100 miða leikur

Mánudaginn 11. maí höldum við áfram með 100 miða leikinn. Við tökum upp þráðinn þar sem frá var horfið en þegar samkomubann með skertu skólastarfi skall á vorum við hálfnuð í leiknum.

Starfsmaður  fær afhentar tvær  “stjörnur” og gefur nemendum sem fara eftir reglum. Nemendur fara síðan með stjörnuna sína til ritara sem skráir niður og sendir póst heim skv. vinnureglum. Áætlað er að tilkynnt verði um vinningsröð miðvikudaginn 20. maí og farið verði í umbun með þeim heppnu.


Börn á reiðhjólum

Þar sem sólin er farin að hækka á lofti og snjórinn nánast farinn eru margir búnir að taka fram reiðhjólin sín sem er hið besta mál. Við brýnum fyrir fólki að fara að öllu með gát og huga að öryggi barnanna. Hér má sjá hjólareglur Oddeyrarskóla.

Öll börn þurfa að hafa hjálm og hann verður að passa barninu og sitja rétt á höfðinu. Athugið að þykkar húfur geta breytt því hvernig hjálmurinn hlífir.

Það þarf að huga að settum umferðarreglum en í Umferðarlögum: 44. gr. má sjá eftirfarandi: „Börn og reiðhjól. Barn yngra en níu ára má ekki hjóla á akbraut nema undir leiðsögn og eftirliti manns sem náð hefur 15 ára aldri. Hjólreiðamaður sem náð hefur 15 ára aldri má reiða börn yngri en sjö ára, enda séu þeim ætluð sérstök sæti og þannig um búið að ekki stafi hætta af hjólteinunum“.

Börn yngri en 9 ára mega því ekki fara ein síns liðs um gatnakerfið ef þau þurfa að vera á akbrautum. Hjóli börn yngri en 9 ára á milli staða, verða þau að komast leiðar sinnar eftir gangstígum, gangstéttum og gangbrautum. Akbrautir eru bannsvæði, nema undir eftirliti þeirra eldri. Leiðbeinum þeim yngstu og sýnum ábyrgð.

Þá brýnum við fyrir þeim sem eru á vélknúnum hjólum að fara að öllu með gát en hér má sjá reglur um létt bifhjól 1.

SETJUM HEIMSMET Í LESTRI

VERTU MEÐ Í LANDSLIÐINU

Í tilefni af því að nú erum við mörg heima, og vantar eitthvað gefandi til að nýta tímann í, ætlum við að sameinast í einu liði, landsliðinu í lestri, og setja heimsmet í lesnum mínútum á einum mánuði.

Allir sem lesa geta verið með. Þú þarft bara að skrá mínúturnar sem þú lest á þessari síðu og hún reiknar út hvað allir eru búnir að lesa samtals.

Ef það er eitthvað sem er nóg af í ástandinu þá er það tími. Það er hægt að nýta hann vel og minna vel, og ein albesta nýtingin er að lesa. Fyrir utan hvað það er skemmtilegt þá gerir lestur kraftaverk í lesandanum. Hver blaðsíða eflir orðaforðann, kveikir nýjar hugmyndir og eykur skilning á lesmáli og veitir þannig aðgang og skilning á heiminum öllum.

Þetta er frekar einfalt: Því meira sem við lesum því betra.

Svo nú er bara að reima á sig lesskóna og grípa næstu bók. Viðbúin – tilbúin – lesa!

Heilræði á tímum kórónuveiru

Lýðheilsusvið embættis landlæknis hefur tekið saman 10 heilræði sem byggja á niðurstöðum rannsókna á því hvað er gagnlegt að gera til að hlúa að andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan.

Nú þegar við stöndum frammi fyrir nýjum áskorunum tengdum kórónuveirunni er mikilvægt að huga vel að þessum þáttum. Heilræðin taka mið af þeim sérstöku aðstæðum sem nú ríkja í samfélaginu.

Fjarnám í Oddeyrarskóla

Síðustu dagar og vikur hafa verið alveg dæmalausar og fjölmargir að aðlaga sig að breyttum veruleika, en allir eru að leggja sitt af mörkum til að láta hlutina ganga sem best upp og eiga þeir hrós skilið fyrir það.

Til að nemendum og foreldrar hafi betri yfirsýn yfir námið höfum við sett í loftið sérstaka síðu sem ætluð er 5. -10. bekk en þar getið þið fundið upplýsingar eins og námsáætlun, rafbækur og ýmist hagnýtt efni. Eins geta þeir sem ekki hafa aðgang að tölvu heima hjá sér sótt um að fá lánað tölvu á síðunni meðan ástandið varir.

Frekari takmörkun skólastarfs í grunnskólum Akureyrar

Í ljósi nýjustu tilmæla Almannavarna þarf að endurskoða skipulag skólastarfs frá og með þriðjudeginum 24. mars. Sóttvarnir eru forgangsmál hjá öllum í samfélaginu og eiga þær við allsstaðar og alltaf. Hólfun skóla verður enn markvissari en verið hefur og tekið verður fyrir allan ónauðsynlegan samgang á milli þeirra hvort sem um nemendur eða starfsfólk er að ræða.

Nú er okkur gert að fækka í hópum eldri nemenda og skólar munu því vinna samkvæmt því sem hér segir:

  • 1.-4. bekkur verður áfram fram til hádegis í skólanum skv. sama skipulagi og verið hefur.
  • 5.-7. bekk verður skipt í tvo hópa og mæta nemendur annan hvern dag samkvæmt nánara skipulagi sem ykkur berst frá hverjum skóla.
  • 8.-10. bekkur verður alfarið í heima- og sjálfsnámi með aðstoð kennara

Eindregin tilmæli eru um að þeir foreldrar sem eru heima yfir daginn og geta haft börn sín heima geri það. Það styrkir enn frekar sóttvarnir og auðveldar starfsfólki að halda uppi reglubundnu starfi.

Bestu þakkir fyrir ríkan skilning á stöðunni og það er gott að finna hvernig samtakamátturinn fleytir okkur áfram við aðstæður sem þessar.

Karl Frímannsson
sviðsstjóri fræðslusviðs Akureyrarbæjar

Fréttir af skólastarfi

Skólastarfið hefur gengið vel í Oddeyrarskóla þrátt fyrir takmarkanir í ljósi breyttra aðstæðna í samfélaginu og gerum við okkar besta til að  mæta nemendum með fjölbreyttum leiðum í námi. 

Allir nemendur skólans eru í námshópum sem ekki blandast á skólatíma. Í hverjum hópi eru að hámarki 20 nemendur. Nemendur 1. – 7. bekkjar fá útiveru á hverjum degi og lögð er áhersla á að hópar blandist ekki þar. Skóli byrjar 8:10 hjá þessum nemendum en skólinn opnar 7:50 og nemendur eru að koma inn á mismunandi tíma. Miðstigið hættir milli 12:00 og 12:30 en yngsta stigið kl. 13:00. Starfsmenn mæta fyrr en venjulega og fara beint inn í kennslustofur. Nemendur á unglingastigi mæta alla daga í skólann klukkan 12:45 og eru til 15:30 en stunda annað nám að morgni. Umsjónarkennari á fund með sínum nemendum á google meet klukkan 10 alla dag og þá eru nemendur klæddir og komnir á ról og tilbúnir að fara út í hreyfingu dagsins sem þeir gera grein fyrir. 

Aðstæður sem þessar reyna á og það sem er einna mest krefjandi er að vera á sama svæði mest allan skóladaginn með sama nemendahóp. Það er aðdáunarvert hvað allir standa sig vel í þessu, bæði nemendur, kennarar og aðrir starfsmenn og verkefnin eru fjölbreytt þó ekki sé farið milli stofa. 

Nemendur í 1. – 7. bekk fá mat í hádeginu. Yngsta stigið fær mat inn í kennslustofur en matráður fer með hitaborð á staðinn og skólaliðar á svæðinu aðstoða við að útdeila mat og taka saman mataráhöld og afganga. Miðstigið fer í matsalinn, einn hópur í einu með ákveðnu millibili og þar fá nemendur að borða áður en þeir fara heim. 

Frístundin er aðeins opin fyrir 1. og 2. bekk sem eru á aðskildum svæðum. Nemendur í 3. og 4. bekk eiga kost á að vera í Frístund til klukkan 14:00

Þetta fyrirkomulag getur breyst með litlum fyrirvara og því er nauðsynlegt að fylgjast vel með. Allar upplýsingar til foreldra koma með tölvupósti og verða birtar á heimasíðu. Við vekjum athygli á því að ef aðgerðir Almannavarna til að minnka líkur á smiti verða hertar og skólinn þarf að skerða enn frekar þjónustu eða loka þurfa foreldrar á forgangslista að sækja sérstaklega um fyrir sín börn í 1. og 2. bekk en vinnuveitendur senda upplýsingar um það ferli. Athugið þó að það er neyðarráðstöfun og aðeins gripið til í brýnustu nauðsyn.

Við þökkum foreldrum og forráðamönnum fyrir ómetanlegan skilning og stuðning sem við höfum fundið fyrir undarfarna daga.

Gjafir frá foreldrafélagi Oddeyrarskóla

Við skólann starfar öflugt foreldrafélag sem styður við skólann á margvíslegan hátt. Á dögunum fékk skólinn nýjan prentara að gjöf en hægt er að teikna með honum og skera út í efni og filmu. Foreldrafélagið gefur einnig pressu sem notuð er til að þrykkja á tau, t.d. myndir á boli eða töskur sem búið er að prenta í nýja prentaranum.

Foreldrafélagið hefur einnig gefið mannbrodda til notkunar á skólatíma fyrir nemendur og nú var verið að bæta við fleiri mannbroddum. Yngri kynslóðin hefur verið dugleg að nota mannbroddana í hálkunni en þeir eru til afnota í frímínútum óski nemendur eftir því.

Þá má geta þess að félagið hefur gefið bókasafni skólans ákveðna peningaupphæð til að bæta við bókakost skólans.

Það er ómetanlegt fyrir skólasamfélagið að hafa þennan bakjarl til að styðja við og augða starfið okkar og færum við foreldrafélaginu okkar bestu þakkir.