Oddeyrarskóli hlýtur Erasmus+ styrk !

Erasmus+Oddeyrarskóla barst í morgun sú frábæra frétt að skólinn hefði hlotið Erasmus+-styrk í flokknum „Nám og þjálfun“. Upphæð styrksins er tæplega 16 þúsund evrur og er til tveggja ára. Umsóknin okkar þótti mjög góð og í niðurstöðum matsaðila segir: „Verkefnið er sannfærandi og skýrir vel þörfina fyrir áætlaðar ferðir starfsmanna og hvernig ferðirnar hanga saman við verkefnið í heild sinni.“ Umsóknin hlaut  85 stig af 100 mögulegum.

Styrkféð verður nýtt til endurmenntunar kennara og stjórnenda til að styðja við þau þróunarverkefni sem skólinn er að vinna að. Í fyrsta lagi sækja tveir stjórnendur námskeið um það að styðja við starfsþróun innan skólans, í öðru lagi verður styrkfé nýtt til að heimsækja skóla í Bretlandi sem hafa náð langt í að nýta samræður í skólastarfi og í þriðja lagi heimsækja kennarar úr skólanum breska skóla sem nýta upplýsingatækni í skólastarfi með árangursríkum hætti.

1. maí hlaupið verður á morgun, 14. maí !

hlaupForeldrafélag Oddeyrarskóla hefur greitt þátttökugjald fyrir alla nemendur skólans í 1. maí hlaupið.

Vegna veðurs í byrjun maí var hlaupinu frestað til uppstigningardags, 14. maí. Veðurspáin er góð og við hvetjum alla okkar nemendur til að taka þátt í hlaupinu. Hver og einn fer á sínum hraða.

Skólaþing í Oddeyrarskóla

skólaþing

Nauðsynlegt er að rýna í með reglulegum hætti í skólastarfið og meta hvað vel er gert og hvað megi bæta. Mikilvægt er að gefa nemendum tækifæri til að koma að matinu á lýðræðislegan hátt. Í þessari viku stendur því til að kalla nemendur á skólaþing þar sem þeir eru beðnir um að rýna í ákveðna þætti skólastarfsins. Nemendur á öllum stigum taka þátt í skólaþinginu, en misjafnt er hvernig þingið er framkvæmt á hverju stigi fyrir sig.

Þeir þættir sem eru til umfjöllunar eru m.a. bóklegt nám, smiðjur, hádegismaturinn, íþróttatímar, uppbrotsdagar, samskipti, hvernig stuðlað er að bættum námsárangri og hvernig stuðlað er að gleði í skólastarfinu. Kallað er eftir skoðun nemenda á því sem vel er gert, hvað megi mæta og hvernig.

Listsýning barna í Ketilhúsinu: Sköpun bernskunnar

Hér eru myndverk nemenda langt komin en endanlega útkomu má sjá í Ketilhúsinu.

Hér eru myndverk nemenda langt komin en endanlega útkomu má sjá í Ketilhúsinu.

Samsýningin Sköpun bernskunnar var opnuð í Ketilhúsinu síðasta laugardag. Þátttakendur eru nemendur í leik- og grunnskólum Akureyrar, tíu starfandi myndlistarmenn og Leikfangasýningin í Friðbjarnarhúsi. Þemað er börn og sköpun þeirra. Hugmyndin var að blanda saman list starfandi myndlistarmanna og verkum eftir börn og leikföngum þeirra. Stefnt er að því að sýningin verði árviss viðburður með nýjum þátttakendum ár hvert. 

Nemendur Oddeyrarskóla eiga tvö skemmtileg verk á sýningunni en þau verk voru samvinnuverkefni margra nemenda undir leiðsögn myndlistakennarans Gígju Þórarinsdóttur.

Skólavarðan fjallar um þróun upplýsingatækni í Oddeyrarskóla

skolatreSkólavarðan, málgagn Kennarasambands Íslands, kom út í dag. Í þessu blaði gefur m.a. að líta ítarlega umfjöllun um það þróunarstarf sem við í Oddeyrarskóla höfum unnið síðustu tvö ár en það snýst um að auka upplýsingatækni í námi nemenda í gegnum umhverfi sem kallast Google education.

Google education hefur leyst USB lykla af hólmi og gefið nemendum tækifæri til aukinnar rafrænnar samvinnu auk þess sem það auðveldar kennurum að leiðbeina nemendum á auðveldan hátt við ritunarvinnu.

Myndin hér til hægri sýnir þau hugtök sem komu upp í hugann þegar við horfðum til þess hvað þessi þróun hefur haft í för með sér.

Hér má fletta skólavörðunni og lesa greinina sem er eftir Karl Eskil Pálsson.

Sýn og stefna Oddeyrarskóla

logo -stafalaustEinkunnarorð Oddeyrarskóla eru:

ÁBYRGÐ – VIRÐING – VINÁTTA

Í Oddeyrarskóla vinnum við saman að því að skapa skólasamfélag sem nær árangri. Það einkennist af jákvæðum skólabrag, áhugasömum og metnaðarfullum einstaklingum.

Jákvæður skólabragur byggist á virðingu fyrir öllum einstaklingum og umhverfi þar sem margbreytileika skólasamfélagsins er fagnað. Hver og einn er meðvitaður um gildi sitt í samfélaginu og axlar ábyrgð á hlutverki sínu. Við sköpum áhuga meðal einstaklinga með því að gera námið forvitnilegt og fjölbreytt og náms- og starfsumhverfi vinsamlegt og hvetjandi. Hver og einn sýnir ábyrgð í því að leita leiða til að skapa þessar aðstæður. Við byggjum upp metnað með því að skapa aðstæður þar sem einstaklingum er gefinn kostur á að nýta styrkleika sína og hæfileika til að ná árangri. Mat á starfinu skal sett fram með leiðbeinandi og uppbyggjandi hætti. Þannig skapast vilji til að þróa og efla starfið.

Hjólareglur Oddeyrarskóla

hjólNú er kominn sá árstími að börn og fullorðnir fara að draga fram reiðhjólin sín. Af því tilefni minnum við á hjólareglurnar okkar.

Reglur um hjólanotkun í Oddeyrarskóla.

  1. Nemendur mega koma á hjóli í skólann frá og með vorönn í 2. bekk.
  2. Nemandi sem kemur á hjóli í skólann gerir það á ábyrgð foreldra/forráðamanna sem skulu meta færni og getu nemandans sem og aðstæður til að hjóla í skólann.
  3. Algjört skilyrði er að nota viðeigandi öryggisbúnað.
  4. Ekki má nota reiðhjól í frímínútum eða meðan á skólastarfi og Frístundargæslu stendur. Við brot á þessari reglu má skólinn kyrrsetja hjól og skal foreldri eða forráðamaður þá sækja hjólið.
  5. Þegar komið er á hjóli í skólann á að geyma hjól læst á skólalóðinni í eða við hjólagrindur. Skólinn ber enga ábyrgð á hjólum. Þjófnað eða skemmdarverk getur viðkomandi kært til lögreglu.

Fjármálafræðsla fyrir nemendur í 7. – 10. bekk

Ferd-til-fjar---kapumyndVið vekjum athygli nemenda og foreldra á fjármálafræðslu með Jóni Jónssyni sem er í boði fyrir ungt fólk á aldrinum 12 – 16 ára.  Fræðslan byggir á efni bókarinnar Ferð til fjár eftir Breka Karlsson, forstöðumann Stofnunar um fjármálalæsi. Á fundunum fer Jón yfir það hvernig peningar virka, mikilvægi þess að setja sér markmið og hvernig hægt er að láta peningana endast aðeins lengur. Fræðslufundurinn verður í Menningarhúsinu Hofi miðvikudaginn 8. apríl kl. 20:00. Húsið opnar kl. 19:30.