða sendar frá skólunum til foreldra og forsjáraðila fyrir dagslok á morgun, mánudag.

Skólahald hefst að nýju á mánudag

Skólahald hefst að nýju á mánudaginn 26. október samkvæmt stundaskrá. Foreldrar hafa fengið nánari upplýsingar í tölvupósti. Hllökkum til að hitta alla aftur í skólanum!

Smit í Oddeyrarskóla (uppfært)

Nemandi á miðstigi hefur greinst með staðfest smit af Covid-19. Vegna þessa hefur skólanum verið lokað og allt starfsfólk og nemendur sæta nú úrvinnslusóttkví á meðan smitrakning fer fram.

Starfsfólk, nemendur og foreldrar þeirra eru beðnir að fylgjast vel með því hvort fram komi einkenni sjúkdómsins og er bent á að hafa samband við heilsugæsluna ef grunur vaknar um smit. Enn er óupplýst hver uppruni smitsins er en smitrakning er hafin.

Oddeyrarskóli verður lokaður mánudaginn 19. október vegna smitsins og síðan taka við haustfrí út næstu viku.

Nánari upplýsingar ma finna inni á www.covid.is

Þær aðgerðir sem verður farið í á þessu stigi í samráði við almannavarnir eru:

  • Allir nemendur í 5. 6. og 7. bekk fara í sóttkví og verða boðaðir í sýnatöku upp úr miðri næstu viku.
  • Allir starfsmenn á miðstigi, kennarar og stuðningsfulltrúar og allir þeir sem hafa verið í beinum tengslum við hin smitaða í fimmtán mínútur eða lengur fara í sóttkví.
  • Úrvinnslusóttkví er því aflétt hjá öðru starfsfólki en um að gera að fara að öllu með gát hér eftir sem hingað til.
  • Skólinn verður eftir sem áður lokaður á mánudag til að takmarka umgengni.
  • Frístund verður lokuð alla næstu viku þar sem margir starfsmenn eru í sóttkví.

Pangea stærðfræðikeppnin 2020

Nokkriar af þeim 3712 nemendum sem tóku þátt í ár

Í dag fóru fram úrslit Pangeu 2020 sem var frestað síðasta vor vegna kórónuveirufaraldursins. Af sömu ástæðum var keppnin í dag frábrugðin úrslitum síðustu ára. Ekki var hægt að safnast saman í Menntaskólanum við Hamrahlíð en í staðinn þreyttu þátttakendur prófið á skólatíma í sínum skólum víðs vegar um landið.

Ekki eru enn komnar niðurstöður en Ebba Þórunn Jónsdóttir úr Oddeyrarskóla stóð sig vel og er ein af 86 sem luku keppni í 3. umferð keppninnar en alls tóku 3.712 nemendur þátt úr 70 skólum,.

Byrjað verður að skrá nemendur í keppni þessa skólaárs í janúar og um að gera að við hvetjum sem flesta til að taka þátt.

Útivistardagur 16. september

Miðvikudaginn 16. september er útivistardagur í Oddeyrarskóla, en þessi dagur er dagur íslenskrar náttúru. Veðurhorfur eru góðar þennan dag. Farið verður með rútum frá skólanum að bílaplaninu við Súlur. Nemendur yngsta stigs fara í gönguferð og berjamó í brekkum að Fálkafelli. Nemendur miðstigs og unglingastigs hafa val um mismunandi gönguleiðir, þ.e. að Glerárstíflu, Fálkafell-Gamli-Hamrar, eða Súlur. Nemendur koma heim með rútum sem fara á mismunandi tíma, frá 11:30-13:30. Hádegismatur er í boði við heimkomu. Lok skóladags eru skv. stundaskrá en þeir sem fara alla leið á Súlur gætu komið seinna heim en stundaskrá segir til um. Mikilvægt er að vera klæddur eftir veðri, á góðum skóm og með hollt og gott nesti.

Skólabyrjun 2020

Skólasetning Oddeyrarskóla verður á sal skólans mánudaginn 24. ágúst. Nemendur mæta:

kl. 9:00, 2. – 4. bekkur

kl. 9:30, 5. – 6. bekkur

kl. 10:00, 8. – 10. bekkur

Skólastjóri setur skólann en nemendur fylgja svo umsjónarkennara í sínar heimastofur. Dagskráin þennan dag tekur 30-45 mínútur. Að þessu sinni óskum við eftir að nemendur mæti án foreldra en við viljum takamarka umgengni annara en starfsmanna og nemenda um skólahúsnæðið eins og kostur er. Nemendur 7. bekkjar fara að Reykjum kl. 8:30 um morguninn. Foreldrar nemenda sem hefja nám í 1. bekk verða boðaðir í viðtal 24. eða 25. ágúst.

Unicef hreyfingin

Nemendur skólans söfnuðu 299.752 krónum í Unicefhreyfingunni sem fram fór á vordögum. Nemendur söfunuðu áheitum og komu með peninga í skólann í lokuðu umslagi en aðstandendur gátu einnig lagt beint inn á reikning samtakanna. Áheitasöfnunin verður nýtt þar sem neyðin er mest og í langtímauppbyggingu í samfélögum þar sem grunnstoðir þarf að bæta s.s. til kaupa á matvælum, hreinlætisvörum og bóluefni.

Viðurkenning fræðsluráðs

Samkvæmt skólastefnu Akureyrarbæjar skal árlega, veita þeim einstaklingum eða stofnunum sem skarað hafa fram úr í skólastarfi viðurkenningar. Markmiðið er að vekja sérstaka athygli á því sem vel er gert og hvetja þá sem fyrir valinu verða til þess að halda áfram því góða starfi sem þeir eru að vinna og jafnvel gera enn betur. Viðurkenning er einnig staðfesting á að viðkomandi skóli/kennari/nemandi er fyrirmynd annarra á því sviði sem viðurkenning nær til. Að þessu sinni fékk Þura Björgvinsdóttir nemandi viðurkenningu og Einar Magnús Einarsson tölvuumsjónarmaður skólans.