Sigurvegarar í ratleik 2020

Tvö lið voru stigahæst á unglingastigi, stúlkur í 8.b. og 9.b. með 70 stig og svo stúlkur í 5. bekk með 59 stig! Til hamingju með sigurinn stelpur 🙂

Starfsmenn vs. Nemendur

Í Oddeyrarskóla er margra ára hefð fyrir því að bekkir á unglingastigi og starfsmenn etji kappi saman í fótbolta og blaki. Að þessu sinni höfðu starfsmenn sigur, enda gríðarlega vel skipuð lið í báðum greinum, en 9.bekkur veitti þeim harða samkeppni og endaði í öðru sæti.

Stelpur og tækni 2020

Miðvikudaginn 20. maí tóku stelpurnar í 9. bekk þátt í verkefninu Stelpur og tækni á vegum Háskólans í Reykjavík. Hópurinn skemmti sér mjög vel og lærði heilmikið um vefhönnun í WordPress og raftónlist í tónlistarforritinu SonicPi, en hugmyndin með deginum er að kynna ýmsa möguleika í tækninámi og opna þannig augu þeirra fyrir þeim framtíðarmöguleikum sem tæknigreinar bjóða.

100 miða leikur

Mánudaginn 11. maí höldum við áfram með 100 miða leikinn. Við tökum upp þráðinn þar sem frá var horfið en þegar samkomubann með skertu skólastarfi skall á vorum við hálfnuð í leiknum.

Starfsmaður  fær afhentar tvær  “stjörnur” og gefur nemendum sem fara eftir reglum. Nemendur fara síðan með stjörnuna sína til ritara sem skráir niður og sendir póst heim skv. vinnureglum. Áætlað er að tilkynnt verði um vinningsröð miðvikudaginn 20. maí og farið verði í umbun með þeim heppnu.


Börn á reiðhjólum

Þar sem sólin er farin að hækka á lofti og snjórinn nánast farinn eru margir búnir að taka fram reiðhjólin sín sem er hið besta mál. Við brýnum fyrir fólki að fara að öllu með gát og huga að öryggi barnanna. Hér má sjá hjólareglur Oddeyrarskóla.

Öll börn þurfa að hafa hjálm og hann verður að passa barninu og sitja rétt á höfðinu. Athugið að þykkar húfur geta breytt því hvernig hjálmurinn hlífir.

Það þarf að huga að settum umferðarreglum en í Umferðarlögum: 44. gr. má sjá eftirfarandi: „Börn og reiðhjól. Barn yngra en níu ára má ekki hjóla á akbraut nema undir leiðsögn og eftirliti manns sem náð hefur 15 ára aldri. Hjólreiðamaður sem náð hefur 15 ára aldri má reiða börn yngri en sjö ára, enda séu þeim ætluð sérstök sæti og þannig um búið að ekki stafi hætta af hjólteinunum“.

Börn yngri en 9 ára mega því ekki fara ein síns liðs um gatnakerfið ef þau þurfa að vera á akbrautum. Hjóli börn yngri en 9 ára á milli staða, verða þau að komast leiðar sinnar eftir gangstígum, gangstéttum og gangbrautum. Akbrautir eru bannsvæði, nema undir eftirliti þeirra eldri. Leiðbeinum þeim yngstu og sýnum ábyrgð.

Þá brýnum við fyrir þeim sem eru á vélknúnum hjólum að fara að öllu með gát en hér má sjá reglur um létt bifhjól 1.

SETJUM HEIMSMET Í LESTRI

VERTU MEÐ Í LANDSLIÐINU

Í tilefni af því að nú erum við mörg heima, og vantar eitthvað gefandi til að nýta tímann í, ætlum við að sameinast í einu liði, landsliðinu í lestri, og setja heimsmet í lesnum mínútum á einum mánuði.

Allir sem lesa geta verið með. Þú þarft bara að skrá mínúturnar sem þú lest á þessari síðu og hún reiknar út hvað allir eru búnir að lesa samtals.

Ef það er eitthvað sem er nóg af í ástandinu þá er það tími. Það er hægt að nýta hann vel og minna vel, og ein albesta nýtingin er að lesa. Fyrir utan hvað það er skemmtilegt þá gerir lestur kraftaverk í lesandanum. Hver blaðsíða eflir orðaforðann, kveikir nýjar hugmyndir og eykur skilning á lesmáli og veitir þannig aðgang og skilning á heiminum öllum.

Þetta er frekar einfalt: Því meira sem við lesum því betra.

Svo nú er bara að reima á sig lesskóna og grípa næstu bók. Viðbúin – tilbúin – lesa!

Heilræði á tímum kórónuveiru

Lýðheilsusvið embættis landlæknis hefur tekið saman 10 heilræði sem byggja á niðurstöðum rannsókna á því hvað er gagnlegt að gera til að hlúa að andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan.

Nú þegar við stöndum frammi fyrir nýjum áskorunum tengdum kórónuveirunni er mikilvægt að huga vel að þessum þáttum. Heilræðin taka mið af þeim sérstöku aðstæðum sem nú ríkja í samfélaginu.