Viðurkenning fræðsluráðs

Á hverju ári veitir fræðsluráð viðurkenningar til nemenda og starfsfólks skóla fyrir framúrskarandi vinnu við nám og félagsstörf eða frumkvöðlastarf á sínu sviði. Að þessu sinni fengu tveir nemendur Oddeyrarskóla viðurkenningar, þær Oliwia Moranska í 9. bekk og Birta Ósk Þórólfsdóttir í 10. bekk. Birta var á skólaferðalagi þegar afhending fór fram en foreldrar hennar tóku við viðurkenningunni. Við óskum þeim báðum hjartanlega til hamingju.

Skólaleikarnir 2019

Úrslitakeppni Skólaleikanna var haldin í Síðuskóla síðasta föstudag. Þar öttu kappi nemendur úr grunnskólum Akureyrar í hinum ýmsu tölvuleikjum. Oliwia Moranska úr Oddeyrarskóla gerði sér lítið fyrir og sigraði í T-Rex runner með yfirburðum. Hún náði 39.199 stigum sem er rúmlega þrefallt fleiri stig en næsti keppandi náði, ótrúlegur árangur.

Einnig náðu þeir Jóhannes Ísfjörð Jónsson og Ólafur Helgi Erlendsson góðum árangri í FIFA19 og enduðu í 2. sæti í keppninni. Óskar Óðinn Sigtryggsson og Steinar Bragi Laxdal Steinarsson náðu 3.-4. sæti NBA2K19 og Róbert Alexander Geirsson og Óli Þór Hauksson urðu í 5. sæti í Rocket League. Glæsilegur árangur hjá okkar krökkum.

Oliwia Moranska T-Rex runner meistari Akureyrar
Jóhannes og Ólafur Helgi, FIFA19 meistarar Oddeyrarskóla
(Away) Óskar og Steinar, NBA2K19 meistarar Oddeyrarskóla
Óli og Róbert, Rocket League meistarar Oddeyrarskóla

UNICEF-hreyfingin

Í gær tóku nemendur Oddeyrarskóla þátt í UNICEF- hreyfingunni. En í mörg undanfarin ár hafa nemendur tekið þátt í áheitahlaupi til stryktar UNICEF. Hlaupið var í logni og blíðu eins og þessar myndir bera með sér. Markmiðið með UNICEF hreyfingunni er að fræða börn um réttindi í Barnasáttmálanum og virkja þau til samstöðu með jafnöldurum sínum um allan heim.

SKÓLALEIKUR

Hvað er „skólaleikur“.

Haustið 2017 stóð Akureyrabær í fyrsta sinn fyrir „skólaleik“. Um er að ræða tveggja vikna aðlögunartímabil leikskólanemenda að grunnskólanum sínum. Þar sem nemendur eru í flestum tilvikum að koma úr fleiri en einum leikskólum bæjarins er lögð megináhersla á að börnin kynnist innbyrðis ásamt því að þau kynnist skólahúsnæðinu, matsalnum, frístundinni, útisvæðinu o.fl.

„Skólaleikur“ er starfræktur í tvær vikur og hefst á þriðjudegi eftir verslunarmannahelgi. Opnunartíminn er frá kl. 7.45 – 16.15 og býðst foreldrum að velja um tvö tímabil frá 12. – 19. ágúst (6 dagar) eða alla 10 dagana þ.e. 6. – 19. ágúst að báðum dögum meðtöldum.

Gert er ráð fyrir að börnin ljúki leikskólagöngu sinni um sumarlokun leikskóla og  stendur til boða að hefja „skólaleik“ í grunnskólanum sínum þriðjudaginn eftir verslunarmannahelgi*. Þeir foreldrar sem þurfa nauðsynlega á leikskóla að halda að loknu sumarleyfi leikskólans og fram að „skólaleik“, eru beðnir að snúa sér til skólastjóra leikskólans með óskir sínar.

Gjaldskrá fyrir „skólaleik“ er hin sama og í leikskóla og eru gjöldin innheimt með sambærilegum hætti og leikskólagjöld.

Sótt er um „skólaleik“ í íbúagátt Akureyrarbæjar á síðunni https://www.akureyri.is/

Vinsamlega athugið að eftir sem áður þurfa þeir foreldrar sem óska eftir frístund fyrir börn sín yfir vetrartímann, að sækja um það sérstaklega á umsóknareyðublaði fyrir grunnskóla.

*Verslunarmannahelgi er fyrsta helgi ágústmánaðar. Mánudagurinn eftir verslunarmannahelgi er almennur frídagur.

Hlutu 3. sætið í Siljunni

Þeir Jóhannes Ísfjörð, Óskar Óðinn og Steinar Bragi, nemendur í 10. bekk Oddeyrarskóla tóku þátt í Siljunni. Strákarnir hömpuðu 3. sætinu fyrir myndband sem þeir gerðu um bókina Elmar fer í göngutúr. Umsögnin sem þeir fengu fyrir myndbandið var: Mjög sniðugt, frumlega leyst og vel teiknað. Skemmtileg notkun á teikningum í anda bókarinnar.

Siljan er myndbandasamkeppni Barnabókaseturs Íslands fyrir grunnskólanemendur. Markmið keppninnar er að auka áhuga barna og unglinga á bóklestri. Keppt er í tveimur flokkum, 5. – 7. bekk og 8. – 10. bekk. Siljan er opin nemendum í öllum skólum landsins og er keppnin er styrkt af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu. 

Við óskum þeim Óskari, Jóhannesi og Steinari Braga innilega til hamingju með flottan árangur!

Hér má sjá mynband strákanna:

Frábær námstækifæri með Erasmus+

Nú á vormánuðum hafa 10 kennarar úr Oddeyrarskóla farið í námsferðir / skólaheimsóknir sem fjármagnaðar hafa verið með tveggja ára Erasmus styrk sem sótt var um á vordögum 2017.

Sjö kennarar af yngsta stigi skólans fóru til Noregs og heimsóttu skóla í nágrenni við Osló þar sem þeir kynntu sér hugmyndafræði í stærðfræðikennslu sem við erum að þróa í skólanum undir leiðsögn Þóru Rósu Geirsdóttur ráðgjafa hjá MSHA. Í daglegu tali köllum við þessa stærðfræði Zankov – stærðfræðina, en upphaflega kemur hugmyndafræðin frá Rússlandi og byggir á hugmyndafræði Zankov. Þessi hugmyndafræði í kennslu hefur verið að ryðja sér til rúms í skólum víðs vegar um Noreg (undir heitinu utviklende matematikk) og eru þrír skólar að vinna að þróun kennsluhátta í þessa veru á Íslandi og er árangur rannsakaður samhliða því. Við erum nú að ljúka öðru ári í innleiðingunni, en kennslan byggir mikið á samræðum og vinnu með skilning nemenda á stærðfræðihugtökum.

Þrír af þeim kennurum sem starfa í heilsueflingarnefnd skólans brugðu sér til Glasgow í Skotlandi heimsóttu Dr. John Paul Fitzpatrick kennsluráðgjafa, sem styður m.a. við skóla sem eru að innleiða hugmyndafræði hugarfars vaxtar eða Growth mindset. Kennararnir heimsóttu tvo skóla sem John Paul hefur verið að styðja við og var margt gagnlegt skoðað og rætt í þeirri ferð. Heilsueflingarnefnd skólans hefur verið að kynna sér þessa hugmyndafræði í vetur í tengslum við geðræktarþátt heilsueflandi grunnskóla og er ætlunin að unnið sé með hugarfar vaxtar að einhverju marki í öllum bekkjum skólans til að auka vilja og þrautseigju nemenda til náms og trú þeirra á eigin getu. Foreldrar hafa flestir fengið kynningu á hugmyndafræðinni, enda er orðræða foreldra og starfsfólks skóla mikilvæg þegar kemur að því að vinna með hugarfar nemenda gagnvart getu og vilja til náms. Við að fara í skólaheimsóknir lærist að auki margt annað sem kennarar geta nýtt sér og búa að í starfinu sínu.

Við erum afar þakklát Rannís og Erasmus+ fyrir að fá tækifæri sem þessi til starfsþróunar, því við vitum að þetta eflir okkur sem fagmenn og gerir skólastarfið okkar enn betra.  

Valgreinar 2019-2020

Nú ættu allir foreldrar barna í 7. – 9. bekkjar að hafa fengið tölvupóst þar sem óskað er eftir að nemendur velji sér valgreinar fyrir næsta vetur. Nánari upplýsingar um það sem er í boði má finna hér.

Hjólareglur Oddeyrarskóla

Nú er vor í lofti og upplagt að rifja upp hjólareglur skólans:

  1. Nemendur mega koma á hjóli í skólann frá sjö ára aldri samkvæmt landslögum.
  2. Nemandi sem kemur á hjóli í skólann gerir það á ábyrgð foreldra / forráðamanna sem skulu meta færni og getu barnsins sem og aðstæður til að hjóla í skólann.
  3. Þegar komið er á hjóli í skólann á að geyma það læst á skólalóðinni í eða við hjólagrindur.
  4. Nota skal viðeigandi öryggisbúnað.
  5. Ekki má nota reiðhjól eða vélknúin ökutæki, s.s. vespur, á skólalóðinni meðan skóla- og frístundarstarfi stendur.
  6. Heimilt er að vera á hlaupahjóli, hjólabretti og línuskautum á malbikaða fótboltavellinum sunnan við skólann í frímínútum. Nauðsynlegt að vera með hjálm.
  7. Skólinn ber enga ábyrgð á hjólum, hjólabrettum eða öðrum leikföngum sem nemendur koma með í skólann. Þjófnað eða skemmdarverk má tilkynna til lögreglu.

Jafnframt bendum við á einblöðung frá Samgöngustofu þar sem sjá má reglur sem gilda um létt bifhjól.

Oddeyrarskóli hampaði 2. sætinu annað árið í röð!

Í dag fór Skólahreystikeppnin fram í Íþróttahöllinni á Akureyri. Oddeyrarskóli keppti í Akureyrarriðlinum, en í þeim riðli voru sjö skólar. Í liðinu eru þau Helgi Þór Ívarsson, Gunnborg Petra Jóhannsdóttir, Ólafur Helgi Erlendsson og Tinna Huld Sigurðardóttir. Varamenn liðsins voru þau Oliwia Moranska og Óskar Óðinn Sigtryggsson.

Lið Oddeyrarskóla hafði undirbúið sig vel og hampaði 2. sætinu. Við óskum liðinu okkar og þjálfaranum þeirra, Birgittu Maggý íþróttakennara, innilega til hamingju með frábæran árangur! Lið Brekkuskóla bar sigur úr býtum og óskum við þeim innilega til hamingju.

Skólahreystiliðið okkar