Fjölgreindadagur í skólanum á morgun!

Á morgun er svokallaður fjölgreindadagur í skólanum. Allir nemendur skólans vinna saman í litlum hópum að því að leysa ýmsar þrautir allan þennan dag. Börn frá 1. bekk og upp í 10. bekk vinna saman í hópum, t.d. að því að svara spurningum í tölvuleik, þekkja persónur úr bókum eða leysa hreyfiþrautir. Markmiðið er að vekja athygli á því að við höfum mismunandi hæfileika og að í sameiningu getum við leyst allar þrautir sem lagðar eru fyrir okkur.

Nesti má vera í frjálslegra lagi, sætabrauð og safar en ekkert sælgæti eða gos.

Við minnum á frídaginn á fimmtudag.

Tomorrow the children will work in groups, children from 1st to 10th grade work together in small groups. They will work toghether, solving all sorts of tasks both with mind and body. The aim is to draw attention to the fact that we all have different abilities and when working together we can solve everything.

The children are allowed to bring something different for snacks, like doughnuts and chocklate milk, but no candy or soda.

There is no school on Thursday.

 

Valgreinar fyrir nemendur í 8., 9. og 10. bekk

Nú er komið að því að nemendur velji sér valgreinar fyrir næsta vetur.  Nemendur í 8. bekk verða í tveimur valgreinum og nemendur í 9. og 10. bekk í fjórum valgreinum.  Auk þess geta nemendur valið sér list – og verkgrein. Nemendur fengu kynningu á valgreinunum fyrir helgi og foreldrar hafa fengið tengla inn á valblöðin en núna fer valið fram í fyrsta skipti með rafrænum hætti.  Nemendur þurfa að vera búnir að velja föstudaginn 11. maí. Hér fyrir neðan má nálgast upplýsingabækling um valgreinarnar.

Valgreinabæklingur

Kaffispjall stjórnenda og foreldra barna í 7. bekk

Næstkomandi föstudag, 4. maí kl. 8:10, ætlum við stjórnendur að bjóða ykkur foreldrum barna í 7. bekk í kaffispjall og kynningu á fyrirkomulagi valgreina næsta vetur.
Jafnframt munum við segja ykkur frá fyrirhuguðum heimsóknum umsjónarkennara næsta haust.
Við verðum í raungreinastofunni og stefnum að því að vera ekki lengur en klukkustund.

Vonumst til að sjá sem flesta!

Gleðilegt sumar!

Okkar árlega sumargjöf hefur verið afhent nemendum og fór hún líklegast heim með þeim í dag.

Það er hefð hjá okkur að senda nemendum sumargjöf við sumarkomuna ár hvert. Sumargjöfin er í formi fallegra orða í garð hvers og eins, rituð af samnemendum eða kennurum. Minnum um leið á að það er skipulagsdagur kennara á föstudaginn svo nemendum mæta næst í skólann mánudaginn 23. apríl.

Sumarkveðja úr skólanum!

Blái dagurinn á morgun – hvetjum alla til að klæðast bláu

Á morgun, föstudaginn 6. apríl, er hinn svokallaði blái dagur. Við hvetjum nemendur og stafsfólk til að klæðast bláu þennan dag og vekja þannig athygli á góðum málstað.

Markmið með bláum apríl er að auka vitund og þekkingu almennings á einhverfu.

Nokkrir áhugaverðir punktar um einhverfu:

  • Einhverfa er meðfædd og því fötlun en ekki sjúkdómur
  • Einhverfa er röskun í taugaþroska og einkennin koma venjulega í ljós fyrir þriggja ára aldur
  • Einkennin birtast helst í skertri getu til að tjá sig, félagslegu samspili og áráttukenndri hegðun
  • 1 af hverju 68 barni fæðist með röskun á einhverfurófi (1,5%) skv. nýjum erlendum rannsóknum
  • Drengir eru 4-5 sinnum líklegri til að fá einhverfugreiningu en stúlkur
  • Það skiptir sköpum að börn með einhverfu fái greiningu og viðeigandi aðstoð sem allra fyrst
  • Engin tengsl eru milli bólusetninga og einhverfu (hefur verið margafsannað af vísindasamfélaginu)
  • Birtingarmyndir einhverfu eru margar og birtast aldrei alveg eins hjá hverjum og einum
  • Einhverfir hafa ótalmargt fram að færa og hafa sína styrkleika – eins og allir aðrir

Nánari upplýsingar og fræðsluefni má nálgast á http://www.blarapril.is/

Oddeyrarskóli hampaði 2. sætinu í Skólahreysti!

Í dag fór fram Akureyrarkeppni í Skólahreysti og gerði lið Oddeyrarskóla sér litið fyrir og hampaði 2. sætinu. Frábær árangur það!

Í liði Oddeyrarskóla voru þau Ólafur Helgi Erlendsson sem keppti í upphýfingum og dýfum, Berglind Líf Jóhannesdóttir sem keppti í armbeygjum og hreystigreip og tvíburasystkinin Heiðar Gauti Jóhannsson og Lilja Katrín Jóhannsdóttir kepptu í hraðabrautinni. Varamenn liðsins voru Hugrún Anna Unnarsdóttir og Amjad Joumaa Naser.

Bjarki Gíslason íþróttakennari sinnti undirbúningi af alúð, kenndi skólahreystival, hélt undankeppni í skólanum og þjálfaði krakkana fyrir keppnina.

Við óskum liðinu og Bjarka innilega til hamingju með frábæran árangur!

Sigurvegarar Akureyrarkeppninnar voru að þessu sinni lið Brekkuskóla og óskum við þeim að sjálfsögðu innilega til hamingju og óskum þeim góðs gengis í lokakeppninni í vor.

 

100 miða leikurinn

 

Í þessari viku byrjar 100 miða leikurinn hjá okkur.
Tilgangur leiksins er að hvetja nemendur til að fara eftir SMT skólareglum. Nemendur leggja sig fram um að sýna fyrirmyndarhegðun í skólanum í leik og starfi og allir nemendur geta verið með í leiknum. Leikurinn gengur út að það að 10 nemendur á dag fá sérmerkta umbunarmiða, brosstjörnur í þá 10 daga sem leikurinn stendur yfir, eða samtals 100 miða. Þegar nemendur fá miða fara þeir með hann til ritara, segja fyrir hvað þeir fengu miðann og draga hjá honum númer frá 1 og upp í 100. Númerið sitt líma þeir á þar til gert spjald. Þegar búið er að fylla spjaldið með 100 miðum þá verður gert ljóst hvaða röð vann. Því standa 10 nemendur uppi sem vinningshafar. Þessir nemendur fá óvænta umbun.

Bestu kveðjur
SMT stýrihópurinn

Kaffispjall stjórnenda og foreldra nemenda í 10. bekk á föstudag

Hefð er fyrir því í Oddeyrarskóla að bjóða foreldrum 1., 4., 7. og 10. bekkjar í kaffispjall með stjórnendum skólans.

Kaffispjallið er óformlegt spjall á kaffistofu starfsmanna og er hugsað til að efla tengsl og og auka samskipti milli heimila og skóla. Þarna gefst kjörið tækifæri til að ræða ýmislegt í skólastarfinu og / eða félagslífi barnanna.

Nú bjóðum við foreldra 10. bekkjar í kaffispjall með Kristínu skólastjóra og Fjólu deildarstjóra föstudaginn 6. apríl kl. 8:10 – 9:00.

Bingódagur í dag

Í dag er síðasti kennsludagur fyrir páska og samkvæmd hefðinni spilum við Bingó. Vinningar eru að sjálfsögðu í formi páskaeggja. 

Á morgun er svo skipulagsdagur og nemenda- og foreldraviðtöl á föstudag.

Við sjáumst svo endurnærð og glöð þriðjudaginn 3. apríl.

Gleðilega páska!

Skíðadagur 14. mars 2018

Ágætu foreldrar/ forráðamenn                                                               

Miðvikudaginn 14. mars er nemendum í Oddeyrarskóla boðið í Hlíðarfjall. Þennan dag er óhefðbundin stundatafla (gulmerktur dagur  í skóladagatali 2. mars) og því er skólinn búinn strax að loknum mat. Innanskólavalgreinar falla niður en frjáls mæting er í utanskólaval. Nemendur sem skráðir eru í mat fá að borða þegar komið er til baka í skólann.

Nemendur í 1. – 3. bekk sem eru sjálfbjarga á skíðasvæðinu geta komið með eigin skíðabúnað. Ekki verður hægt að lána þeim búnað, en þeir geta komið með sleða eða þotur. Nemendur í 4. – 10. bekk sem ekki eiga búnað geta fengið hann lánaðan. Ekki er hægt að skipta um búnað þegar búið er að velja.

Ef nemendur í 5. – 10. bekk ætla að verða eftir í Hlíðarfjalli verða foreldrar að láta umsjónarkennara vita fyrirfram. Að lokinni skipulagðri dagskrá eru nemendur á eigin vegum. Þeir sem ætla að vera lengur en eiga ekki árskort geta keypt rafrænt kort á 1000 kr. sem þeir sækja þegar aðrir fara heim. Þeir nemendur sem hafa búnað að láni geta leigt hann áfram á 1.900 kr.

Munið eftir góðu nesti, hjálmi og góða skapinu. Mikilvægt er að vera klæddur til útivistar, merkja vel föt og allan búnað. Þeir sem ekki eiga hjálm fá hann lánaðan. Ástæða er til að minna nemendur á að ætla sér ekki um of og fara gætilega í brekkunum.

Foreldrum er velkomið að koma með.

 

Mætingar

1.– 4. bekkur. Mæting í skóla kl. 08:10. Rútur í Hlíðarfjall kl. 08:15 og til baka kl.11:15.     

3.– 7. bekkur. Mæting í skóla kl. 08:30. Rútur í Hlíðarfjall kl. 08:45 og til baka kl. 12:00.

8.- 10. bekkur. Mæting í skóla kl. 8:45. Rútur í Hlíðarfjall kl. 9.00 og til baka kl.12:15.

       

Með von um góða skemmtun í Hlíðarfjalli 🙂

Starfsfólk Oddeyrarskóla