Samkomutakmarkanir og börn

Skólar og íþróttafélög skipuleggja sitt fyrirkomulag til að fara eftir fyrirmælum yfirvalda um takmarkanir á skólastarfi

og samkomum, þ.m.t. fjöldatakmörkunum, rýmum og grímunotkun. 

Það er mikilvægt að forráðamenn barna dragi á sama tíma úr fjölda einstaklinga í tengslaneti barna sinna utan skólatíma til að vinna ekki gegn þessum ráðstöfunum. Gott er að hafa eftirfarandi í huga: 

 • Skólafélagar sem ekki eru í sama hópi í skólastarfinu ættu ekki að vera í návígi utan skóla. 
 • Hafi börnin þroska til að fara eftir leiðbeiningum sem snúa að minni snertingu við vini er ekki útilokað að þau geti hist í leikjum. Leikirnir mega ekki fela í sér beina snertingu, notkun á sameiginlegum leikföngum eða búnaði sem snertur er með berum höndum. 
 • Börn og ungmenni ættu ávallt að þvo sér vel um hendur bæði áður en þau hitta félaga sína og eftir að þau koma heim. 
 • Fjölskyldur ættu að hafa í huga að ef börnin umgangast mikið vini eða frændsystkini úr öðrum skólum eða skólahópum þá verður til tenging milli hópa sem annars væru aðskildir. Slíkt ætti að forðast eins og kostur er. 
 • Fjölskyldur eru hvattar til að nýta sér tæknina til að halda góðum tengslum við ástvini sem eru í áhættuhópum vegna COVID-19 sýkinga, eldra fólk og fólk með ákveðna undirliggjandi sjúkdóma. 
 • Einnig væri hægt að nota tækifærið að kenna börnunum að skrifa sendibréf og æfa í leiðinni skrift, stafsetningu, virkja ímyndunaraflið og hugsa í lausnum þegar kemur að samskiptum við ástvini okkar. 

Varðandi heimili með börn þar sem sumir eru í sóttkví en aðrir ekki:

 • Ef börnin hafa ekki þroska eða getu til að virða þær ráðstafanir sem eru forsenda þess að hluti heimilisfólks geti verið í sóttkví, þarf allt heimilið að fara í sóttkví eða þeir sem ekki eru í sóttkví að fara annað um leið og sóttkví kemur til. Mögulega gæti annað foreldrið verið í sóttkví með barni en hitt foreldrið haldið fjarlægð. Foreldri með barni í sóttkví þarf ekki að vera skráð í sóttkví og þarf ekki að fara í skimun til að stytta sóttkví í 7 daga úr 14 dögum. Það er nóg að barnið sé skráð í sóttkví og fari í sýnatöku. Þetta á t.d. við leikskólabörn í sóttkví.
 • Börn sem hafa þroska og getu til að sinna eigin hreinlæti (t.d. sér salerni) og halda viðeigandi fjarlægð við foreldra (eða aðra) sem eru í sóttkví og eins við skólafélaga geta áfram sinnt námi í skóla. T.d. ef foreldri er í sóttkví gæti leikskólabarn þurft að vera líka í sóttkví en eldra systkini ekki.
 • Foreldrar stálpaðra barna í sóttkví eftir útsetningu í skóla eða tómstundum sem geta haldið viðeigandi fjarlægð frá börnunum meðan á sóttkví stendur geta sinnt áfram vinnu á vinnustað ef fjarvinna er ekki möguleg.  

Skólahald 3.- 18. nóvember

Samkvæmt nýrri reglugerð sem við störfum eftir 3. – 18. nóvember höfum við nú endurskipulagt skólastarfið með hliðsjón af þeim takmörkunum sem þar er lýst. Í ljósi stöðunnar á Akureyri og fjölda smita var ákveðið að hafa aðgerðir með eftirfarandi hætti.

1. – 4. bekkur

 • Skóladagur nemenda í 1.- 4. bekk er eins og venjulega frá 8:10 – 13:20, gengið inn í húsið á sama stað og venjulega
 • Ekki er hægt að bjóða upp á hafragraut né móttöku á bókasafni fyrir klukkan átta.
 • Nemendur koma beint inn í sínar heimastofur og þess vegna gott ef hægt er að senda börnin ekki allt of snemma af stað.
 • Frístund verður eingöngu í boði fyrir 1. og 2. bekk.
 • Hádegismatur er fyrir 1. – 4. bekk.
 • Ávextir og mjólk verða í boði fyrir þá sem eru í áskrift.
 • Kennsla er í höndum kennara stigsins, engin íþrótta- eða sundkennsla verður á meðan þessi reglugerð gildir og list- og verkgreinar ekki með hefðbundnu sniði. 

5. – 7. bekkur

 • Skóladagur nemenda í 5. -7 .bekk  hefst kl. 8:10 og lýkur um klukkan 12. 
 • Ekki verður hægt að bjóða upp á hafragraut í upphafi dags.
 • 5. bekkur gengur inn í skólann við íþróttahús (að vestan) og eru á neðstu hæð, í Stapa og öðrum rýmum á þeim gangi.
 • Nemendur í 6. og 7. bekkur ganga inn í skólann þar sem þeir eru vanir. 
 • 6. bekkur verður á miðhæð
 • 7. bekkur verður á efstu hæð
 • Engar íþróttir eða sund verða á tímabilinu og kennarateymi hvers hóps sinna allri kennslu hópsins. Ekki verður því um hefðbundið nám að ræða t.d. í list- og verkgreinum.
 • Mikilvægt er að virða 2m nándarmörk og ganga beina leið inn í þau rými sem hafa verið skilgreind fyrir hvern hóp. Nota þarf grímur á göngum og öðrum sameiginlegum rýmum þar sem hópar blandast og mætast. Við mælumst til þess að nemendur hafi grímur meðferðist ef þeir eiga.
 • Ekki verður hægt að fara í matsal og því gott ef nemendur eiga brúsa sem þeir geta haft í vatn til að drekka yfir daginn. Ávextir og mjólk verða í boði fyrir þá sem eru í áskrift.

8.- 10. bekkur

Nemendur í 8. – 10. bekk verða í fjarnámi næstu fjóra daga. Sú ákvörðun verður endurskoðuð á föstudag. Fjarnámið verður með þeim hætti að nemendur fá send verkefni í gegnum google classroom sem þeir vinna heima með stuðningi frá kennurum.  Þeir hitta kennara sína á þremur google meet fundum yfir daginn. Nemendur hitta umsjónarkennara á fyrsta fundi á google meet  kl. 9.15 í fyrramálið þar sem farið verður yfir skipulag námsins þessa daga.

Hér er hægt að fara inn á heimasíðu fjarnáms Oddeyrarskóla. Ef eitthvað er óljóst þá endilega snúið ykkur til umsjónarkennara eða deildarstjóra.

Með þökkum fyrir biðlundina og gott samstarf.

Starfsfólk Oddeyrarskóla

Reglugerð heilbrigðisráðherra um takmörkun á skólastarfi

Ný reglugerð heilbrigðisráðherra um takmörkun á skólastarfi vegna hertra sóttvarnaaðgerða tekur gildi 3. nóvember. Sett er það markmið að sem minnst röskun verði á skólastarfi og að starf á leikskólastigi og á fyrsta stigi grunnskóla verði óskert. Að ráði sóttvarnalæknis verður reglu um grímuskyldu breytt þannig að hún eigi ekki við um börn fædd 2011 og síðar.

Reglugerðin byggist á tillögum sóttvarnalæknis um hertar sóttvarnaaðgerðir til að sporna við útbreiðslu COVID-19 faraldursins og er unnin í samráði við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Hún tekur til leikskóla, grunnskóla, tónlistarskóla, framhaldsskóla, framhaldsfræðslu og háskóla, hvort sem um ræðir opinbera eða einkarekna skóla. Reglugerðin tekur einnig til annarrar starfsemi, svo sem frístundaheimila og félagsmiðstöðva, íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarfs.

Helstu aðtrið sem gilda um grunnskóla

 • Fyrsta skólastigþ.e. 1.–4. bekkur: Nemendur eru undanþegnir 2 metra nálægðartakmörkun og þurfa ekki að nota andlitsgrímur. Alls mega 50 nemendur vera í sama rými. Sömu reglur gilda um frístundaheimili fyrir nemendur í 1.–4. bekk.
 • 5.–10. bekkur: Nemendur mega að hámarki vera 25 í hverju rými. Um þá gilda 2 metra nálægðartakmörk og ef ekki er hægt að uppfylla þau skulu nemendurnir nota grímu. Starfsfólk skal jafnframt halda 2 metra regluna og nota grímu sé það ekki mögulegt.
 • Starfsfólk grunnskóla: Ekki skulu vera fleiri en 10 starfsmenn í hverju rými en starfsmönnum er heimilt að fara á milli hópa. Starfsmenn skulu virða 2 metra regluna sín á milli og gagnvart nemendum í 5.–10. bekk. Sé það ekki hægt skulu þeir bera grímur.
 • Fjöldamörk og blöndun hópa: Halda skal sömu hópaskiptingu nemenda í grunnskólastarfi og á frístundaheimilum þannig að ekki verði blöndun milli nemendahópa. Í sameiginlegum rýmum skóla er heimilt að víkja frá fjöldatakmörkum og reglu um blöndun hópa, að því gefnu að nemendur í 5.–10. bekk og starfsfólk noti grímu.
 • Skipulagt íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarf, þ.m.t. starf félagsmiðstöðva, barna á grunnskólaaldri er óheimilt.

Upplýsingar um hvernig við munum framfylgja reglunum munu birtast hér á morgun og verða einnig sendar til foreldra og forráðamanna.

Skipulagsdagur mánudaginn 2. nóvember 2020

Fræðsluyfirvöld á Akureyri hafa ákveðið að hafa skipulagsdag mánudaginn 2. nóvember í leik- og grunnskólum, tónlistarskólanum og frístundastarfi vegna hertra sóttvarnaaðgerða stjórnvalda. Þetta er gert svo starfsfólk skólanna fái svigrúm til að endurskipuleggja skólastarfið og tryggja að sóttvarnir verði eins vandaðar og kostur er.

Þriðjudaginn 3. nóvember verður starf leik-, grunn og tónlistarskóla samkvæmt breyttu skipulagi og nýrri reglugerð um sóttvarnir í leik- og grunnskólum.

Nánari upplýsingar um skólastarfið verða sendar frá skólunum til foreldra og forsjáraðila fyrir dagslok á morgun, mánudag.

Skólahald hefst að nýju á mánudag

Skólahald hefst að nýju á mánudaginn 26. október samkvæmt stundaskrá. Foreldrar hafa fengið nánari upplýsingar í tölvupósti. Hllökkum til að hitta alla aftur í skólanum!

Smit í Oddeyrarskóla (uppfært)

Nemandi á miðstigi hefur greinst með staðfest smit af Covid-19. Vegna þessa hefur skólanum verið lokað og allt starfsfólk og nemendur sæta nú úrvinnslusóttkví á meðan smitrakning fer fram.

Starfsfólk, nemendur og foreldrar þeirra eru beðnir að fylgjast vel með því hvort fram komi einkenni sjúkdómsins og er bent á að hafa samband við heilsugæsluna ef grunur vaknar um smit. Enn er óupplýst hver uppruni smitsins er en smitrakning er hafin.

Oddeyrarskóli verður lokaður mánudaginn 19. október vegna smitsins og síðan taka við haustfrí út næstu viku.

Nánari upplýsingar ma finna inni á www.covid.is

Þær aðgerðir sem verður farið í á þessu stigi í samráði við almannavarnir eru:

 • Allir nemendur í 5. 6. og 7. bekk fara í sóttkví og verða boðaðir í sýnatöku upp úr miðri næstu viku.
 • Allir starfsmenn á miðstigi, kennarar og stuðningsfulltrúar og allir þeir sem hafa verið í beinum tengslum við hin smitaða í fimmtán mínútur eða lengur fara í sóttkví.
 • Úrvinnslusóttkví er því aflétt hjá öðru starfsfólki en um að gera að fara að öllu með gát hér eftir sem hingað til.
 • Skólinn verður eftir sem áður lokaður á mánudag til að takmarka umgengni.
 • Frístund verður lokuð alla næstu viku þar sem margir starfsmenn eru í sóttkví.

Pangea stærðfræðikeppnin 2020

Nokkriar af þeim 3712 nemendum sem tóku þátt í ár

Í dag fóru fram úrslit Pangeu 2020 sem var frestað síðasta vor vegna kórónuveirufaraldursins. Af sömu ástæðum var keppnin í dag frábrugðin úrslitum síðustu ára. Ekki var hægt að safnast saman í Menntaskólanum við Hamrahlíð en í staðinn þreyttu þátttakendur prófið á skólatíma í sínum skólum víðs vegar um landið.

Ekki eru enn komnar niðurstöður en Ebba Þórunn Jónsdóttir úr Oddeyrarskóla stóð sig vel og er ein af 86 sem luku keppni í 3. umferð keppninnar en alls tóku 3.712 nemendur þátt úr 70 skólum,.

Byrjað verður að skrá nemendur í keppni þessa skólaárs í janúar og um að gera að við hvetjum sem flesta til að taka þátt.