Árshátíð Oddeyrarskóla 2020

Um síðustu helgi stigu nemendur skólans á svið og sýnu afrakstur æfinga síðustu vikna. Fullt hús var á öllum þremur sýningunum og kaffihlaðborð foreldrafélagsins sviganði undan kræsingum af vanda. Við erum afskaplega stolt af börnunum og eiga þau hrós skilið fyrir frábæra skemmtun.

Hægt er að skoða myndir frá sýningunum með því að smella á hlekkina hér að neðan:

Myndbönd frá árshátíðaratriðum:

Umgangspestir

Kæru nemendur og foreldrar

Nú ganga ýmsar pestir og margir fjarverandi úr skóla þess vegna. Við hvetjum alla til að huga vel að heilsu sinni, fara ekki of snemma af stað og gera allt sem hægt er til að koma í veg fyrir smit. Finna má gagnlegar upplýsingar á vef landlæknisembættis varðandi t.d. inflúensu sem nú hefur greinst á Akureyri.

Þar sem margir veikjast á þessu tímabili biðjum við ykkur líka að tilkynna veikindi barna daglega, auðvelt er að gera það í gegnum mentor og þar hægt að skrá einn eða tvo daga í einu.

Hjúkrunarfræðingur mælir með vatnsdrykkju og minnir á mikilvægi á inntöku D vítamíns.

Gleðilega hátíð

Starfsfólk Oddeyrarskóla óskar nemendum, fjölskyldum þeirra og öllum velunnurum skólans gleðilegrar hátíðar og þakkar fyrir gott samstarf á liðnu ári.

Frístundin verður opin næsta mánudag, á Þorláksmessu, frá 08:00 – 16:15. Skrifstofa skólans er lokuð frá 23. desember til 2. janúar en þá mæta starfsmenn aftur til starfa en Frístund er lokuð 2. janúar vegna skipulagsdags. Nemendur mæta svo að nýju föstudaginn 3. janúar kl. 08:10.

Starfsfólk Oddeyrarskóla

Myndir frá Jólaballi má skoða hér

Vegna óveðurs eða ófærðar

Kæru foreldrar og forráðamenn

Veðurspá er fremur slæm fyrir morgundaginn og nokkrir hafa haft samband til að spyrja um skólahald. Það eru sameiginlegar verklagsreglur fyrir alla grunnskólana á Akureyri og ágætt að rifja upp ef slæmt veður er í aðsigi. Vonum samt það besta og að veðrið verði milt og gott hjá okkur á Akureyri.

Verklagsreglur
Tilkynning lögreglu. Ef veður eða færð er með þeim hætti að morgni að lögregla mælir með því að skólahald verði fellt niður, er brugðist við því. Þá fellur niður allt formlegt skólahald í leik- og grunnskólum Akureyrarbæjar, samkvæmt tilmælum lögreglu.

Sviðsstjóri fræðslusviðs er í slíkum tilvikum í sambandi við lögreglu að morgni og kemur tilkynningu í RÚV og Bylgjuna um að kennsla sé felld niður í leik- og grunnskólum á Akureyri. Er þá gert ráð fyrir því að fyrsta tilkynning sé birt kl. 7.00 að morgni. Sviðsstjóri fræðslusviðs sendir þá sms til leik- og grunnskólastjórnenda með tilkynningu um að skólahald falli niður. Skólastjórnendur sendi þá þegar á sína starfsmenn upplýsingar um stöðu mála.

Ábyrgð foreldra. Almennt þegar vond vetrarveður ganga yfir verða foreldrar ávallt að meta sjálfir hvort óhætt sé að senda barn í skólann ef ekki hefur komið tilkynning frá lögreglu um að skólahald skuli falla niður. Í hverjum skóla er alltaf einhver hluti starfsmanna mættur til að taka á móti þeim börnum sem kunna að mæta, ef upplýsingar um lokun að tilmælum lögreglu hafa ekki náð til foreldra að morgni. Sé barn heima vegna veðurs eða ófærðar þarf að tilkynna það í sms/síma eða með tölvupósti.

Ábyrgð skólayfirvalda. Af öryggisástæðum er hver skóli ábyrgur fyrir því að stjórnandi/starfsmaður sé kominn í skólann að morgni fyrir skólabyrjun ef vera skyldi að einhverjir mættu. Þeir eru þá upplýstir um að skólahald falli niður og nemendur/leikskólabörn skuli vera heima. Tryggja skal öryggi ungra grunnskólabarna, að þau séu ekki send ein heim aftur heldur tryggt að ábyrgðaraðili sæki. Af öryggisástæðum verða einhverjir að vera í húsi til kl. 10:00.

Jólabingó foreldrafélagsins / Christmas bingo in Oddeyrarskóli

Laugardaginn 9. nóvember verður hið árlega jólabingó Foreldrafélags Oddeyrarskóla haldið. Herlegheitin byrja kl 14:00 og standa til ca kl. 17:00 og vinningarnir eru stórglæsilegir.

Spjaldið kostar 500 kr. fyrir hlé en 250 kr. eftir hlé.

10. bekkur verður með kaffisölu í hléi.

Við bendum fólki á að mæta tímanlega þar sem það er takmarkaður sætafjöldi.

Enginn posi er á staðnum.

———

On Saturday the 9th of November from 2 pm to 5 pm our yearly Christmas bingo will be held at Oddeyrarskóli. Grand prizes!

The bingo card costs 500 kr. before the break and 250 kr. after.

The 10th grade will be selling coffee and waffles during the break.

We recommend you show up early as there are limited seats.

Cash only, we will not be able to take cards.

Könnun til foreldra og forráðamanna

Kæru foreldrar og forráðamenn nemenda í Oddeyrarskóla

Þar sem viðtalsdagar eru nýafstaðnir langar okkur stjórnendur að heyra af ykkar upplifun af foreldraviðtali og/eða menntabúðum og svo hópspjalli á unglingastigi eftir því sem við á. Við viljum þróa okkur á þessum vettvangi og koma sem best til móts við þarfir foreldra og nýta tímann á skilvirkan hátt.

Með því að smella á meðfylgjandi tengil opnast könnun sem við biðjum ykkur um að svara.

Smellið hér til að taka könnun

Styrkur frá Forriturum framtíðarinnar

Forritarar framtíðarinnar eru samtök sem vilja stuðla að aukinni fræðslu og áhuga meðal barna og unglinga á forritun og tækni. Nú á dögunum hlaut Oddeyrarskóli 200.000 kr. styrk frá þeim til búnaðarkaupa og þökkum við þeim kærlega fyrir. Ætlunin að nota styrkin til að kaupa forritanlegar smátölvur og ýmsan fylgibúnað tengdan þeim.

Þetta er ekki fyrsta sinn sem við hljótum styrk frá þeim en árið 2016 fengum við 20 borðtölvur sem enn nýtast okkur vel auk námskeiðs fyrir kennara í forritunarkennslu.

Upplýsingatækni verður æ veigameiri partur af námi barna með hverju árinu, og styrkir sem þessir eru ómetanlegir. Enda viljum við að börnin okkar verði fær um að nota tæknina á jákvæðan og uppbyggjandi hátt og skapa sína eigin framtíð.

Útivistardagur þriðjudaginn 27. ágúst


Veðurútlit er töluvert betra fyrir þriðjudag en miðvikudag og því verður útivistardagur á morgun þriðjudag. Allir nemendur mæta í skólann á venjulegum tíma kl. 8.10 og njóta dagsins í mismunandi útivist. 

Nemendur í 1. bekk verða í nágrenni við skólann. Nemendur í 2., 3. og 4. bekk ætla í Naustaborgir en borða saman hér við skólann um hádegi.

Þeir sem eru á mið- og unglingastigi fengu að velja á milli þess að fara í Naustaborgir eða hjóla fram að Hrafnagili og fara þar í sund. Þeir nemendur sem völdu hjólaferðina verða að muna eftir sundfötum og hjálmi.

Nemendur þurfa að taka með sér hollt og gott nesti til að narta í um morguninn og mikilvægt er að muna eftir drykkjarföngum. Þeir sem eru í ávaxtaáskrift fá ávöxtinn sinn. Allir fá grillaðar pylsur í hádeginu, hvort sem þeir eru skráðir í mat eða ekki. Þó svo veðurspáin sé góð er mikilvægt að allir séu klæddir eftir veðri og í góðum skóm.