Bókagjöf frá foreldrafélaginu

Það var kærkomin gjöfin sem börnin færðu Þórarni á bókasafninu í morgun fyrir hönd foreldrafélagsins, en um var að ræða fjöldan allan af nýjum barna- og unglingabókum. Við þökkum kærlega fyrir þessa góðu gjöf og munum svo sannarlega njóta þess að lesa, skoða og ræða saman um efni bókanna.

Skipulagsdagur 17. nóvember

Við minnum á næsta skipulagsdag sem verður þriðjudaginn 17. nóvember en þá eru nemendr í fríi.

Frístund verður opin frá 7:45-16:15

Gegn einelti

Í tilefni baráttudags gegn einelti fengu nemendur 1. bekkjar afhentar húfur sem á stendur „Gegn einelti“. Þetta er í fimmta sinn sem við í Oddeyrarskóla gerum þetta en starfsmenn prjónuðu húfurnar. Húfurnar eru merktar hverju barni og hver þeirra er með sína liti og eru þær fjölbreytilegar í útliti eins og nemendahópurinn. Þennan dag voru einnig sungin vinalög og verður nóvember mánuður tileinkaður vináttunni. 

Ágætu foreldrar og forsjáraðilar

Skólastarf gengur vel þrátt fyrir að aðgerðir séu á neyðarstigi vegna veirufaraldursins. Engu að síður er staðan í einstaka skólum sú að margir starfsmenn eru í sóttkví og getur verið nokkuð snúið að halda úti skólastarfi. Eins og staðan er nú þá má lítið út af bregða svo ekki þurfi að loka einstaka deildum í leikskólum eða senda nemendahópa heim í grunnskólum vegna manneklu. Til þess getur þó komið með skömmum fyrirvara að biðja þurfi foreldra yngstu barnanna í leik- og grunnskólum að sækja börnin eða senda eldri nemendur heim. Starfsfólk skólanna biður því fólk um að sýna því skilning ef til þess kemur því þetta er síðasta úrræðið sem gripið er til og þá í algjörum undantekningartilvikum.

Með kveðju,

Karl Frímannsson
sviðsstjóri fræðslusviðs Akureyrarbæjar

Samkomutakmarkanir og börn

Skólar og íþróttafélög skipuleggja sitt fyrirkomulag til að fara eftir fyrirmælum yfirvalda um takmarkanir á skólastarfi

og samkomum, þ.m.t. fjöldatakmörkunum, rýmum og grímunotkun. 

Það er mikilvægt að forráðamenn barna dragi á sama tíma úr fjölda einstaklinga í tengslaneti barna sinna utan skólatíma til að vinna ekki gegn þessum ráðstöfunum. Gott er að hafa eftirfarandi í huga: 

  • Skólafélagar sem ekki eru í sama hópi í skólastarfinu ættu ekki að vera í návígi utan skóla. 
  • Hafi börnin þroska til að fara eftir leiðbeiningum sem snúa að minni snertingu við vini er ekki útilokað að þau geti hist í leikjum. Leikirnir mega ekki fela í sér beina snertingu, notkun á sameiginlegum leikföngum eða búnaði sem snertur er með berum höndum. 
  • Börn og ungmenni ættu ávallt að þvo sér vel um hendur bæði áður en þau hitta félaga sína og eftir að þau koma heim. 
  • Fjölskyldur ættu að hafa í huga að ef börnin umgangast mikið vini eða frændsystkini úr öðrum skólum eða skólahópum þá verður til tenging milli hópa sem annars væru aðskildir. Slíkt ætti að forðast eins og kostur er. 
  • Fjölskyldur eru hvattar til að nýta sér tæknina til að halda góðum tengslum við ástvini sem eru í áhættuhópum vegna COVID-19 sýkinga, eldra fólk og fólk með ákveðna undirliggjandi sjúkdóma. 
  • Einnig væri hægt að nota tækifærið að kenna börnunum að skrifa sendibréf og æfa í leiðinni skrift, stafsetningu, virkja ímyndunaraflið og hugsa í lausnum þegar kemur að samskiptum við ástvini okkar. 

Varðandi heimili með börn þar sem sumir eru í sóttkví en aðrir ekki:

  • Ef börnin hafa ekki þroska eða getu til að virða þær ráðstafanir sem eru forsenda þess að hluti heimilisfólks geti verið í sóttkví, þarf allt heimilið að fara í sóttkví eða þeir sem ekki eru í sóttkví að fara annað um leið og sóttkví kemur til. Mögulega gæti annað foreldrið verið í sóttkví með barni en hitt foreldrið haldið fjarlægð. Foreldri með barni í sóttkví þarf ekki að vera skráð í sóttkví og þarf ekki að fara í skimun til að stytta sóttkví í 7 daga úr 14 dögum. Það er nóg að barnið sé skráð í sóttkví og fari í sýnatöku. Þetta á t.d. við leikskólabörn í sóttkví.
  • Börn sem hafa þroska og getu til að sinna eigin hreinlæti (t.d. sér salerni) og halda viðeigandi fjarlægð við foreldra (eða aðra) sem eru í sóttkví og eins við skólafélaga geta áfram sinnt námi í skóla. T.d. ef foreldri er í sóttkví gæti leikskólabarn þurft að vera líka í sóttkví en eldra systkini ekki.
  • Foreldrar stálpaðra barna í sóttkví eftir útsetningu í skóla eða tómstundum sem geta haldið viðeigandi fjarlægð frá börnunum meðan á sóttkví stendur geta sinnt áfram vinnu á vinnustað ef fjarvinna er ekki möguleg.  

Skólahald 3.- 18. nóvember

Samkvæmt nýrri reglugerð sem við störfum eftir 3. – 18. nóvember höfum við nú endurskipulagt skólastarfið með hliðsjón af þeim takmörkunum sem þar er lýst. Í ljósi stöðunnar á Akureyri og fjölda smita var ákveðið að hafa aðgerðir með eftirfarandi hætti.

1. – 4. bekkur

  • Skóladagur nemenda í 1.- 4. bekk er eins og venjulega frá 8:10 – 13:20, gengið inn í húsið á sama stað og venjulega
  • Ekki er hægt að bjóða upp á hafragraut né móttöku á bókasafni fyrir klukkan átta.
  • Nemendur koma beint inn í sínar heimastofur og þess vegna gott ef hægt er að senda börnin ekki allt of snemma af stað.
  • Frístund verður eingöngu í boði fyrir 1. og 2. bekk.
  • Hádegismatur er fyrir 1. – 4. bekk.
  • Ávextir og mjólk verða í boði fyrir þá sem eru í áskrift.
  • Kennsla er í höndum kennara stigsins, engin íþrótta- eða sundkennsla verður á meðan þessi reglugerð gildir og list- og verkgreinar ekki með hefðbundnu sniði. 

5. – 7. bekkur

  • Skóladagur nemenda í 5. -7 .bekk  hefst kl. 8:10 og lýkur um klukkan 12. 
  • Ekki verður hægt að bjóða upp á hafragraut í upphafi dags.
  • 5. bekkur gengur inn í skólann við íþróttahús (að vestan) og eru á neðstu hæð, í Stapa og öðrum rýmum á þeim gangi.
  • Nemendur í 6. og 7. bekkur ganga inn í skólann þar sem þeir eru vanir. 
  • 6. bekkur verður á miðhæð
  • 7. bekkur verður á efstu hæð
  • Engar íþróttir eða sund verða á tímabilinu og kennarateymi hvers hóps sinna allri kennslu hópsins. Ekki verður því um hefðbundið nám að ræða t.d. í list- og verkgreinum.
  • Mikilvægt er að virða 2m nándarmörk og ganga beina leið inn í þau rými sem hafa verið skilgreind fyrir hvern hóp. Nota þarf grímur á göngum og öðrum sameiginlegum rýmum þar sem hópar blandast og mætast. Við mælumst til þess að nemendur hafi grímur meðferðist ef þeir eiga.
  • Ekki verður hægt að fara í matsal og því gott ef nemendur eiga brúsa sem þeir geta haft í vatn til að drekka yfir daginn. Ávextir og mjólk verða í boði fyrir þá sem eru í áskrift.

8.- 10. bekkur

Nemendur í 8. – 10. bekk verða í fjarnámi næstu fjóra daga. Sú ákvörðun verður endurskoðuð á föstudag. Fjarnámið verður með þeim hætti að nemendur fá send verkefni í gegnum google classroom sem þeir vinna heima með stuðningi frá kennurum.  Þeir hitta kennara sína á þremur google meet fundum yfir daginn. Nemendur hitta umsjónarkennara á fyrsta fundi á google meet  kl. 9.15 í fyrramálið þar sem farið verður yfir skipulag námsins þessa daga.

Hér er hægt að fara inn á heimasíðu fjarnáms Oddeyrarskóla. Ef eitthvað er óljóst þá endilega snúið ykkur til umsjónarkennara eða deildarstjóra.

Með þökkum fyrir biðlundina og gott samstarf.

Starfsfólk Oddeyrarskóla