Dagskrá á sal í dag

Í dag hittumst við, nemendur og starfsfólk skólans,
á sal til að minnast 100 ára fullveldisafmælis okkar Íslendinga. Eftir að hafa hlýtt á stutta uporifjun um fullveldið hjá Kristínu skólastjóra og fallegan upplestur Ellenar Óskar á ljóðinu Hver á sér fegra föðurland sungu nemendur Ísland er land þitt og Ferðalok við undirspil Ívars Helgasonar. Við notuðum jafnframt tækifærið til að ræða falleg samskipti og góða framkomu við náungann í tilefni af baráttumánuði gegn einelti. Við þetta tilefni fengu nemendur 1. bekkjar og nýir nemendur í 2. og 3. bekk húfur sem á stendur: GEGN EINELTI. Við vonum að nemendur verði duglegir að nota þessar fallegu húfur sem starfsmenn skólans hafa prjónað í öllum regnbogans litum. Engar tvær húfur eru eins sem minnir okkur á að engir tveir einstaklingar eru eins og að við eigum að virða ólíka einstaklinga.

100 ára fullveldisafmæli fagnað í Oddeyrarskóla á morgun

Á morgun, föstudaginn 30. nóvember munum við fagna 100 ára fullveldisafmæli Íslands með stuttri samveru á sal. Af þessu tilefni mætum við öll krædd betri fötunum. Margir nemendur hafa verið að læra um fullveldið og fullveldisárið undanfarið og má hér m.a. sjá myndir nemenda í 3. bekk af íslenska fánanum.

Peningagjöf til bókakaupa frá Lionshreyfingunni


Í dag boðaði Lionshreyfingin skólastjórnendur og skólasafnskennara á svæðinu til fundar þar sem afhentar voru peningafjárhæðir til bókakaupa í skólana. Fjárhæðir miðuðust við fjölda nemenda í skólunum. Oddeyrarskóli fékk 80 þúsund krónur og munu þær koma sér afar vel til að bæta nýjum barna- og unglingabókum í bókakost fallegu Lestu-hillunnar okkar. Kristín skólastjóri og Þórarinn skólasafnskennari tóku á móti gjöfinni og munu þau í framhaldinu heimsækja bekki og kalla eftir óskum nemenda varðandi bókakaup. Við þökkum Lionshreyfingunni innilega fyrir veglega og kærkomna gjöf!

Lestrarþema tileinkað Astrid Lindgren lauk í dag

Í dag, föstudaginn 16. nóvember lauk 2 vikna lestrarþema sem læsisnefnd skólans efndi til. Þemað var tileinkað rithöfundinum Astrid Lindgren og sögum hennar. Nemendur kynntu sér sögunar hennar og unnu með nokkrar þeirra. Allir bekkir skreyttu hurðirnar að stofunum sínum, en blásið var til samkeppni um best skreyttu hurðina. Óhætt er að segja að mikil vinna og metnaður hafi verið lagður í skreytingarnar. Hér til hliðar má sjá hurðarskreytingu 3. bekkjar, en bar hún sigur úr býtum í samkeppninni sem sannarlega var hörð.

Jólabingó foreldrafélagsins / christmas bingo in Oddeyrarskóli

Laugardaginn 17. nóvember verður hið árlega jólabingó Foreldrafélags Oddeyrarskóla haldið. Herlegheitin byrja kl 14:00 og standa til ca kl. 17:00 og vinningarnir eru stórglæsilegir.

Spjaldið kostar 500 kr. fyrir hlé en 250 kr. eftir hlé.
10. bekkur verður með kaffisölu í hléi.

Við bendum fólki á að mæta tímanlega þar sem það er takmarkaður sætafjöldi.
Enginn posi er á staðnum.

———

On Saturday the 17th of November from 2pm to 5pm our yearly Christmas bingo will be held at Oddeyrarskóli. Grand prizes! The bingo card costs 500 kr. before the break and 250 kr. after.
The 10th grade will be selling coffee and waffles in the break.

We recommend you show up early as there are limited seats.
Cash only, we will not be able to take cards.

Símkerfið liggur niðri

Uppfært: Símkerfi er komið í lag.

Vegna bilunar liggur símkerfi skólans niðri.  Við vitum ekki hversu langan tíma viðgerð tekur.  Ef þið eigið mjög brýnt þá sendið tölvupóst á netföngin kristinj@akmennt.is eða fkh@akmennt.is.