Göngum í skólann

Þann 4. september hófst átakið göngum í skólann. Við hvetjum alla til að koma gangandi eða á hjólum. Einnig má nota almenningssamgöngur en reynum að forðast að nota einkabíl. Átakið stendur yfir í fjórar vikur eða til 2. október. Í skólanum hafa kennarar gert ýmislegt til að minna á átakið og skrá niður fararmáta.

Útivistardagur þriðjudaginn 27. ágúst


Veðurútlit er töluvert betra fyrir þriðjudag en miðvikudag og því verður útivistardagur á morgun þriðjudag. Allir nemendur mæta í skólann á venjulegum tíma kl. 8.10 og njóta dagsins í mismunandi útivist. 

Nemendur í 1. bekk verða í nágrenni við skólann. Nemendur í 2., 3. og 4. bekk ætla í Naustaborgir en borða saman hér við skólann um hádegi.

Þeir sem eru á mið- og unglingastigi fengu að velja á milli þess að fara í Naustaborgir eða hjóla fram að Hrafnagili og fara þar í sund. Þeir nemendur sem völdu hjólaferðina verða að muna eftir sundfötum og hjálmi.

Nemendur þurfa að taka með sér hollt og gott nesti til að narta í um morguninn og mikilvægt er að muna eftir drykkjarföngum. Þeir sem eru í ávaxtaáskrift fá ávöxtinn sinn. Allir fá grillaðar pylsur í hádeginu, hvort sem þeir eru skráðir í mat eða ekki. Þó svo veðurspáin sé góð er mikilvægt að allir séu klæddir eftir veðri og í góðum skóm.

Leiðbeiningar frá Mentor

Á hverju hausti fær Mentor alls kyns fyrirspurnir frá notendum sem eru ýmist að byrja að nota kerfið eða hafa notað það áður en lenda í einhverjum vandræðum.

Hér eru hagnýtar upplýsingar fyrir notendur um Mentor kerfið.

Skólasetning

Oddeyrarskóli verður settur fimmtudaginn 22. ágúst. Allir nemendur í 2. – 10. bekk mæta á sal skólans kl. 9:00. Nemendur í 1. bekk eru einnig velkomnir. Þar verður stutt ávarp skólastjóra en nemendur fara síðan með sínum umsjónarkennara í heimastofur. Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá föstudaginn 23. ágúst.

UNICEF hlaupið

Kæru nemendur Oddeyrarskóla, hér eru stutt skilaboð frá UNICEF hreyfingunni:

Takk kærlega fyrir samstarfið í ár! í heildina söfnuðu börn í Oddeyrarskóla 181.626 krónum! Það er virkilega vel gert! Þetta mun nýtast UNICEF víðsvegar um heiminn í þeim tilgangi að uppfylla grundvallarmannréttindi barna. 


Með þessari upphæð verður til dæmis hægt að

  • Kaupa 282.000 vatnshreinsitöflur, en með þeim er hægt að hreinsa yfir 1.4 milljón lítra af ódrykkjarhæfu vatni og gera öruggt til þess að drekka eða nota í matargerð og fl. 
  • Kaupa yfir 8.000 skammta af bóluefni gegn mænusótt
  • Kaupa yfir 3.352 skammta af vítamínbættu jarðhnetumauki, nóg til þess að veita a.m.k. tólf lífshættulega vannærðum börnum þrjá mánuði af allri þeirri næringu sem þau þurfa til þess að ná heilbrigðri þyngd. 

Skólaslit Oddeyrarskóla

Oddeyrarskóla verður slitið á morgun, þriðjudaginn 4. júní 2019.

Skólaslit 1. – 7. bekkjar verða á sal kl. 13:00 og eru allir foreldrar velkomnir.

Skólaslit 8. -10. bekkjar og útskrift 10. bekkjar nema verður á sal kl. 17:00.

Að þeirri athöfn lokinni er nemendum 10. bekkjar og fjölskyldum þeirra boðið í kaffi með starfsfólki skólans.

Viðurkenning fræðsluráðs

Á hverju ári veitir fræðsluráð viðurkenningar til nemenda og starfsfólks skóla fyrir framúrskarandi vinnu við nám og félagsstörf eða frumkvöðlastarf á sínu sviði. Að þessu sinni fengu tveir nemendur Oddeyrarskóla viðurkenningar, þær Oliwia Moranska í 9. bekk og Birta Ósk Þórólfsdóttir í 10. bekk. Birta var á skólaferðalagi þegar afhending fór fram en foreldrar hennar tóku við viðurkenningunni. Við óskum þeim báðum hjartanlega til hamingju.