Upplýsingar vegna árshátíðar sem haldin verður í næstu viku

Nú styttist óðum í árshátíð Oddeyrarskóla, en hún verður haldin laugardaginn 27. janúar. Sýningar fyrir nemendur skólans verða að vanda á föstudeginum.

Hér fyrir neðan eru allar nánari upplýsingar um fyrirkomulagið og biðjum við foreldra / forráðamenn um að kynna sér þær vandlega.

https://www.smore.com/apj5r

Útivistarvalið heimsótti björgunarsveitina

Útivistarvalið heimsótti björgunarsveitina Súlur síðastliðinn föstudag og fékk þar kynningu á starfi sveitarinnar. Hópurinn var áhugasamur um starfið og er aldrei að vita nema þarna leynist björgunarsveitarfólk framtíðarinnar. Við þökkum Súlumönnum kærlega fyrir góðar móttökur!

Gleðilegt nýtt ár!

Kæru foreldrar / forráðamenn barna í Oddeyrarskóla!

Um leið og við óskum ykkur öllum gleðilegs árs með þakklæti fyrir samstarfið og samveruna á því gamla minnum við á að skólastarf hefst á ný fimmtudaginn 4. janúar 2018.

Hlökkum til að sjá alla endurnærða eftir langt og gott frí.

Stjórnendur Oddeyrarskóla

Jólafjör í Oddeyrarskóla

Undanfarnir dagar hafa einkennst af ýmsum jólahefðum sem við í Oddeyrarskóla höfum haldið við í fjölmörg ár. Þessar jólahefðir kalla á góða samvinnu nemenda og starfsfólks sem    okkur finnst svo dýrmæt. Þann 1. desember spilum við félagsvist í íþróttasal skólans og svo annaðist 9. bekkurinn kaffihús í boði foreldrafélagsins. Að sjálfsögðu skárum við og steiktum laufabrauð þann sama dag og Hrafnhildur og Marta buðu upp á fínan jólamat. Það er um að gera að njóta aðventunnar, hvort sem er heima eða í skóla. 

Oddeyrarskóli fagnar 60 ára afmæli

Fimmtudaginn 7. desember fagnaði Oddeyrarskóli 60 ára afmæli sínu. Undirbúningur fyrir hátíðahöldin stóðu í alllangan tíma, til dæmis voru smiðjudagar í lok nóvember helgaðir afmælinu.

Afmælisdagurinn sjálfur hófst með hátíð á sal skólans. Þar mættu nemendur, starfsfólk og um 35 boðsgestir. Núverandi skólastjóri, Kristín Jóhannesdóttir og forveri hennar, Helga Hauksdóttir, fluttu ræður. Nemendur sýndu einnig hvað í þeim býr með söng og dansi. Nemendur annars bekkjar sungu gamlan skólasöng Oddeyrarskóla, rappsveitin Blautir sokkar flutti tvö lög, ásamt dansatriði, nemendur á unglingastigi sýndu frumsaminn dans gegn einelti og þrír nemendur unglingastigs röppuðu um skólann. Í lok dagskrár á sal komu þeir Ívar og Ívan Mendez frá Tónlistarskólanum á Akureyri og léku undir fjöldasöng og er óhætt að segja að stemningin var góð. Þeir hafa stýrt söngstundum hjá okkur í vetur er ljóst að sú vinna hefur skilað sér.

Foreldrafélagið gaf skólanum góðar gjafir sem nýtast munu nemendum vel, bæði búnað til daglegrar hreyfingar í skólanum og fatboy púða á bókasafnið. Þá gáfu hinir skólar bæjarins inneign í Eymundsson, sem mun nýtast til bókakaupa í LESTU-hilluna góðu. Við þökkum innilega fyrir góðar gjafir.

Að lokinni dagskrá á sal var boðið upp á afmælisköku. Þá tók við opið hús þar sem fjöldi gesta kom og kynnti sér skólastarfið. Eitt og annað var í boði og má þar nefna að nemendur sýndu afrakstur þemadaga þar sem unnið var með sögu skólans, dans gegn einelti, myndband um skólann og geysiflott líkön sem nemendur gerðu af húsnæði skólans. Þá sýndu nemendur gestum hvernig þeir nýta tæknina til náms og hvaða möguleika hún býður uppá. Gestir fengu til dæmis að búa til eigin tónlist, stýra litlum vélmennum, kóða og taka þátt í just dance. Jafnframt fengu gestir að sjá hvernig nemendur læra á fjölbreyttan hátt, svo sem með byrjendalæsi, samræðum í námi, Zankow stærðfræði, sköpun og svo framvegis.

Fjölmargir gestir heimsóttu skólann og þökkum við öllum innilega fyrir komuna og góðar kveðjur.

Oddeyrarskóli 60 ára

Í dag, þann 7. desember, eru 60 ár liðin frá því að Oddeyrarskóli hóf starfsemi sína og var að því tilefni fjölbreytt dagskrá en hægt er að sjá nokkur myndbönd frá deginum hér að neðan.

 

Nýtt símkerfi

Unnið verður að uppsetningu á nýju símkerfi í skólanum í dag milli kl. 12:00 og 16:00. Búast má við einhverjum truflunum á símasambandi og biðjumst við velvirðingar á því.