Frábær námstækifæri með Erasmus+

Nú á vormánuðum hafa 10 kennarar úr Oddeyrarskóla farið í námsferðir / skólaheimsóknir sem fjármagnaðar hafa verið með tveggja ára Erasmus styrk sem sótt var um á vordögum 2017.

Sjö kennarar af yngsta stigi skólans fóru til Noregs og heimsóttu skóla í nágrenni við Osló þar sem þeir kynntu sér hugmyndafræði í stærðfræðikennslu sem við erum að þróa í skólanum undir leiðsögn Þóru Rósu Geirsdóttur ráðgjafa hjá MSHA. Í daglegu tali köllum við þessa stærðfræði Zankov – stærðfræðina, en upphaflega kemur hugmyndafræðin frá Rússlandi og byggir á hugmyndafræði Zankov. Þessi hugmyndafræði í kennslu hefur verið að ryðja sér til rúms í skólum víðs vegar um Noreg (undir heitinu utviklende matematikk) og eru þrír skólar að vinna að þróun kennsluhátta í þessa veru á Íslandi og er árangur rannsakaður samhliða því. Við erum nú að ljúka öðru ári í innleiðingunni, en kennslan byggir mikið á samræðum og vinnu með skilning nemenda á stærðfræðihugtökum.

Þrír af þeim kennurum sem starfa í heilsueflingarnefnd skólans brugðu sér til Glasgow í Skotlandi heimsóttu Dr. John Paul Fitzpatrick kennsluráðgjafa, sem styður m.a. við skóla sem eru að innleiða hugmyndafræði hugarfars vaxtar eða Growth mindset. Kennararnir heimsóttu tvo skóla sem John Paul hefur verið að styðja við og var margt gagnlegt skoðað og rætt í þeirri ferð. Heilsueflingarnefnd skólans hefur verið að kynna sér þessa hugmyndafræði í vetur í tengslum við geðræktarþátt heilsueflandi grunnskóla og er ætlunin að unnið sé með hugarfar vaxtar að einhverju marki í öllum bekkjum skólans til að auka vilja og þrautseigju nemenda til náms og trú þeirra á eigin getu. Foreldrar hafa flestir fengið kynningu á hugmyndafræðinni, enda er orðræða foreldra og starfsfólks skóla mikilvæg þegar kemur að því að vinna með hugarfar nemenda gagnvart getu og vilja til náms. Við að fara í skólaheimsóknir lærist að auki margt annað sem kennarar geta nýtt sér og búa að í starfinu sínu.

Við erum afar þakklát Rannís og Erasmus+ fyrir að fá tækifæri sem þessi til starfsþróunar, því við vitum að þetta eflir okkur sem fagmenn og gerir skólastarfið okkar enn betra.  

Valgreinar 2019-2020

Nú ættu allir foreldrar barna í 7. – 9. bekkjar að hafa fengið tölvupóst þar sem óskað er eftir að nemendur velji sér valgreinar fyrir næsta vetur. Nánari upplýsingar um það sem er í boði má finna hér.

Hjólareglur Oddeyrarskóla

Nú er vor í lofti og upplagt að rifja upp hjólareglur skólans:

  1. Nemendur mega koma á hjóli í skólann frá sjö ára aldri samkvæmt landslögum.
  2. Nemandi sem kemur á hjóli í skólann gerir það á ábyrgð foreldra / forráðamanna sem skulu meta færni og getu barnsins sem og aðstæður til að hjóla í skólann.
  3. Þegar komið er á hjóli í skólann á að geyma það læst á skólalóðinni í eða við hjólagrindur.
  4. Nota skal viðeigandi öryggisbúnað.
  5. Ekki má nota reiðhjól eða vélknúin ökutæki, s.s. vespur, á skólalóðinni meðan skóla- og frístundarstarfi stendur.
  6. Heimilt er að vera á hlaupahjóli, hjólabretti og línuskautum á malbikaða fótboltavellinum sunnan við skólann í frímínútum. Nauðsynlegt að vera með hjálm.
  7. Skólinn ber enga ábyrgð á hjólum, hjólabrettum eða öðrum leikföngum sem nemendur koma með í skólann. Þjófnað eða skemmdarverk má tilkynna til lögreglu.

Jafnframt bendum við á einblöðung frá Samgöngustofu þar sem sjá má reglur sem gilda um létt bifhjól.

Oddeyrarskóli hampaði 2. sætinu annað árið í röð!

Í dag fór Skólahreystikeppnin fram í Íþróttahöllinni á Akureyri. Oddeyrarskóli keppti í Akureyrarriðlinum, en í þeim riðli voru sjö skólar. Í liðinu eru þau Helgi Þór Ívarsson, Gunnborg Petra Jóhannsdóttir, Ólafur Helgi Erlendsson og Tinna Huld Sigurðardóttir. Varamenn liðsins voru þau Oliwia Moranska og Óskar Óðinn Sigtryggsson.

Lið Oddeyrarskóla hafði undirbúið sig vel og hampaði 2. sætinu. Við óskum liðinu okkar og þjálfaranum þeirra, Birgittu Maggý íþróttakennara, innilega til hamingju með frábæran árangur! Lið Brekkuskóla bar sigur úr býtum og óskum við þeim innilega til hamingju.

Skólahreystiliðið okkar

Klæðumst bláu á BLÁA DAGINN

Í tilefni af vitundar- og styrktarátakinu BLÁR APRÍL sem er nú haldið í sjötta sinn, eru börn og fullorðnir hvattir til að klæðast bláu þriðjudaginn 2. apríl til að sýna einhverfum stuðning og samtöðu. Undanfarin ár hafa margir brugðið á það ráð að birta myndir á samfélagsmiðlum með myllumerkinu #blarapril sem hefur lífgað upp á daginn og hjálpað til við að breiða út boðskapinn

Er einhver í þínum skóla sem á skilið að fá Viðurkenningu fræðsluráðs!

Frá árinu 2010 hefur fræðsluráð veitt þeim sem skarað hafa fram úr í skólastarfi viðurkenningar við hátíðlega athöfn. Viðurkenningarnar eru í tveimur flokkum, þ.e. nemendur og skólar/starfsfólk.

Markmiðið er að vekja sérstaka athygli á því sem vel er gert og hvetja þá sem fyrir valinu verða til þess að halda áfram því góða starfi sem þeir eru að vinna og jafnvel gera enn betur.

Tilnefna má nýbreytniverkefni um hvaðeina í skólastarfi sem unnið hefur verið að á yfirstandandi skólaári, nemendavinnu, vinnu hópa eða einstaklinga, upplýsingamiðlun (s.s. heimasíður og fréttabréf), stefnumótun og skipulag, starf eins kennara eða samvinnu þeirra, verkefni í almennri kennslu, sérgreinum eða sérkennslu, framlag starfsfólks skólans, forvarnarstarf, félagsstarf, foreldrasamstarf o.s.frv.

Allir sem þekkja til skólasamfélagsins geta tilnefnt. Tilnefningar þurfa að berast fyrir lok föstudagsins 12. apríl nk.

Til að tilnefna, þá ferð þú á eftirfarandi slóð: https://www.akureyri.is/is/thjonusta/menntun/vidurkenning-skolanefndar en þar er einnig að finna frekari upplýsingar um viðburðinn.

You need to add a widget, row, or prebuilt layout before you’ll see anything here. 🙂

Skemmtilegir smiðjudagar að baki

Smiðjudagar voru hér í Oddeyrarskóla í dag og í gær. Að þessu sinni var ákveðið að dagarnir einkenndust af áherslum skólans, þ.e. upplýsingatækni, heilsueflingu, læsi og geðrækt.

Nemendum var skipt í hópa sem voru blandaðir af hverju stigi fyrir sig og fóru á þessum tveimur dögum á milli níu 40 mínútna stöðva. Á stöðvunum voru nemendur að forrita, gera vísindatilraunir, taka þátt í ýmiss konar samskiptaleikjum, læra um jákvæðar hugsanir, teikna myndir við ljóð, búa til kappakstursbíla í tæknilegó, skapa tónlist í tölvum, gera núvitundaræfingar o.fl.

Við erum gríðarlega ánægð eftir þessa daga, nemendur voru glaðir og duglegir og það gleður okkur öll!

You need to add a widget, row, or prebuilt layout before you’ll see anything here. 🙂

Nýjar skóflur og mannbroddar

Formaður foreldrafélagsins, Unnur Vébjörnsdóttir, kom færandi hendi í dag. Fyrir hönd félagsins afhenti hún skóflur sem hægt er að nýta í útikennslu með börnunum og um leið fengu þau mannbrodda til að nota í gönguferðir þegar hált er úti. Við þökkum kærlega fyrir og hlökkum til að nýta þessar góðu gjafir.