Skólastarf frá 5. janúar

Skólinn hefst á morgun kl. 8:10 skv. stundaskrá nemenda og vonandi verður hægt að halda skipulaginu en það er eins og allir vita háð því að covid19 smit blossi ekki upp á ný. Það nota allir venjulega innganga, þ.e. yngsta stig kemur inn austast og nemendur í 5. bekk og eldri inn um aðalinngang á suðurhlið. Allir nemendur eiga kost á að kaupa mat í mötuneyti og verða matmálstímar skv. stundaskrá. Boðið verður upp á hafragraut frá kl. 7:45-8:05. Frístund er opin fyrir nemendur í 1. – 4. bekk.

Gleðileg jól

Starfsfólk Oddeyrarskóla óskar nemendum, foreldrum og öðrum velunnurum skólans gleðilegrar jólahátíðar og farsældar á nýju ári með þökk fyrir gott samstarf á árinu sem er að líða.

Skólahald hefst að nýju þriðjudaginn 5. janúar en við sendum upplýsingar þann 4. janúar varðandi skipulag skólastarfsins í upphafi ársins 2021.

Útivistardagur 16. september

Miðvikudaginn 16. september er útivistardagur í Oddeyrarskóla, en þessi dagur er dagur íslenskrar náttúru. Veðurhorfur eru góðar þennan dag. Farið verður með rútum frá skólanum að bílaplaninu við Súlur. Nemendur yngsta stigs fara í gönguferð og berjamó í brekkum að Fálkafelli. Nemendur miðstigs og unglingastigs hafa val um mismunandi gönguleiðir, þ.e. að Glerárstíflu, Fálkafell-Gamli-Hamrar, eða Súlur. Nemendur koma heim með rútum sem fara á mismunandi tíma, frá 11:30-13:30. Hádegismatur er í boði við heimkomu. Lok skóladags eru skv. stundaskrá en þeir sem fara alla leið á Súlur gætu komið seinna heim en stundaskrá segir til um. Mikilvægt er að vera klæddur eftir veðri, á góðum skóm og með hollt og gott nesti.

Skólabyrjun 2020

Skólasetning Oddeyrarskóla verður á sal skólans mánudaginn 24. ágúst. Nemendur mæta:

kl. 9:00, 2. – 4. bekkur

kl. 9:30, 5. – 6. bekkur

kl. 10:00, 8. – 10. bekkur

Skólastjóri setur skólann en nemendur fylgja svo umsjónarkennara í sínar heimastofur. Dagskráin þennan dag tekur 30-45 mínútur. Að þessu sinni óskum við eftir að nemendur mæti án foreldra en við viljum takamarka umgengni annara en starfsmanna og nemenda um skólahúsnæðið eins og kostur er. Nemendur 7. bekkjar fara að Reykjum kl. 8:30 um morguninn. Foreldrar nemenda sem hefja nám í 1. bekk verða boðaðir í viðtal 24. eða 25. ágúst.

Unicef hreyfingin

Nemendur skólans söfnuðu 299.752 krónum í Unicefhreyfingunni sem fram fór á vordögum. Nemendur söfunuðu áheitum og komu með peninga í skólann í lokuðu umslagi en aðstandendur gátu einnig lagt beint inn á reikning samtakanna. Áheitasöfnunin verður nýtt þar sem neyðin er mest og í langtímauppbyggingu í samfélögum þar sem grunnstoðir þarf að bæta s.s. til kaupa á matvælum, hreinlætisvörum og bóluefni.

Viðurkenning fræðsluráðs

Samkvæmt skólastefnu Akureyrarbæjar skal árlega, veita þeim einstaklingum eða stofnunum sem skarað hafa fram úr í skólastarfi viðurkenningar. Markmiðið er að vekja sérstaka athygli á því sem vel er gert og hvetja þá sem fyrir valinu verða til þess að halda áfram því góða starfi sem þeir eru að vinna og jafnvel gera enn betur. Viðurkenning er einnig staðfesting á að viðkomandi skóli/kennari/nemandi er fyrirmynd annarra á því sviði sem viðurkenning nær til. Að þessu sinni fékk Þura Björgvinsdóttir nemandi viðurkenningu og Einar Magnús Einarsson tölvuumsjónarmaður skólans.

100 miða leikur

Mánudaginn 11. maí höldum við áfram með 100 miða leikinn. Við tökum upp þráðinn þar sem frá var horfið en þegar samkomubann með skertu skólastarfi skall á vorum við hálfnuð í leiknum.

Starfsmaður  fær afhentar tvær  “stjörnur” og gefur nemendum sem fara eftir reglum. Nemendur fara síðan með stjörnuna sína til ritara sem skráir niður og sendir póst heim skv. vinnureglum. Áætlað er að tilkynnt verði um vinningsröð miðvikudaginn 20. maí og farið verði í umbun með þeim heppnu.


Börn á reiðhjólum

Þar sem sólin er farin að hækka á lofti og snjórinn nánast farinn eru margir búnir að taka fram reiðhjólin sín sem er hið besta mál. Við brýnum fyrir fólki að fara að öllu með gát og huga að öryggi barnanna. Hér má sjá hjólareglur Oddeyrarskóla.

Öll börn þurfa að hafa hjálm og hann verður að passa barninu og sitja rétt á höfðinu. Athugið að þykkar húfur geta breytt því hvernig hjálmurinn hlífir.

Það þarf að huga að settum umferðarreglum en í Umferðarlögum: 44. gr. má sjá eftirfarandi: „Börn og reiðhjól. Barn yngra en níu ára má ekki hjóla á akbraut nema undir leiðsögn og eftirliti manns sem náð hefur 15 ára aldri. Hjólreiðamaður sem náð hefur 15 ára aldri má reiða börn yngri en sjö ára, enda séu þeim ætluð sérstök sæti og þannig um búið að ekki stafi hætta af hjólteinunum“.

Börn yngri en 9 ára mega því ekki fara ein síns liðs um gatnakerfið ef þau þurfa að vera á akbrautum. Hjóli börn yngri en 9 ára á milli staða, verða þau að komast leiðar sinnar eftir gangstígum, gangstéttum og gangbrautum. Akbrautir eru bannsvæði, nema undir eftirliti þeirra eldri. Leiðbeinum þeim yngstu og sýnum ábyrgð.

Þá brýnum við fyrir þeim sem eru á vélknúnum hjólum að fara að öllu með gát en hér má sjá reglur um létt bifhjól 1.