Skólavarðan fjallar um þróun upplýsingatækni í Oddeyrarskóla

skolatreSkólavarðan, málgagn Kennarasambands Íslands, kom út í dag. Í þessu blaði gefur m.a. að líta ítarlega umfjöllun um það þróunarstarf sem við í Oddeyrarskóla höfum unnið síðustu tvö ár en það snýst um að auka upplýsingatækni í námi nemenda í gegnum umhverfi sem kallast Google education.

Google education hefur leyst USB lykla af hólmi og gefið nemendum tækifæri til aukinnar rafrænnar samvinnu auk þess sem það auðveldar kennurum að leiðbeina nemendum á auðveldan hátt við ritunarvinnu.

Myndin hér til hægri sýnir þau hugtök sem komu upp í hugann þegar við horfðum til þess hvað þessi þróun hefur haft í för með sér.

Hér má fletta skólavörðunni og lesa greinina sem er eftir Karl Eskil Pálsson.

Sýn og stefna Oddeyrarskóla

logo -stafalaustEinkunnarorð Oddeyrarskóla eru:

ÁBYRGÐ – VIRÐING – VINÁTTA

Í Oddeyrarskóla vinnum við saman að því að skapa skólasamfélag sem nær árangri. Það einkennist af jákvæðum skólabrag, áhugasömum og metnaðarfullum einstaklingum.

Jákvæður skólabragur byggist á virðingu fyrir öllum einstaklingum og umhverfi þar sem margbreytileika skólasamfélagsins er fagnað. Hver og einn er meðvitaður um gildi sitt í samfélaginu og axlar ábyrgð á hlutverki sínu. Við sköpum áhuga meðal einstaklinga með því að gera námið forvitnilegt og fjölbreytt og náms- og starfsumhverfi vinsamlegt og hvetjandi. Hver og einn sýnir ábyrgð í því að leita leiða til að skapa þessar aðstæður. Við byggjum upp metnað með því að skapa aðstæður þar sem einstaklingum er gefinn kostur á að nýta styrkleika sína og hæfileika til að ná árangri. Mat á starfinu skal sett fram með leiðbeinandi og uppbyggjandi hætti. Þannig skapast vilji til að þróa og efla starfið.

Hjólareglur Oddeyrarskóla

hjólNú er kominn sá árstími að börn og fullorðnir fara að draga fram reiðhjólin sín. Af því tilefni minnum við á hjólareglurnar okkar.

Reglur um hjólanotkun í Oddeyrarskóla.

  1. Nemendur mega koma á hjóli í skólann frá og með vorönn í 2. bekk.
  2. Nemandi sem kemur á hjóli í skólann gerir það á ábyrgð foreldra/forráðamanna sem skulu meta færni og getu nemandans sem og aðstæður til að hjóla í skólann.
  3. Algjört skilyrði er að nota viðeigandi öryggisbúnað.
  4. Ekki má nota reiðhjól í frímínútum eða meðan á skólastarfi og Frístundargæslu stendur. Við brot á þessari reglu má skólinn kyrrsetja hjól og skal foreldri eða forráðamaður þá sækja hjólið.
  5. Þegar komið er á hjóli í skólann á að geyma hjól læst á skólalóðinni í eða við hjólagrindur. Skólinn ber enga ábyrgð á hjólum. Þjófnað eða skemmdarverk getur viðkomandi kært til lögreglu.

Fjármálafræðsla fyrir nemendur í 7. – 10. bekk

Ferd-til-fjar---kapumyndVið vekjum athygli nemenda og foreldra á fjármálafræðslu með Jóni Jónssyni sem er í boði fyrir ungt fólk á aldrinum 12 – 16 ára.  Fræðslan byggir á efni bókarinnar Ferð til fjár eftir Breka Karlsson, forstöðumann Stofnunar um fjármálalæsi. Á fundunum fer Jón yfir það hvernig peningar virka, mikilvægi þess að setja sér markmið og hvernig hægt er að láta peningana endast aðeins lengur. Fræðslufundurinn verður í Menningarhúsinu Hofi miðvikudaginn 8. apríl kl. 20:00. Húsið opnar kl. 19:30.

Tengja – páskafrí

Heil og sæl kæru foreldrar og nemendur!páskar

Nú er komin ný Tengja, fréttablað okkar í Oddeyrarskóla. Þar gefur að líta upplýsingar um ýmislegt sem unnið hefur verið í skólanum og annað sem er framundan.

Við óskum ykkur öllum gleðilegra páska! Skólastarfið hefst á ný þriðjudaginn 7. apríl.

Bestu kveðjur, stjórnendur.

 

Skautar og bingó á morgun

skautarÁ morgun er síðasti kennsludagur fyrir páskafrí. Hefð er fyrir því að fara á skauta og spila bingó þennan dag. Á bingóinu verða eins og venja er páskaegg í verðlaun. Að vanda er bingóið helgað styrktarbarni okkar, Clyceru Manga sem búsett er í SOS barnaþorpi í Guine Bissau. Nemendur eru að vanda hvattir til að koma með smá peninga til styrktar henni. Til viðmiðunar eru 300-400 krónur ágætt framlag. Þennan dag má koma með sætabrauð og safa í nesti.

Við minnum á að allir eiga að vera með hjálm á skautasvellinu. Mjög gott væri ef krakkarnir gætu komið með hjólahjálmana sína en hægt er að fá lánaða hjálma þar.

Skóli hefst að nýju þriðjudaginn 7. apríl samkvæmt stundaskrá.

Með kveðju og óskum um gott páskafrí,

Kristín, Fjóla og Rannveig,
stjórnendur Oddeyrarskóla

Góður skíðadagur

Skíðaferð-mars 2015nr130Þriðjudaginn 24. mars fóru nemendur Oddeyrarskóla í Hlíðarfjall. Nemendur fóru ýmist á skíði, bretti eða sleða. Á myndasíðu skólans má sjá myndir sem Þórarinn Torfason tók þennan dag.

Byrjendalæsi

gummi 3 002  gummi 2 001

Samþættingarverkefni í 3. og 4. bekk

Nemendur í 3. og 4. bekk unnu saman að stórskemmtilegu samþættingarverkefni í Byrjendalæsi, samfélagsgreinum, myndmennt, textílmennt og upplýsingamennt. Grunnbókin sem við unnum út frá heitir Gummi fer í fjallgöngu eftir Dagbjörtu Ásgeirsdóttur. Einnig unnum við með Komdu og skoðaðu fjöllin, kortabækur og upplýsingar af netinu.

 

Markmiðin með verkefninu voru að:

  • auka samvinnu árganga í þriðja og fjórða bekk
  • auka lestrarfærni nemanda
  • allir fengju námsefni við hæfi
  • bæta ritun nemenda
  • hvetja til sjálfstæðra vinnubragða og auka skapandi starf
  • auka leshraða, lesskilning og lestrargleði

Nemendur útbjuggu sér verkefnamöppur sem þeir söfnuðu verkefnunum sínum í. Hver hópur fékk sérstakt blað sem nemendur merktu inn á þegar þeir luku við hvert verkefni en það hjálpaði þeim að halda utan um námsframvindu þeirra. Mikil áhersla var á skapandi vinnu. Nemendur útbjuggu dúskafjall og teiknuðu mynd af fjalli sem þeir notuðu sem fyrirmynd til að þæfa listaverk eftir.

Það er skemmst frá því að segja að verkefnið lukkaðist virkilega vel. Nemendur voru áhugasamir og mikil námsgleði réði ríkjum.

Fleiri myndir frá verkefninu má sjá á myndasíðu skólans.

Nemendum boðið í Hlíðarfjall 24.mars

Eftirfarandi upplýsingar hafa farið heim í tölvupósti til foreldra/forráðamanna varðandi ferð nemenda í Hlíðarfjall 24. mars.Image result for clipart skiing

______________________________________

Oddeyrarskóli 20. mars 2015
Ágætu foreldrar/ forráðamenn

Þriðjudaginn 24. mars er nemendum í Oddeyrarskóla boðið í Hlíðarfjall. Einhverjir nemendur gætu komið örlítið fyrr heim úr skólanum þennan dag. Valgreinar á unglingastigi verða kenndar óbreyttar eftir hádegi og þarf að mæta í þær nema nemendur hafi leyfi til að vera lengur í fjallinu, þá fá þeir leyfi í valgreininni. Nemendur sem skráðir eru í mat fá að borða um leið og heim er komið.
Nemendur í 1. – 3. bekk sem eru sjálfbjarga á skíðasvæðinu geta komið með eigin skíðabúnað. Ekki verður hægt að lána þeim búnað, en þeir geta komið með sleða eða þotur. Nemendur í 4. – 10. bekk sem ekki eiga búnað geta fengið hann lánaðan í Hlíðarfjalli sér að kostnaðarlausu. Ekki er hægt að skipta um búnað þegar búið er að velja.
Ef nemendur í 5. – 10. bekk ætla að verða eftir í Hlíðarfjalli verða þeir að koma með samþykki frá foreldrum sínum. Fylla má í neðsta hluta þessa blaðs, skrifa miða eða senda tölvupóst til umsjónarkennara til að staðfesta að barn megi vera lengur í fjallinu.
Að lokinni skipulagðri dagskrá eru nemendur á eigin vegum. Þeir nemendur sem ætla að vera lengur en eiga ekki árskort geta fengið lánað rafrænt kort sem þeir verða að sækja milli kl. 12.00- 12.30. Þeim kortum þarf að skila í lok dags og ef þeim er ekki skilað þarf að greiða fyrir kortin eftir á. Þeir nemendur sem hafa búnað að láni geta haft hann allan daginn.
Þó margt starfsfólk fari með og verði nemendum til halds og trausts í fjallinu er áríðandi að foreldrar brýni fyrir börnum sínum að þau gæti að sér hvar sem þau eru og reyni ekki að fara í lyftur og skíðabrautir sem þau ráða ekki við. Sérstaklega beinum við þessum tilmælum til þeirra sem eru óvanir að vera á skíðum eða nota lyftur.

Munið eftir góðu nesti (þennan dag má vera með drykki í fernum og frjálslegt brauð s.s. kringlur eða kleinur), hjálmi og góða skapinu. Mikilvægt er að vera klæddur til útivistar, merkja vel föt og allan búnað. Þeir sem ekki eiga hjálm fá hann lánaðan að kostnaðarlausu.
Foreldrum er velkomið að koma með og fylgjast með nemendum þennan dag. Athugið að hjálmurinn skiptir höfuðmáli hvort sem barnið er á bretti, sleða eða skíðum.
Sólin er farin að hækka á lofti og endurkastið frá snjónum er mikið því er gott að bera á sig sólvörn.
Mætingar:
8. – 10. bekkur. Mæting í skóla kl. 08:00. Rútur í Hlíðarfjall kl. 08.15 og til baka kl.12:45
5. – 7. bekkur. Mæting í skóla kl. 08:00. Rútur í Hlíðarfjall kl. 08:40 og til baka kl.12:45
1. – 4. bekkur. Mæting í skóla kl. 08:00. Rútur í Hlíðarfjall kl. 09:00 og til baka kl.12:00
Með von um góða skemmtun í Hlíðarfjalli
Starfsfólk Oddeyrarskóla
—————————————————————————————————————————————-

Ég undirrituð/aður staðfesti að
Nafn nemanda ________________________________________________ bekkur _______
má vera lengur í Hlíðarfjalli. Ég geri mér grein fyrir að barnið er á mína ábyrgð eftir að
skipulagðri dagskrá Oddeyrarskóla lýkur í fjallinu (berist til umsjónarkennara).
Nafn foreldris/forráðamanns: __________________________________________________