Læsissáttmáli

læsiMennta- og menningarmálaráðuneytið og Heimili og skóli – landssamtök foreldra innsigluðu með samningi í janúar sl. samkomulag um læsissáttmála fyrir foreldra. Áður hafði Þjóðarsáttmáli um læsi verið undirritaður af mennta- og menningarmálaráðherra, fulltrúum sveitarfélaga og Heimilis og skóla í öllum sveitarfélögum landsins. Með undirrituninni staðfestu þeir sameiginlegan skilning á mikilvægi læsis til virkrar þátttöku í samfélaginu þannig að hver og einn geti nýtt hæfileika sína samfélaginu öllu til velferðar.

Meginmarkmið samkomulags ráðuneytisins og Heimilis og skóla eru að:

  • Stuðla að aukinni lestrarfærni barna og unglinga með þátttöku og stuðningi foreldra við framkvæmd þjóðarsáttmála um læsi.
  • Útbúa læsissáttmála fyrir foreldra og innleiða hann í skólum landsins.
  • Auka vitund foreldra um ábyrgð þeirra gagnvart læsi barna sinna.
  • Virkja foreldra í að styðja við læsi og lestrarþjálfun barna sinna.
  • Auka samstarf skóla og foreldra um læsisnám barna.
  • Koma á framfæri kynningarefni um áherslur og samstarf frjálsra félagasamtaka og stjórnvalda við að efla læsi barna.

Með innleiðingu læsissáttmála er höfðað til samtakamáttar og samábyrgðar foreldra. Sáttmálanum svipar til foreldrasáttmála Heimilis og skóla sem notið hefur mikilla vinsælda meðal foreldra (nánar á http://www.heimiliogskoli.is/utgefid-efni/foreldrasattmali/).

Á haustmánuðum munu sérfræðingar Heimilis og skóla ferðast um landið og kynna læsissáttmálann fyrir skólastjórnendum, kennurum og foreldrum.

Nánari upplýsingar er að finna hér.

Síðustu skóladagarnir

20160601_110420Þessa vikuna er búið að vera mikið um að vera hjá nemendum.  Á mánudaginn var farið í  sund og í ratleik. Í gær var farið í mismundandi útivist hjá flestum bekkjum. Í dag miðvikud. voru ODDÓleikarnir  haldnir, farið var alls konar leiki á skólalóðinni, Twister, jakahlaup, grillað popp yfir eldi, pokahlaup, eggjakast o.fl.  Og svo var grillað ofan í mannskapinn og boðið upp á Svala með.  Á morgun 2. júní hlaupa nemendur til styrktar UNICEF (svokallað apahlaup) þar sem nemendur hafa safnað áheitum.

Á föstudaginn verður einnig farið um víðan völl – Lystigarðinn og fl.

Mánudagurinn 6. júni er síðasti skóladagurinn, þá verðum við með SMT uppskeruhátíð á sal skólans í upphafi skóladags og munu nemendur troða upp.

Klukkan 13:00 þann dag verða skólaslit hjá 1.-7. bekk. Skólaslitin fara fram í íþróttasal skólans þar sem Kristín skólastjóri mun spjalla stuttlega við hópinn og slíta skólanum. Eftir það fara nemendur í stofur til umsjónarkennara og fá afhent námsmat.

Skólaslit hjá 8. – 10.bekk verða á sal sama dag kl. 17:00. Við þá athöfn fá nemendur námsmat, viðurkenningar verða veittar og 10. bekkurinn útskrifast. Við þetta tækifæri kveðjum við þá starfsmenn sem eru að hætta hjá okkur. Eftir dagskrá í sal er nemendum 10. bekkjar og foreldrum þeirra boðið í kaffisamsæti ásamt starfsfólki skólans.

Við bjóðum foreldra/forráðamenn sérstaklega velkomna á skólaslitin.

Viðurkenningar skólanefndar í Hofi 1. júní 2016

FullSizeRenderSíðdegis í dag fór fram samkoma í Hofi þar sem veittar voru viðurkenningar skólanefndar. Árlega eru veittar viðurkenningar til nemenda sem hafa á einhvern hátt skarað fram úr í skólum bæjarins og einnig eru veittar viðurkenningar fyrir verkefni eða starfshætti í leik- og grunnskólum Akureyrar. Við í Oddeyrarskóla áttum þrjá fulltrúa í dag sem við erum afar stolt af.

Fyrstan ber að nefna Steinar Braga Laxdal nemanda í 7. bekk. Hann hlaut viðurkenningu fyrir gríðarlegar framfarir í námi. Steinar er jákvæður og eljusamur, hann er hjálpsamur, réttsýnn og á auðvelt með að finna lausnir.

Kennararnir Ragnheiður Ásta Einarsdóttir og J. Freydís Þorvaldsdóttir hlutu einnig viðurkenningu skólanefndar fyrir framúrskarandi starfshætti í anda skóla án aðgreiningar.

Þetta er það sem um þær var sagt:

Freydís og Ragnheiður Ásta hafa um nokkurra ára skeið kennt saman í teymi, ýmist tvær eða með aðkomu fleiri kennara. Þær hafa samkennt árgöngum á yngsta stigi með góðum árangri. Þær hafa verið verið í stöðugri þróun í námi og kennslu. Þær hafa verið leiðandi í byrjendalæsi og hafa þróað mér sér starfshætti þar sem þær leitast við að tryggja betri árangur hvers og eins.

Undanfarin tvö ár hafa þær stöllur þróað nýja kennsluhætti í stærðfræði í samstarfi við sérfræðing hjá miðstöð skólaþróunar. Þessi kennsluaðferð miðar að því að auka hugtakaskilning nemenda í stærðfræði, m.a. með því að auka samræður um stærðfræðileg efni.

Freydís og Ragnheiður Ásta hafa af alúð útbúið námsgögn til að fylgja námi nemenda betur eftir og tryggja að hver og einn fái þá þjálfun sem hann þarf. Af einstakri alúð sinna þessir kennarar öllum nemendum hverjar sem þarfir þeirra eru. Þær eru óþreytandi í leit sinni að leiðum til að mæta þörfum nemenda, sama hverjar þær eru. Færni þeirra í námsaðlögun er óumdeild, hvort sem um ræðir skipulag fyrir nemendur með sérþarfir, nálgun þeirra í kennslu eða væntingar þeirra til árangurs fyrir alla nemendur.

Við óskum þeim Steinari, Freydísi og Ragnheiði Ástu innilega til hamingju með viðurkenningarnar.

4. bekkur óvissuferð

IMG_2059IMG_2089Þriðjudaginn 31. maí fór 4. bekkur í óvissuferð/útskriftarferð en þau eru einmitt að útskrifast af yngstastigi 🙂 Við tókum strætó langleiðina upp í hesthúsahverfi en þar tók hann Magnþór Jóhannsson á móti okkurIMG_2023  en hann vinnur hérna í skólanum okkar. Við fengum að knúsa lömb og klappa hestum en einnig vorum við svo heppin að fá að fara á hestbak 🙂 Kennarinn bauð upp á kökur svo þetta var hinn allra besti dagur 🙂IMG_2044

5. bekkur í Hrísey

5. bekkur Hrísey 5. bekkur Hrísey 25. bekkur Hrísey 3
5. bekkur Hrísey 4Laugardaginn 28. maí fórum við krakkarnir í 5. bekk ásamt foreldrum okkar í blíðskaparveðri í skemmtiferð út í Hrísey. Við fórum í taxaferð um eyjuna, borðuðum saman á veitingahúsinu og nýttum svo það sem eftir var dags í sólbað, sund og slúður. Einstaklega skemmtileg og vel lukkuð ferð með frábæru fólki 🙂

Óvissuferð hjá 2. og 3. bekk

Krakkarnir í 2. og 3. bekk tóku lestraráskorun frá kennurunum sínum og lásu yfir 7000 mínútur á fjórum vikum!20160527_092308 óvissuferð 131 óvissuferð 124 óvissuferð 094 óvissuferð 087

Af því tilefni var farið í óvissuferð föstudaginn 27. maí til að gleðjast yfir frábærum árangri.

Við byrjuðum á því að fara með strætó upp á brekku en gengum síðan upp í Breiðholt (hesthúsahverfið fyrir ofan bæinn) og kíktum í fjárhúsið til Magnþórs sem vinnur í skólanum okkar. Síðan fundum við okkur þokkalegt skjól til að borða nestið og héldum síðan heim á leið. Þegar við komum í skólann grilluðum við okkur pylsur.

 

ÁBYRGÐ – VIRÐING – VINÁTTA, einkunnarorð skólans á ýmsum þjóðtungum

Á smiðjudögum sem haldnir voru í apríl var unnið með fjölmenningu. Eitt af verkefnum þessara daga var að búa til spjöld með einkunnarorðum skólans, ábyrgð – virðing – vinátta, á þeim þjóðtungum sem nemendur skólans tala. Hér má sjá nokkur veggspjöld sem finna má á veggjum skólans. Nú getur hver og einn reynt að átta sig á hvaða þjóðtungur þetta eru.FullSizeRender3 FullSizeRender2 FullSizeRender1 FullSizeRender4

1970 árgangurinn heimsækir skólann

1970 árgangurUm þessar mundir eru 30 ár síðan árgangur fæddur 1970 lauk grunnskólagöngu sinni hér í Oddeyrarskóla, þ.e. árið 1986. Af því tilefni hittist stór hluti hópsins um helgina og einn þáttur í dagskránni var að kíkja í heimsókn í gamla skólann. Kristín skólastjóri tók á móti hópnum, sýndi þeim skólann og skemmti sér yfir sögum úr skólagöngu þeirra.

Það var virkilega ánægjulegt að fá hópinn í heimsókn og vonandi þótti þeim gaman að fá innsýn í gamla skólann sinn 🙂

Sumarlestur – Akureyri, bærinn minn

Skráningarupplýsingar til foreldraSumarnámskeiðið Sumarlestur – Akureyri bærinn minn er haldið í júní ár hvert og verður svo einnig á komandi sumri og verður það 16. skiptið. Að námskeiðinu standa Amtsbókasafnið og Minjasafnið á Akureyri í samstarfi við aðrar menningarstofnanir bæjarins. Námskeiðin eru 7.-10.júní, 13-16.júní og 20.-23.júní (4 daga námskeið).

Sumarlestur er lestrarhvetjandi námskeið fyrir börn í 3. og 4. bekk, með áherslu á menningu og sögu Akureyrar. Rauði þráður námskeiðsins er lestur. Þá er bæði átt við bóklestur en einnig læsi á umhverfið. Lesið verður í minjar og sögu, list og náttúru. Þannig er lesið í lífið og tilveruna alla námskeiðsdagana og jafnvel lengur því vonandi fylgir börnunum áfram sú meðvitund sem vaknar varðandi umhverfi þeirra og sögu.

Undir leiðsögn safnfræðslufulltrúa kynnast börnin starfsemi Amtsbókasafnsins, Minjasafnsins og annarra menningarstofnanna. Börnin kynnast starfseminni sem þarna fer fram í samhengi við markmið námskeiðisins.

Á meðfylgjandi mynd er auglýsing námskeiðsins og upplýsingar varðandi skráningu.

Skráning hefst miðvikudaginn 25.maí. 

Sé frekari upplýsinga óskað má hafa samband við safnfræðslufulltrúa Minjasafnsins á Akureyri

Ragna Gestsdóttir á Minjasafninu á Akureyri á netfanginu ragna@minjasafnid.is

Orka og umhverfi – þemavinna á miðstigi

ferlar1Dagana 17.-31. maí eru nemendur á miðstigi að vinna fjölbreytt og skemmtileg verkefni sem tengjast orku og umhverfi. Helstu áhersluþættir eru vatn, raforka, jarðvarmi og eldsneyti. Unnin verða ýmiskonar verkefni, s.s. tölfræðikannanir, kynningar og fleira.

Farið verður í heimsóknir í Norðurorku, Vistorku, á Náttúrufræðistofnun og í auðlindadeild Háskólans á Akureyri og vinna nemendur verkefni tengdum þeim heimsóknum. Að sjálfsögðu nýtum við okkur Google classroom til að halda utan um verkefnin, en nemendur safna öllum verkefnum tengdum þemavinnunni á svæðið og skila þeim í heild. Áhersla er lögð á að nemendur hafi nokkuð frjálsar hendur við úrvinnslu á verkefnum svo það verður virkilega spennandi að sjá afraksturinn.