Fjölgreindardagur 3. október

Fimmtudaginn 3. október var fjölgreindardagur í Oddeyararskóla. Hefðbundin stundaskrá var brotin upp. Nemendum var blandað í námshópa þvert á aldur þar sem og voru hópstjórar elstu nemendur í hverjum hópi, oftast nemendur í 10. bekk. Farið var milli námsstöðva þar sem fjölbreytnin var í fyrirrúmi og stuðst við fjölgreindarkenningu Gardners. Dæmi um viðfangsefni er steinamálun, hreyfing, hugarflæði og leikir. Í frímínútum var boðið upp á skúffuköku, mjólk og ávexti í tilefni þess að nemendur náðu að safna 5000 þrumum sl. vor. Þegar þessari dagskrá var lokið var farið í íþróttasalinn. Þar fengu þeir nemendur sem hraðast hlupu í skólahlaupinu viðurkenningu. Að lokum dönsuðu allir, stórir og smáir zumba og skemmtu sér vel. Hér má sjá myndir frá deginum og hér koma myndir frá kaplakubba stöðinni.

Styrkur frá Forriturum framtíðarinnar

Forritarar framtíðarinnar eru samtök sem vilja stuðla að aukinni fræðslu og áhuga meðal barna og unglinga á forritun og tækni. Nú á dögunum hlaut Oddeyrarskóli 200.000 kr. styrk frá þeim til búnaðarkaupa og þökkum við þeim kærlega fyrir. Ætlunin að nota styrkin til að kaupa forritanlegar smátölvur og ýmsan fylgibúnað tengdan þeim.

Þetta er ekki fyrsta sinn sem við hljótum styrk frá þeim en árið 2016 fengum við 20 borðtölvur sem enn nýtast okkur vel auk námskeiðs fyrir kennara í forritunarkennslu.

Upplýsingatækni verður æ veigameiri partur af námi barna með hverju árinu, og styrkir sem þessir eru ómetanlegir. Enda viljum við að börnin okkar verði fær um að nota tæknina á jákvæðan og uppbyggjandi hátt og skapa sína eigin framtíð.

Ólympíuhlaup ÍSÍ

Miðvikudaginn 19. september sl. var Ólympíuhlaup ÍSÍ en sambærilegt hlaup hefur verið í grunnskólunum um árabil og var þá nefnt Norræna skólahlaupið. Eldri nemendur Oddeyrarskóla hlupu skólahringinn svokallaða sem markast af Grenivöllum, Ægisgötu, Eyrarvegi og Sólvöllum og fóru að lágmarki tvo hringi en yngri nemendur hlupu að lágmarki tvo hringi kringum skólalóð. Að hlaupi loknu var boðið upp á niðurskorna ávexti við skólann og einnig var spiluð tónlist sem setti skemmtilegan svip á daginn. Viðurkenningar verða veittar fyrir besta tíma á hverju stigi en það verður gert við hentugt tækifæri. Hér má sjá myndir frá deginum.

Nemendur við rásmarkið

Gjöf frá foreldrafélaginu

Fulltrúar frá foreldrafélagi Oddeyrarskóla komu færandi hendi í morgun þar sem þeir gáfu öllum nemendum skólans vatnsbrúsa. Brúsinn er appelsínugulur, sem hefur undanfarin ár verið litur skólans í keppninni Skólahreysti. Hann er merktur Foreldrafélagi Oddeyrarskóla og nafni hvers nemenda. Þetta er góð og nytsamleg gjöf og færum við í Oddeyrarskóla foreldrafélaginu hinar bestu þakkir fyrir. Myndir

Lestrarvinir

Lestrarvinir er samstarfsverkefni Rauða krossins og Amtbókasafnsins á Akureyri fyrir börn á aldrinum 2-8 ára. Með því að taka þátt í verkefninu gefst tækifæri til að styðja við lestrarnám barnanna. Nánari upplýsingar og umsóknareyðublað má finna hér.

Úttekt á skólahúsnæði

Síðastliðið vor ákvað umhverfis- og mannvirkjaráð Akureyrarbæjar að ráðast í úttekt á loftgæðum í skólamannvirkjum. Í sumar var gerð úttekt á húsnæði Oddeyrarskóla. Að mati sérfræðinga frá verkfræðistofunni Verkís var niðurstaðan sú að ástand skólans sé mjög gott og engin ástæða til að ætla að loftgæði geti á nokkurn hátt hamlað skólastarfi. Gildi myglu voru mæld bæði með loft- og snertisýnum. Ábendingar komu fram um lítils háttar úrbætur á afmörkuðum svæðum og var strax hafist handa við þær en þær fólust í sótthreinsun og staðbundnum viðgerðum. Þau gildi myglu sem þar mældust eru vel innan eðlilegra marka miðað við það sem almennt gerist í húsnæði á Íslandi. Loftræsting var bætt í þeim tveimur kennslustofum sem athugasemdir voru gerðar við. Ætlunin er að fylgja málinu eftir og mæla loftgæði í skólanum þegar starfsemi verður í húsinu en það verður gert þegar líða tekur á skólaárið.

Göngum í skólann

Þann 4. september hófst átakið göngum í skólann. Við hvetjum alla til að koma gangandi eða á hjólum. Einnig má nota almenningssamgöngur en reynum að forðast að nota einkabíl. Átakið stendur yfir í fjórar vikur eða til 2. október. Í skólanum hafa kennarar gert ýmislegt til að minna á átakið og skrá niður fararmáta.

Útivistardagur þriðjudaginn 27. ágúst


Veðurútlit er töluvert betra fyrir þriðjudag en miðvikudag og því verður útivistardagur á morgun þriðjudag. Allir nemendur mæta í skólann á venjulegum tíma kl. 8.10 og njóta dagsins í mismunandi útivist. 

Nemendur í 1. bekk verða í nágrenni við skólann. Nemendur í 2., 3. og 4. bekk ætla í Naustaborgir en borða saman hér við skólann um hádegi.

Þeir sem eru á mið- og unglingastigi fengu að velja á milli þess að fara í Naustaborgir eða hjóla fram að Hrafnagili og fara þar í sund. Þeir nemendur sem völdu hjólaferðina verða að muna eftir sundfötum og hjálmi.

Nemendur þurfa að taka með sér hollt og gott nesti til að narta í um morguninn og mikilvægt er að muna eftir drykkjarföngum. Þeir sem eru í ávaxtaáskrift fá ávöxtinn sinn. Allir fá grillaðar pylsur í hádeginu, hvort sem þeir eru skráðir í mat eða ekki. Þó svo veðurspáin sé góð er mikilvægt að allir séu klæddir eftir veðri og í góðum skóm.

Leiðbeiningar frá Mentor

Á hverju hausti fær Mentor alls kyns fyrirspurnir frá notendum sem eru ýmist að byrja að nota kerfið eða hafa notað það áður en lenda í einhverjum vandræðum.

Hér eru hagnýtar upplýsingar fyrir notendur um Mentor kerfið.