Forvarnardagur gegn einelti

Forvarnardagur gegn einelti er 8. nóvember ár hvert. Í dag gaf skólinn öllum nemendum í 1. bekk og þeim sem eru nýir í 2. – 4. bekk handprjónaðar húfur sem á stendur: Gegn einelti. Þetta er í fjórða sinn sem við í Oddeyrarskóla gerum þetta en starfsmenn prjónuðu húfurnar. Húfurnar eru merktar hverju barni og hver húfa er með sína liti og eru þær fjölbreytilegar í útliti eins og nemendahópurinn. Við hófum daginn með söngstund í 1. – 4. bekk og lögin sem við sungum í dag voru öll tileinkuð vináttunni. Húfurnar voru svo afhentar í lok þeirrar samverustundar.

Á forvarnardegi gegn einelti er ákveðið viðfangsefni í hverjum árgangi til að vekja sérstaka athygli á þeirri vá sem einelti er og mikilvægi þess að standa saman. Samskiptamál og mikilvægi virðingar og vináttu eru þó rædd mun oftar í skólanum og ber á góma flesta daga. Í Oddeyrarskóla er stuðst við forvarnarefni gegn einelti sem kallast „Stöndum saman“ en þar er fræðsla um hvað einelti er og leiðir til að bregðast við óæskilegri hegðun og framkomu.

Jólabingó foreldrafélagsins / Christmas bingo in Oddeyrarskóli

Laugardaginn 9. nóvember verður hið árlega jólabingó Foreldrafélags Oddeyrarskóla haldið. Herlegheitin byrja kl 14:00 og standa til ca kl. 17:00 og vinningarnir eru stórglæsilegir.

Spjaldið kostar 500 kr. fyrir hlé en 250 kr. eftir hlé.

10. bekkur verður með kaffisölu í hléi.

Við bendum fólki á að mæta tímanlega þar sem það er takmarkaður sætafjöldi.

Enginn posi er á staðnum.

———

On Saturday the 9th of November from 2 pm to 5 pm our yearly Christmas bingo will be held at Oddeyrarskóli. Grand prizes!

The bingo card costs 500 kr. before the break and 250 kr. after.

The 10th grade will be selling coffee and waffles during the break.

We recommend you show up early as there are limited seats.

Cash only, we will not be able to take cards.

Könnun til foreldra og forráðamanna

Kæru foreldrar og forráðamenn nemenda í Oddeyrarskóla

Þar sem viðtalsdagar eru nýafstaðnir langar okkur stjórnendur að heyra af ykkar upplifun af foreldraviðtali og/eða menntabúðum og svo hópspjalli á unglingastigi eftir því sem við á. Við viljum þróa okkur á þessum vettvangi og koma sem best til móts við þarfir foreldra og nýta tímann á skilvirkan hátt.

Með því að smella á meðfylgjandi tengil opnast könnun sem við biðjum ykkur um að svara.

Smellið hér til að taka könnun

Menntabúðir foreldra

Á viðtalsdegi þann 16. október var foreldrum skólans boðið að sækja fræðslu í skólanum í formi menntabúða og fræðsluerinda. Sérfræðingar innan og utan skóla tóku að sér fræðsluna og var í þetta sinn hægt að velja á milli nokkurra ólíkra erinda. Menntabúðir voru um 30 mínútur hver og gátu allir valið að mæta á eina til fjórar slíkar á milli klukkan tvö og fjögur þennan dag. Könnun var gerð á áhuga foreldra í formi skráningar í gegnum tölvupóst en allir gátu mætt óháð þeirri skráningu. Við vorum mjög ánægð með mætinguna og vonum að þeir sem komu hafi haft gagn og gaman af. Við höfum undanfarið ár verið að taka lítil skref í áttina að því að breyta fyrirkomulagi á viðtalsdögum í Oddeyrarskóla og höfum við hug á að halda áfram að þróa þetta samstarf og samtal við foreldra með það að leiðarljósi að styrkja skólasamfélagið, auka tengsl og bæta almennt skólastarf. Við þökkum foreldrum og starfsfólki fyrir daginn, við finnum fyrir miklum stuðningi og vilja allra til að þróa samstarfið áfram. 

Fjölgreindardagur 3. október

Fimmtudaginn 3. október var fjölgreindardagur í Oddeyararskóla. Hefðbundin stundaskrá var brotin upp. Nemendum var blandað í námshópa þvert á aldur þar sem og voru hópstjórar elstu nemendur í hverjum hópi, oftast nemendur í 10. bekk. Farið var milli námsstöðva þar sem fjölbreytnin var í fyrirrúmi og stuðst við fjölgreindarkenningu Gardners. Dæmi um viðfangsefni er steinamálun, hreyfing, hugarflæði og leikir. Í frímínútum var boðið upp á skúffuköku, mjólk og ávexti í tilefni þess að nemendur náðu að safna 5000 þrumum sl. vor. Þegar þessari dagskrá var lokið var farið í íþróttasalinn. Þar fengu þeir nemendur sem hraðast hlupu í skólahlaupinu viðurkenningu. Að lokum dönsuðu allir, stórir og smáir zumba og skemmtu sér vel. Hér má sjá myndir frá deginum og hér koma myndir frá kaplakubba stöðinni.

Styrkur frá Forriturum framtíðarinnar

Forritarar framtíðarinnar eru samtök sem vilja stuðla að aukinni fræðslu og áhuga meðal barna og unglinga á forritun og tækni. Nú á dögunum hlaut Oddeyrarskóli 200.000 kr. styrk frá þeim til búnaðarkaupa og þökkum við þeim kærlega fyrir. Ætlunin að nota styrkin til að kaupa forritanlegar smátölvur og ýmsan fylgibúnað tengdan þeim.

Þetta er ekki fyrsta sinn sem við hljótum styrk frá þeim en árið 2016 fengum við 20 borðtölvur sem enn nýtast okkur vel auk námskeiðs fyrir kennara í forritunarkennslu.

Upplýsingatækni verður æ veigameiri partur af námi barna með hverju árinu, og styrkir sem þessir eru ómetanlegir. Enda viljum við að börnin okkar verði fær um að nota tæknina á jákvæðan og uppbyggjandi hátt og skapa sína eigin framtíð.

Ólympíuhlaup ÍSÍ

Miðvikudaginn 19. september sl. var Ólympíuhlaup ÍSÍ en sambærilegt hlaup hefur verið í grunnskólunum um árabil og var þá nefnt Norræna skólahlaupið. Eldri nemendur Oddeyrarskóla hlupu skólahringinn svokallaða sem markast af Grenivöllum, Ægisgötu, Eyrarvegi og Sólvöllum og fóru að lágmarki tvo hringi en yngri nemendur hlupu að lágmarki tvo hringi kringum skólalóð. Að hlaupi loknu var boðið upp á niðurskorna ávexti við skólann og einnig var spiluð tónlist sem setti skemmtilegan svip á daginn. Viðurkenningar verða veittar fyrir besta tíma á hverju stigi en það verður gert við hentugt tækifæri. Hér má sjá myndir frá deginum.

Nemendur við rásmarkið

Gjöf frá foreldrafélaginu

Fulltrúar frá foreldrafélagi Oddeyrarskóla komu færandi hendi í morgun þar sem þeir gáfu öllum nemendum skólans vatnsbrúsa. Brúsinn er appelsínugulur, sem hefur undanfarin ár verið litur skólans í keppninni Skólahreysti. Hann er merktur Foreldrafélagi Oddeyrarskóla og nafni hvers nemenda. Þetta er góð og nytsamleg gjöf og færum við í Oddeyrarskóla foreldrafélaginu hinar bestu þakkir fyrir. Myndir

Lestrarvinir

Lestrarvinir er samstarfsverkefni Rauða krossins og Amtbókasafnsins á Akureyri fyrir börn á aldrinum 2-8 ára. Með því að taka þátt í verkefninu gefst tækifæri til að styðja við lestrarnám barnanna. Nánari upplýsingar og umsóknareyðublað má finna hér.

Úttekt á skólahúsnæði

Síðastliðið vor ákvað umhverfis- og mannvirkjaráð Akureyrarbæjar að ráðast í úttekt á loftgæðum í skólamannvirkjum. Í sumar var gerð úttekt á húsnæði Oddeyrarskóla. Að mati sérfræðinga frá verkfræðistofunni Verkís var niðurstaðan sú að ástand skólans sé mjög gott og engin ástæða til að ætla að loftgæði geti á nokkurn hátt hamlað skólastarfi. Gildi myglu voru mæld bæði með loft- og snertisýnum. Ábendingar komu fram um lítils háttar úrbætur á afmörkuðum svæðum og var strax hafist handa við þær en þær fólust í sótthreinsun og staðbundnum viðgerðum. Þau gildi myglu sem þar mældust eru vel innan eðlilegra marka miðað við það sem almennt gerist í húsnæði á Íslandi. Loftræsting var bætt í þeim tveimur kennslustofum sem athugasemdir voru gerðar við. Ætlunin er að fylgja málinu eftir og mæla loftgæði í skólanum þegar starfsemi verður í húsinu en það verður gert þegar líða tekur á skólaárið.