Eflum málskilning barnanna okkar

Sem hluti af læsisstefnu sem nýlega var kynnt hefur Akureyrarbær í samstarfi við Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri birt bæklinga fyrir foreldra sem fengnir eru frá Aarhus í Danmörku. Þar eru gagnlegar upplýsingar um það hvernig við getum eflt málskilning og tjáningu barnanna okkar. Virkilega gagnlegt og gott efni sem einnig er fáanlegt á fleiri tungumálum.

Aðalfundur foreldrafélagsins

Aðalfundur Foreldrafélags Oddeyrarskóla verður haldin fimmtudaginn 5. október næstkomandi í sal skólans. Fundurinn byrjar kl 20:00 stundvíslega og við hvetjum alla foreldra/forráðamenn til þess að mæta.

Á fundinum tekur ný stjórn tekur til starfa, farið verður yfir starf síðasta vetrar og við spáum aðeins í framhaldið, efnahagsreikningar lagðir fram til samþykkis og ýmislegt fleira.

Endilega mætið sem flest – hlökkum til að sjá ykkur.
Stjórnin

Nemendur Oddeyrarskóla tóku þátt í Norræna skólahlaupinu

Þriðjudaginn 19. september tóku nemendur Oddeyrarskóla þátt í Norræna skólahlaupinu. Skólinn leggur sig fram um að taka þátt í ýmsum hreyfi- og heilsutengdum viðburðum þar sem við erum heilsueflandi grunnskóli og með því hvetjum við nemendur okkar til hreyfingar og útivistar. Veðrið lék við okkur þennan dag og voru nemendur skólans virkilega duglegir að hlaupa.

Að hlaupi loknu bauð skólinn upp á ávexti og grænmeti til að gleðja mannskapinn enn frekar.

Norræna skólahlaupið fór fyrst fram á Íslandi árið 1984, en allir grunnskólar á Norðurlöndunum geta tekið þátt í hlaupinu á hverju hausti. Með Norræna skólahlaupinu er leitast við að hvetja nemendur skólanna til þess að hreyfa sig reglulega og stuðla þannig að betri heilsu og vellíðan. Hér eru nánari upplýsinar af vef ÍSÍ um Norræna skólahlaupið.

Árgangur 1974 heimsótti Oddeyrarskóla og færði skólanum gjöf

Fyrir stuttu hittust gamlir nemendur úr Oddeyrarskóla, fæddir 1974, hér í skólanum og skoðuðu sig um á æskuslóðum og rifjuðu upp góðar minningar.

Hópurinn færði skólanum skemmtilega gjöf, en það er OSMO forritið sem nýtist vel í námi og leik. OSMO er tengt ipödum og er gerir forritið nemendum kleift að vinna með form, tölur og stafi á áþreifanlegan hátt.

Við þökkum nemendum úr árgangi 1974 innilega fyrir komuna og nytsamlega gjöf!

Göngudagur í blíðviðri

göngudagur Göngudagur2Þriðjudaginn 5. september var göngudagur hjá okkur í Oddeyrarskóla.

Að þessu sinni var ákveðið að enda öll á sama stað, á útivistarsvæðinu að Hömrum.

Nemendur á mið- og unglingastigi gengu frá Brekkunni upp í Fálkafell, þaðan suður í Gamla og svo niður að Hömrum. Yngsta stigið gekk úr Naustahverfinu í gegnum Naustaborgir að Hömrum. Á áfangastað fengu allir nemendur grillaðar pylsur og safa. Veðrið lék við okkur og gleðin skein af krökkunum, eins og meðfylgjandi myndir sýna. Myndir frá yngsta stigi eru væntanlegar.

Oddeyrarskóli tekur þátt í verkefninu Göngum í skólann

Nú, í upphafi skólaársins, fer af stað verkefnið Göngum í skólann og tökum við í Oddeyrarskóla að sjálfsögðu þátt.gongum

Hér eru allar nánari upplýsingar um verkefnið, en við viljum mjög gjarnan nota þetta verkefni og önnur sambærileg til að hvetja nemendur okkar til að tileinka sér lífsstíl sem eykur lífsgæði þeirra nú og síðar meir. Við biðjum aðstandendur um að lesa viðhengið vel og taka þátt í þessu með okkur 🙂

Útivistardagur Oddeyrarskóla á morgun, þriðjudag

Kæru foreldrar/forráðamenn nemenda við Oddeyrarskóla!Kjarni

Skv. skóladagatali átti að vera útivistardagur í þessari viku og höfum við ákveðið að hafa hann á morgun, þar sem veðurspáin virðist best þá.
Þannig að við biðjum ykkur um að gæta að því að börnin séu vel nestuð og búin til útivistar í nokkra klukkutíma.
Yngsta stigið tekur strætó í Naustahverfi og gengur í Kjarnaskóg.
Mið- og unglingastig tekur strætó upp á Brekku og gengur í Fálkafell – Gamla og Kjarnaskóg.
Allir fá grillaðar pylsur í Kjarnaskógi í hádeginu og því er ekki gert ráð fyrir hádegismat hér í Oddeyrarskóla.

Með kærri göngukveðju frá stjórnendum Oddeyrarskóla

Fengum góða heimsókn í Oddeyrarskóla í dag

toptotopÍ dag fengum við góða heimsókn frá svissneskri fjölskyldu sem býr í skútu og dvelur hér á Akureyri um þessar mundir.

Dario, fjölskyldufaðirinn, var með flotta kynningu fyrir nemendur 5. – 10. bekkjar. Þar sagði hann í máli og myndum frá ferðum fjölskyldunnar um öll heimsins höf síðustu 18 árin meðan fjölskyldan hefur stækkað. Yngsta barnið í fjölskyldunni fæddist hér á Akureyri í síðustu viku. Dario sagði frá því hvernig þau hafa lifað umhverfisvænum lífsstíl með því að sigla, hjóla eða ganga hvert sem þau fara. Hann vakti athygli nemenda á umhverfismálum og ábyrgð þeirra í þeim efnum.

Í lok kynningarinnar fóru allir nemendur út og kepptust bekkir um að safna sem mestu rusli á 5 mínútum.

Heimsókn þeirra vakti bæði nemendur og starfsfólk til umhugsunar um þann lífsmáta sem við tileinkum okkur. Áhugasamir geta skoðað þetta myndband til að fá skýrari sýn á það sem fjölskyldan hefur verið að gera og hér er heimasíða verkefnisins.

 

 

Norrænir gestir í heimsókn


IMG_9394Í dag heimsóttu tvær norrænar konur Oddeyrarskôla, en þær hafa verið í samstarfi við Kristínu skólastjóra og Jennýju Gunnbjörnsdóttur sem starfar við kennaradeild háskólans á Akureyri um nokkurra ára skeið í tengslum við Evrópuverkefni og norrænt samstarfsverkefni um skóla fyrir alla. Þær eru reynsluboltar á því sviði og því mikill fengur af þessu samstarfi. Þær Anne og Grethe fengu kynningu á skólanum og heimsóttu flesta bekki. Þær létu vel af heimsókninni og sögðust upplifa jákvætt og vinsamlegt starfsumhverfi fyrir nemendur og starfsfólk. Jafnframt sögðust þær sjá margar vísbendingar um að vel væri unnið til að mæta þörfum allra nemenda, enda er það metnaðarmál okkar í Oddeyrarskóla að svo sé.