Styrkur frá Norðurorku vegna forvarnarverkefnis í 8. bekk

DAM styrkur frá NOÞuríður Lilja Rósinbergsdóttir námsráðgjafi Oddeyrarskóla hlaut á dögunum styrk frá Norðurorku vegna verkefnis sem hún er að fara af stað með í 8. bekk. Hún vinnur það ásamt kennurum bekkjarins, Maríu Aðalsteinsdóttur og Hrafnhildi Guðjónsdóttur. Auk þess hefur hún fengið mikilvægan liðstyrk Sigríðar Þórisdóttur kennara og sálfræðings. Verkefnið hefur skammstöfunina DAM, en það snýst í megindráttum um að vinna með streituþol, samskiptahæfni, núvitund og tilfinningastjórn. Þessi hugmyndafræði hefur lengi notuð sem meðferðarúrræði hjá börnum með þunglyndi eða sjálfsskaðandi hegðun, en hefur á síðustu misserum verið aðlöguð og nýtt í forvarnarskyni í bandarískum skólum. Nýlega var gefið út námsefni á ensku sem tengist efninu og gott er að styðjast við.

Sigríður Þórisdóttir er búsett í Bandaríkjunum og þekkir DAM mjög vel. Þuríður námsráðgjafi sótti námskeið hjá henni síðastliðinn vetur og í kjölfarið varð til samstarf um verkefnið. Sigríður bauð fram krafta sína í vinnuna og vinnur hún með nemendum í janúar og svo aftur í apríl/ maí.

Nýttar verða tvær kennslustundir á viku frá janúar og fram í maí í verkefnið. Nemendur 8. bekkjar svöruðu matslistum í upphafi verkefnisins og munu síðaDAM Styrkveitingn svara við lok vinnunnar til að leitast við að meta þætti sem vinnan skilar.

Þuríður sótti um styrk til Norðurorku til að styðja við verkefnið og föstudaginn 6. janúar hlaut hún 200.000 króna styrk. Styrkurinn verður nýttur til að styðja við fræðsluna. Einnig styður Icelandair Hotels á Akureyri við verkefnið og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir það.

 Í síðustu viku var foreldrum nemenda í 8. bekk boðið til fundar þar sem verkefnið var kynnt.

Við þökkum Sigríði Þórisdóttur innilega fyrir sitt mikla framlag til verkefnisins og jafnframt þökkum við Norðurorku fyrir veglegan styrk!

Árshátíðardagur í Oddeyrarskóla

Árshátíð -jan 2017-1338Í dag verða árshátíðarsýningar fyrir foreldra og aðra gesti.

Ákveðið var að fjölga sýningum úr tveimur í þrjár svo betur færi um gesti okkar og fleiri kæmust að. Það verða því þrjár sýningar. Fyrsta sýning hefst kl. 11 en þar sýna nemendur yngsta stigs og 10. bekkur. Kl. 13 sýna nemendur miðstigs auk 10. bekkjar og kl. 15 sýna allir nemendur unglingastigs. Miðar eru seldir við innganginn og kostar miðinn 600 kr.

Foreldrafélagið verður að vanda með glæsilegt kaffihlaðborð milli sýninga, þ.e. um kl. 12 og 14. Þeir sem mæta á þriðu sýningu geta því komið í kaffi á undan sýningunni. Kaffihlaðborðið kostar 1000 kr. fyrir fullorðna og 500 kr. fyrir börn.

Nemendasýningar voru í gær og er ljóst að mikil vinna var lögð í undirbúning sýninga. Atriðin eru vel æfð og nemendur fara á kostum. Nemendur 10. bekkjar nutu leikstjórnar Péturs Guðjónssonar og Jokku við uppsetningu á Ávaxtakörfunni. Þykir okkur hafa tekist afar vel til.

Hlökkum til að sjá sem flesta á árshátíð Oddeyrarskóla í dag!

Google Certified Educators

google-cerified-educatorsNú rétt fyrir jól tóku tveir kennarar, þær Linda Rós og Kristín Bergþóra próf á vegum G-Suite for Education og hafa því lokið stigi 1 sem Google Certified Educators. Til að ljúka slíku prófi þurfa kennarar að leysa ýmis verkefni í umhverfinu, m.a. að búa til verkefni fyrir nemendur, gera heimasíðu og vinna í kerfisstjórn. Prófið er liður í því að sýna fram að viðkomandi búi yfir ákveðinni færni í google umhverfinu.

Þrír kennarar í skólanum hafa leitt þróunarvinnu í google umhverfinu undanfarin ár og hafa þeir verið kennurum skólans mikill stuðningur auk þess sem þær hafa verið fengnar til að leiðbeina kennurum víðs vegar. Þessir kennarar munu heimsækja Google-skóla í Englandi í lok janúar og í framhaldinu sækja Bett ráðstefnuna í London.

 

Gleðilegt nýtt ár!

2017-1Kæru nemendur og forráðamenn!

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir samstarfið á því gamla. Við vonum að allir hafi notið hátíðanna og jólaleyfisins og komi úthvíldir til leiks, en á morgun hefst skólastarf á ný samkvæmt stundaskrá. Nú förum við að huga að undirbúningi árshátíðar, en hún verður haldin laugardaginn 21. janúar.

 

Oddeyrarskóli rokkar! – hæfileikakeppni Oddeyrarskóla haldin í dag

img_3743Hæfileikakeppni Oddeyrarskóla var haldin í dag, föstudaginn 2. desember. Að þessu sinni voru 24 atriði skráð til keppni og sýndu nemendur mikla og fjölbreytta hæfileika með uppistandi, söng, dansi, töfrabrögðum o.fl.

Veitt voru verðlaun fyrir sigurvegara á hverju stigi.

Það voru systurnar Ragnheiður Inga og Margrét Sóley Matthíasdætur í hljómsveitinni Blautir sokkar sem báru sigur úr býtum hjá yngsta stigi þegar þær fluttu frumsamið lag sitt, Oddeyrin rokkar! Á miðstigi sigruðu þær Kara Líf Antonsdóttir og Karen Ingimarsdóttir með stórskemmtilegu uppistandi. Davíð Máni Jóhannesson, nemandi og upprennandi rokkari í 10. bekk sigraði með flutningi sínum á frumömdu lagi, Pull of Zorrow.

Allir nemendur skólans komu og horfðu á og á meðan dómarar tóku sér hlé til að ráða ráðum sínum dönsuðu nemendur, kennarar og foreldrar við „Just dance“ – myndbönd.

Hér má sjá fleiri myndir frá hæfileikakeppninni.

 

img_3678 fullsizerender

LESTU

leshilla6 leshilla5Í gær var hátíðardagur í Oddeyrarskóla. Við héldum að vanda upp á Dag íslenskrar tungu, að þessu sinni með hátíðlegri athöfn í sal skólans.

Akureyrarbær skrifaði á síðasta ári undir þjóðarsáttmála um læsi. Þjóðarsáttmálinn hefur það markmið að öll börn geti við lok grunnskóla lesið sér til gagns. Við höfum í rúmlega ár verið að vinna að gerð nýrrar læsistefnu í samvinnu við aðra skóla á Eyjafjarðarsvæðinu. Hún felur í sér fjölbreytta nálgun á læsi, m.a. með auknum æfingum, vinnu með lesskilning, ritun og hið talaðaða mál. Oddeyrarskóli hefur á þessi ári lagt megináherslu á samræður og hugtakaskilning samhliða því að vinna stöðugt að því að vekja áhuga nemenda á því að lesa fjölbreyttan texta.

Þegar við vorum á kafi í þessari vinnu og leit að betri leiðum kom Svanhildur Daníelsdóttir fyrrverandi aðstoðarskólastjóri með hugmynd sem ekki var staðist. Hún sýndi okkur mynd af bókahillum úr stöfum sem mynduðu orðið „R E A D“ og um leið hvatti hún okkur til að taka hugmyndina lengra og að sjálfsögðu á íslensku. Það stóð ekki á viðbröðgunum og nú, tæpu ári síðar, prýða hillurnar anddyri skólans og þjóna þeim megintilgangi að auka áhuga nemenda á lestri bóka.

Til að þessi draumur gat orðið að veruleika fengum við ýmsa styrki, t.a.m. frá Blikk- og tækniþjónustunni og Pólýhúðun, en þessi fyrirtæki önnuðust gerð hillanna. Skólinn fékk veglegan styrk frá útskriftarnemendum síðasta vors, en þau færðu skólanum peningagjöf í kveðjuskyni. Jafnframt fékk skólinn styrk frá Byko.

Nauðsynlegt er að auka bókakost skólans við svona tækifæri. Unnur Vébjörnsdóttir formaður foreldrafélagsins, stóð fyrir söfnun í fyrirtækjum á svæðinu og færði hún í dag skólanum 200.000 kr. til bókakaupa. Einnig fengum við 50.000 króna styrk til bókakaupa frá Akureyrarapóteki.

Við í Oddeyrarskóla færum öllum þeim sem komið hafa að þessu upplífgandi verkefni okkar bestu þakkir.

Það er einstaklega dýrmætt þegar starfsfólk skólans, fyrrverandi starfsfólk, nemendur, foreldrar og samfélagið allt bera svo hlýjan hug til skólans að þeir eru tilbúnir til að leggja á sig auka vinnu eða fjármagn til að glæða skólasamfélagið og gleðja nemendur okkar – og okkur öll!

Hér má sjá tengil á vef Akureyrarbæjar þar sem fjallað er um lestrarhilluna okkar.

Hér má sjá fb færslu Blikk- og tækniþjónustunnar með myndum.

 

Dagur íslenskrar tungu – sparifatadagur – vígsla LESTU hillunnar

1-a-faninnNæstkomandi miðvikudag, þann 16. nóvember, höldum við Íslendingar upp á dag íslenskrar tungu. Okkur þótti vel við hæfi að vígja nýju lestrarhvetjandi bókahillurnar okkar á þessum degi, þar sem ritun og lestur góðra bóka er lykillinn að því að viðhalda fallegu íslenskunni okkar.

Af þessu tilefni verður efnt til hátíðardagskrár á sal skólans kl. 9-10, en þar munu m.a. nemendur stíga á stokk.

Þar sem við erum að halda hátíð hvetjum við nemendur og starfsfólk til að mæta í betri fötunum þennan dag.