Laugardaginn 28. maí fórum við krakkarnir í 5. bekk ásamt foreldrum okkar í blíðskaparveðri í skemmtiferð út í Hrísey. Við fórum í taxaferð um eyjuna, borðuðum saman á veitingahúsinu og nýttum svo það sem eftir var dags í sólbað, sund og slúður. Einstaklega skemmtileg og vel lukkuð ferð með frábæru fólki 🙂
Category Archives: Fréttir og tilkynningar
Óvissuferð hjá 2. og 3. bekk
Krakkarnir í 2. og 3. bekk tóku lestraráskorun frá kennurunum sínum og lásu yfir 7000 mínútur á fjórum vikum!
Af því tilefni var farið í óvissuferð föstudaginn 27. maí til að gleðjast yfir frábærum árangri.
Við byrjuðum á því að fara með strætó upp á brekku en gengum síðan upp í Breiðholt (hesthúsahverfið fyrir ofan bæinn) og kíktum í fjárhúsið til Magnþórs sem vinnur í skólanum okkar. Síðan fundum við okkur þokkalegt skjól til að borða nestið og héldum síðan heim á leið. Þegar við komum í skólann grilluðum við okkur pylsur.
ÁBYRGÐ – VIRÐING – VINÁTTA, einkunnarorð skólans á ýmsum þjóðtungum
Á smiðjudögum sem haldnir voru í apríl var unnið með fjölmenningu. Eitt af verkefnum þessara daga var að búa til spjöld með einkunnarorðum skólans, ábyrgð – virðing – vinátta, á þeim þjóðtungum sem nemendur skólans tala. Hér má sjá nokkur veggspjöld sem finna má á veggjum skólans. Nú getur hver og einn reynt að átta sig á hvaða þjóðtungur þetta eru.
1970 árgangurinn heimsækir skólann
Um þessar mundir eru 30 ár síðan árgangur fæddur 1970 lauk grunnskólagöngu sinni hér í Oddeyrarskóla, þ.e. árið 1986. Af því tilefni hittist stór hluti hópsins um helgina og einn þáttur í dagskránni var að kíkja í heimsókn í gamla skólann. Kristín skólastjóri tók á móti hópnum, sýndi þeim skólann og skemmti sér yfir sögum úr skólagöngu þeirra.
Það var virkilega ánægjulegt að fá hópinn í heimsókn og vonandi þótti þeim gaman að fá innsýn í gamla skólann sinn 🙂
Sumarlestur – Akureyri, bærinn minn
Sumarnámskeiðið Sumarlestur – Akureyri bærinn minn er haldið í júní ár hvert og verður svo einnig á komandi sumri og verður það 16. skiptið. Að námskeiðinu standa Amtsbókasafnið og Minjasafnið á Akureyri í samstarfi við aðrar menningarstofnanir bæjarins. Námskeiðin eru 7.-10.júní, 13-16.júní og 20.-23.júní (4 daga námskeið).
Sumarlestur er lestrarhvetjandi námskeið fyrir börn í 3. og 4. bekk, með áherslu á menningu og sögu Akureyrar. Rauði þráður námskeiðsins er lestur. Þá er bæði átt við bóklestur en einnig læsi á umhverfið. Lesið verður í minjar og sögu, list og náttúru. Þannig er lesið í lífið og tilveruna alla námskeiðsdagana og jafnvel lengur því vonandi fylgir börnunum áfram sú meðvitund sem vaknar varðandi umhverfi þeirra og sögu.
Undir leiðsögn safnfræðslufulltrúa kynnast börnin starfsemi Amtsbókasafnsins, Minjasafnsins og annarra menningarstofnanna. Börnin kynnast starfseminni sem þarna fer fram í samhengi við markmið námskeiðisins.
Á meðfylgjandi mynd er auglýsing námskeiðsins og upplýsingar varðandi skráningu.
Skráning hefst miðvikudaginn 25.maí.
Sé frekari upplýsinga óskað má hafa samband við safnfræðslufulltrúa Minjasafnsins á Akureyri
Ragna Gestsdóttir á Minjasafninu á Akureyri á netfanginu ragna@minjasafnid.is
Orka og umhverfi – þemavinna á miðstigi
Dagana 17.-31. maí eru nemendur á miðstigi að vinna fjölbreytt og skemmtileg verkefni sem tengjast orku og umhverfi. Helstu áhersluþættir eru vatn, raforka, jarðvarmi og eldsneyti. Unnin verða ýmiskonar verkefni, s.s. tölfræðikannanir, kynningar og fleira.
Farið verður í heimsóknir í Norðurorku, Vistorku, á Náttúrufræðistofnun og í auðlindadeild Háskólans á Akureyri og vinna nemendur verkefni tengdum þeim heimsóknum. Að sjálfsögðu nýtum við okkur Google classroom til að halda utan um verkefnin, en nemendur safna öllum verkefnum tengdum þemavinnunni á svæðið og skila þeim í heild. Áhersla er lögð á að nemendur hafi nokkuð frjálsar hendur við úrvinnslu á verkefnum svo það verður virkilega spennandi að sjá afraksturinn.
Skóladagatal skólaársins 2016-2017
Nú er skóladagatalið fyrir næsta skólaárið samþykkt og komið á heimasíðu skólans undir flipanum skóladagatal.
Vorsýning í stærðfræði hjá 10. bekk
Nemendur í 10. bekk hafa að undanförnu verið að vinna að stórum raunhæfum verkefnum í stærðfræði. Í dag buðu þeir foreldrum, nemendum og starfsfólki skólans á vorsýningu þar sem þeir kynntu afraksturinn.
Krakkarnir höfu frjálsar hendur um viðfangsefni og framsetningu og var ánægjulegt að sjá ólíkar útfærslur nemenda. Meðal annars mátti sjá niðurstöður kannanna, tölfræðiútreikninga og úthugsaðar viðskiptahugmyndir sem kannski munu líta dagsins ljós einhvern daginn.
Fræðslufundur kennara og stuðningsfulltrúa
Kennarar Oddeyrarskóla hafa verið mjög duglegir að þróa kennslu sína með notkun upplýsingatækninnar. Áhersla okkar undanfarin tvö ár hefur verið á umhverfi sem kallast Google for education og hefur þetta umhverfi nýst okkur afar vel í námi og starfi.
Í dag fengum við á fund okkar þær Margréti og Helenu, kennara úr Brekkuskóla, sem einnig hafa lagt mikla stund á upplýsingatækni í skólastarfi. Með þeim komu fjórir galvaskir nemendur sem miðluðu reynslu sinni af rafrænu námi í Brekkuskóla.
Það var virkilega gott og gagnlegt að fá þau öll í heimsókn og kunnum við þeim okkar bestu þakkir fyrir komuna og vonum að samstarf okkar um rafræna kennsluhætti sé bara rétt að byrja 🙂
Vertu þú sjálfur! Fræðsla á vegum Samtaka
Kæru foreldrar barna á unglingastigi
Samtaka er búið að fá Akureyringinn Sigga Gunnars, Útvarpsmann á K-100, til að koma og vera með fyrirlestur fyrir 8 – 10 bekk í öllum grunnskólunum á Akureyri dagana 17. og 18. maí næstkomandi.
Í tilefni þess höfum við ákveðið í samstarfi við Sigga Gunnars að bjóða einnig foreldrum upp á fyrirlestur með honum og verður hann haldinn í Giljaskóla þriðjudagskvöldið 17. maí klukkan 20:00
Fyrirlesturinn ber heitið „Vertu þú sjálfur“ og fjallar um mikilvægi þess að þekkja sjálfan sig, læra á sjálfan sig og samþykkja sjálfan sig og fer Siggi yfir sína sögu og tengir hana við almennar hugleiðingar.
Umsögn frá Pétri Guðjóns viðburðastjóra VMA um fyrirlesturinn:
Fyrirlesturinn var sérlega lifandi og einlægur. Uppbyggingin var ákvaflega forvitnileg þar sem þú skynjaðir strax að áhugaverð saga vr sögð. Saga sem kemur við svo marga varðandi mannleg samskipti og líðan. Eftir að hafa setið aftarlega í salnum varð ég að færa mig fremst því það ver sannarlega óvenjulegt að hafa fullan sal af framhaldsskólakrökkum og það var ekkert skvaldur og varla nokkur að skoða símann sinn. Þegar ég svo horfði framan í hópinn sem hlustaði á Sigga sá ég eftirvæntingu, áhuga og jafnvel gleði. Kannski var ástæða gleðinnar sú að þessir ungu og ómótuðu einstaklingar fundu von hjá sér við að hlusta á Sigga Gunnars. Vertu þú sjálfur er frábær fyrirlestur.
Vonumst til að sjá sem flesta
Fyrir hönd Samtaka,
Monika Stefánsdóttir, varaformaður