Aðalfundur foreldrafélagsins næstkomandi þriðjudag

Þriðjudaginn 18. september kl. 20:00 mun foreldrafélag Oddeyrarskóla halda aðalfund félagsins.

Fundurinn verður í matsal skólans og áætlað að hann taki um klukkustund.

Við hvetjum foreldra til að mæta og taka þannig þátt í öflugu starfi félagsins.

Útivistardagur í næstu viku

Samkvæmt skóladagatali er á dagskrá útivistardagur nk. þriðjudag 4. september. Eins og þið vitið reynum við að fara þegar veður er gott og reiknum við með að svo verði þennan dag. Ætlunin er að allir nemendur skólans gangi saman upp að Hraunsvatni og mun ferðin taka stóran hluta skóladagsins. Það er því mikilvægt að börnin verði vel búin og vel nestuð fyrir ferðina. Ekki er verra að hafa aukasokka með í för. 

Við sendum nánari upplýsingar eftir helgi.

Námsgögn

Nemendur þurfa ekki að kaupa nein námsgögn til að nota í skólanum. Allir nemendur skólans fá þau námsgögn sem nota þarf s.s. skriffæri, liti, stílabækur og möppur. Það eina sem nemendur þurfa að hafa með sér er skólataska og íþróttafatnaður.

Skólasetning í Oddeyrarskóla þriðjudaginn 21. ágúst 2018

Kæru foreldrar/forráðamenn og nemendur!

Þriðjudaginn 21. ágúst verður Oddeyrarskóli settur. Kristín skólastjóri setur skólann í íþróttasal skólans kl. 9:00 og eftir það fara allir nemendur í 2. – 10. bekk með umsjónarkennara sínum í stofur þar sem þeir fá afhentar stundatöflur og aðrar upplýsingar.

Nemendur og foreldrar 1. bekkjar eru boðaðir í viðtöl fyrstu skóladagana og því verður ekki sérstök móttaka á skólasetningardag fyrir hópinn hjá umsjónarkennara, en það væri gaman að sjá sem flesta 1. bekkjar nemendur á sal skólans kl. 9.

Við vekjum um leið athygli forráðamanna og annarra áhugasamra um skólann á nýuppfærðri heimasíðu þar sem m.a. má lesa vorskýrslu okkar frá síðasta ári, bekkjarnámskrár, skólanámskrá og starfsáætlun skólans fyrir skólaárið 2018-2019.

Valgreinanefnd grunnskólanna hlýtur viðurkenningu Fræðsluráðs

Í gær, fimmtudaginn 14. júní, fór fram afhending á viðurkenningum Fræðsluráðs Akureyrarbæjar. Meðal þeirra er hlutu viðurkenningu var valgreinanefnd grunnskólanna, en nefndin á veg og vanda að samvali grunnskólanna á Akureyri. Samvalið gerir nemendum bæjarins kleift að velja úr talsvert fleiri valgreinum en ef ekki um slíkt samstarf væri að ræða. Valgreinanefndin samanstendur af stjórnendum og námsráðgjafa, einum fulltrúa frá hverjum skóla. Fjóla Kristín Helgadóttir, deildarstjóri eldri deildar við Oddeyrarskóla, er fulltrúi skólans í nefndinni og hefur hún raunar setið í nefndinni frá stofnun hennar. Við óskum valgreinanefndinni innilega til hamingju með viðurkenningarnar og þökkum öllum fulltrúum hennar ötult starf í þágu unglinga á Akureyri.

Skólaslit á fimmtudag

Oddeyrarskóla verður slitið fimmtudaginn 7. maí 2018.

Skólaslit 1. – 7. bekkjar verða á sal kl. 13:00 og eru allir foreldrar velkomnir.

Skólaslit 8. -10. bekkjar og útskrift 10. bekkjar nema verður á sal kl. 17:00. Að þeirri athöfn lokinni er nemendum 10. bekkjar og fjölskyldum þeirra boðið í kaffi með starfsfólki skólans.

 

Oddeyrarskóli hlýtur styrk til Norðurlandasamstarfs um menntun án aðgreiningar

Hér er samstarfshópurinn í heimsókn í Mæla skólanum í Telemark í Noregi 2015.

Oddeyrarskóli, ásamt Háskólanum á Akureyri, hlaut á dögunum veglegan Nordplus styrk til þátttöku í tveggja ára Norðurlandasamstarfi þar sem skoðuð eru skólasamfélög sem hafa markvisst leitað leiða til að starfa í anda menntunar án aðgreiningar. Styrkurinn nemur tæpum 7 milljónum króna.

Markmið verkefnisins er að dýpka þekkingu okkar á því hvernig skólar og skólasamfélög geta styrkt færni sína til að mæta þörfum allra nemenda. Skoðaðir eru starfshættir í námi nemenda, kennslu og vinnubrögðum kennara sem og annarra sem að náminu koma. Hópurinn mun skoða hvað einkennir kennara, stjórnendur og skólamenningu þeirra skóla sem þykja ná góðum árangri í að mæta þörfum ólíkra nemenda. Reynt verður að skilja hvernig ólíkir þættir, svo sem menntun kennara og stjórnenda, stoðkerfið, starfsþróun og stjórnun (leadership) vinna saman við að styðja góða starfshætti í anda menntunar án aðgreiningar.

Skólasamfélög verða heimsótt í Tromsø í Noregi, í Gautaborg í Svíþjóð og á Akureyri á Íslandi til að gera athuganir og ræða við fólk úr skólasamfélaginu (foreldra, nemendur, kennara, stjórnendur, stoðþjónustu o.fl.) um hvernig skólasamfélagið vinnur saman að því að styðja við starfshætti skóla í þessum anda.

Í þessu samstarfi eru þrír fulltrúar frá hverju landanna þriggja. Fulltrúar Íslands í þessu verkefni eru Kristín Jóhannesdóttir, skólastjóri Oddeyrarskóla, Birna Svanbjörnsdóttir lektor við Háskólann á Akureyri og Jenný Gunnbjörnsdóttir, kennsluráðgjafi.

Unicef hlaupið á morgun

UNICEF – hreyfingin er verkefni sem við hér í Oddeyrarskóla höfum tekið þátt mörg síðastliðin ár, en þetta er hlaup þar sem nemendur safna áheitum og fer það eftir því hve nemendur hlaupa mikið hve mikið safnast.

Hlaupið fer fram á morgun og gefst nemendum tækifæri til að safna áheitum fyrir UNICEF. Yngri börnin fara 500 metra hring og þeir eldri hlaupa hring sem er 1.1 km.  Svo fer það eftir fjölda hringja sem nemendur hlaupa hve miklu þeir ná að safna.

Nánari upplýsingar er að finna hér í foreldrabréfi frá UNICEF – hreyfingunni.

Öflugri sjálfsmynd – erindi fyrir foreldra nemenda við Oddeyrarskóla

Oddeyrarskóli hefur fengið Kristínu Tómasdóttur til að flytja erindi sitt „Öflugri sjálfsmynd“ mánudagskvöldið 14. maí fyrir foreldra barna í skólanum og starfsfólk.

Í erindi sínu, sem er 1 klst, leggur Kristín áherslu á þrjá þætti, þ.e.

  1. Hvað merkir orðið sjálfsmynd?
  2. Hvernig þekkjum við sjálfsmynd barnanna okkar?
  3. Hvernig geta foreldrar haft áhrif á sjálfsmynd barnanna sinna?

Heimili og skóli geta í sameiningu hjálpað krökkunum með þessa þætti og getur verið gott að fá hvatningu og góð ráð til þess.

Því viljum við fá a.m.k. einn fulltrúa frá hverju heimili á þetta fræðsluerindi Kristínar sem verður í Oddeyrarskóla mánudagskvöldið næstkomandi, 14. maí,  kl. 20:00.

Hér skráið þið ykkur á erindið.