PMTO foreldranámskeið í janúar

Flest börn sýna erfiða hegðun á einhverjum tímapunkti, en oftast gengur það tímabil yfir. Þegar svo er ekki þurfa foreldrar oft á tíðum aðstoð, einkum þegar samskipti barnsins innan fjölskyldunnar, í skólanum eða annars staðar í umhverfinu eru orðin neikvæð. Í PMTO styðjandi foreldrafærni er lögð áhersla á vinnu með foreldrum þar sem þeir eru mikilvægustu kennarar barna sinna.

PMTO þjónusta er í boði fyrir fjölskyldur og fagfólk á Akureyri. Einstaklingsmeðferð fyrir foreldra er veitt með reglubundnum hætti á skrifstofu meðferðaraðila. Meðferðaraðili kemur á heimili ef um sérstakar aðstæður er að ræða og ef óskað er eftir því sérstaklega.

Til að komast á PMTO foreldranámskeið geta foreldra óskað eftir því að skóli barnsins eða félagsráðgjafar á fjölskyldudeild hafi milligöngu með umsókn eða haft samband við verkefnastjóra PMTO á skóladeild Akureyrar í síma 460 1455.

Upplýsingaplagg um PMTO á Akureyri

Lesum meira

Læsi barna er samvinnuverkefni. Mikilvægt er að öll börn fái tækifæri til að eiga daglega lestrarstund til loka grunnskóla. Foreldrar og aðstandendur verða að vera virkir í læsisuppeldi barna sinna og fylgjast með framvindu og árangri í lestrarfærni. 15 mínútur á dag geta gert gæfumuninn til að viðhalda lestrarfærni. Eigum við ekki öll korter til að hlusta á börnin okkar lesa?

Heimasíða Lesum meira verkefnisins.

 

Skólastarf hefst á ný á morgun

Kæru nemendur og forráðamenn!

Við óskum ykkur öllum gleðilegs nýs árs og þökkum fyrir samstarf og samveru á liðnu ári.

Skólastarf hefst á ný í Oddeyrarskóla á morgun, fimmtudaginn 3. janúar 2019.

Hlökkum til að sjá ykkur!

Gleðileg jól!

Í dag voru litlu-jól nemenda haldin hátíðleg.

Við sungum jólalög og dönsuðum í kringum jólatré á sal skólans við undirleik Ívans Mendez. Óvæntir  gestir komu í heimsókn (með miklum látum reyndar), en það voru þeir Giljagaur og Stekkjarstaur.

Sjá má sýnishorn frá deginum á meðfylgjandi myndum.

Starfsfólk Oddeyrarskóla óskar nemendum og foreldrum gleðilegrar jólahátíðar og gleðilegs nýs árs. Við þökkum gott samstarf á árinu sem er að líða og hlökkum til endurfunda á nýju ári.

Jóla-fjölgreindardagur

Í dag, miðvikudaginn 12. desember, héldum við jólafjölgreindardag. Nemendur voru í aldursblönduðum hópum allt frá 1. – 10. bekk og fóru á milli stöðva þar sem þau unnu ýmis jólatengd verkefni. Hver hópur fór á fimm stöðvar. Á einni stöðinni skáru nemendur út laufabrauð sem þeir gátu snætt með hátíðarmatnum sem boðið er uppá í mötuneytinu. Á öðrum stöðvum voru leikir og föndur og virtust allir una sér vel.

 

Hér eru nokkrar myndir frá deginum.

Fréttir frá nemendum úr valgreininni fjármálalæsi

Í valgreininni fjármálalæsi í Oddeyrarskóla höfum við í haust unnið nokkur skemmtileg verkefni.

Fyrsta verkefnið sem við unnum var að skoða verð á Glerártorgi. Allir nemendur völdu sér eina dýra vöru, t.d. tölvu og sjónvarp. Við reiknuðum svo út hvað það kostaði að kaupa vöruna með því að taka lán fyrir vörunni t.d. með Netgíró og Pei. Niðurstaðan var sú að kostnaður við að kaupa vöruna með afborgunum var allt frá 13% – 25%. Við reiknuðum einnig hversu miklu munaði að kaupa vörur í litlum eða stórum umbúðum. Í öllum tilfellum var hagstæðara að kaupa meira magn, t.d. kostaði ½ líter af mjólk 130 kr. og 1 líter 212 kr. Þannig munaði 48 krónur á sama magni.

Hópurinn fór á tvær bílasölur og valdi sér álitlegan bíl til að ,,kaupa”. Nemendur reiknuðu út hvað það kostar að taka bílalán og hve mikil útborgun ætti að vera. Allir settu upp ársyfirlit sem sýndi hvað kostaði að eiga og reka bílinn í heilt ár. Flestum kom að óvart hvað það var dýrt að reka bílinn. Ekki var nóg að geta staðið við útborgun eða afborganir. Nemendur flettu upp á kostnaði, t.d. við umfelgun, smurningu, tryggingar, viðhald, dekk, bifreiðargjöld o.s.frv.  

Eitt af verkefnum vetrarins var að búa til áætlun til að safna peningum og settu nemendur sér markmið og upphæð til að leggja fyrir mánaðarlega. Þannig var verkefnið sett upp í töflureikni og nemendur fundu ársvexti og reiknuðu hvað færi há upphæð í fjármagnstekjuskatt.

Við erum einnig að fylgjast með verðþróun á ákveðnum vörum í matvöruverslun og berum saman verð í ágúst og desember. Niðurstöður af þeirri könnun benda ekki til verðhækkana. Nemendur hafa líka fylgst með verði á bensíni og olíu við höfum notað handhæga síðu á netinu sem heitir gsmbensin.is. Þannig höfum við séð að einn lítri af bensíni hefur hækkað um nokkrar krónur, líklega vegna þess að gengi íslenskrar krónu hefur lækkað gagnvart öðrum gjaldmiðlum.

Í flestum verkefnum studdist hópurinn við bókina Fyrstu skrefin í fjármálum eftir Gunnar Baldvinsson sem skólinn fékk að gjöf. Með bókunum fylgdu spil með hugtökum sem tengjast fjármálum og fjármálalæsi sem við höfum notað mikið. Í lokin settum við helstu hugtök upp í Quizlet sem var góð tilbreyting.    

Nemendur í fjármálalæsi í Oddeyrarskóla og María Aðalsteinsdóttir, kennari

Dagskrá á sal í dag

Í dag hittumst við, nemendur og starfsfólk skólans,
á sal til að minnast 100 ára fullveldisafmælis okkar Íslendinga. Eftir að hafa hlýtt á stutta uporifjun um fullveldið hjá Kristínu skólastjóra og fallegan upplestur Ellenar Óskar á ljóðinu Hver á sér fegra föðurland sungu nemendur Ísland er land þitt og Ferðalok við undirspil Ívars Helgasonar. Við notuðum jafnframt tækifærið til að ræða falleg samskipti og góða framkomu við náungann í tilefni af baráttumánuði gegn einelti. Við þetta tilefni fengu nemendur 1. bekkjar og nýir nemendur í 2. og 3. bekk húfur sem á stendur: GEGN EINELTI. Við vonum að nemendur verði duglegir að nota þessar fallegu húfur sem starfsmenn skólans hafa prjónað í öllum regnbogans litum. Engar tvær húfur eru eins sem minnir okkur á að engir tveir einstaklingar eru eins og að við eigum að virða ólíka einstaklinga.

100 ára fullveldisafmæli fagnað í Oddeyrarskóla á morgun

Á morgun, föstudaginn 30. nóvember munum við fagna 100 ára fullveldisafmæli Íslands með stuttri samveru á sal. Af þessu tilefni mætum við öll krædd betri fötunum. Margir nemendur hafa verið að læra um fullveldið og fullveldisárið undanfarið og má hér m.a. sjá myndir nemenda í 3. bekk af íslenska fánanum.

Peningagjöf til bókakaupa frá Lionshreyfingunni


Í dag boðaði Lionshreyfingin skólastjórnendur og skólasafnskennara á svæðinu til fundar þar sem afhentar voru peningafjárhæðir til bókakaupa í skólana. Fjárhæðir miðuðust við fjölda nemenda í skólunum. Oddeyrarskóli fékk 80 þúsund krónur og munu þær koma sér afar vel til að bæta nýjum barna- og unglingabókum í bókakost fallegu Lestu-hillunnar okkar. Kristín skólastjóri og Þórarinn skólasafnskennari tóku á móti gjöfinni og munu þau í framhaldinu heimsækja bekki og kalla eftir óskum nemenda varðandi bókakaup. Við þökkum Lionshreyfingunni innilega fyrir veglega og kærkomna gjöf!