Þessa dagana eru fulltrúar frá SAFT að heimsækja nemendur í 6. bekk grunnskólanna á Akureyri. Við eigum von á þeim hingað í Oddeyrarskóla á föstudagsmorguninn kl. 9:00. Hópurinn verður einnig með erindi í Hofi á málþingi um snjalltækjanotkun barna og unglinga á fimmtudagskvöldið kl. 20:00-21:30. Hér er auglýsing fyrir þann fund. Við hvetjum foreldra til að fjölmenna á fundinn, enda afar mikilvægt unfjöllunarefni.
Category Archives: Fréttir og tilkynningar
Upplýsingar vegna árshátíðar
Nú styttist í árshátíð og standa æfingar sem hæst. Nemendasýningar verða á föstudagsmorgunn en svo er stóri dagurinn á laugardag. Þá eru sýningar kl. 13 og 16 og kaffihlaðborð foreldrafélagsins á milli sýninga. Þetta er stærsta fjáröflunarleið foreldrafélagsins og fara tekjur þess að stærstum hluta í að styðja við skólastarfið og ferðir nemenda. Því er það hagur okkar allra að fjölmenna á kaffihlaðborðið.
Miðar eru seldir í forsölu hér í skólanum. Miðinn kostar þá 400 kr. en miðar keyptir sýningardegi kosta 500 kr.
Nýjustu Tengjuna, sem innihledur hagnýtar upplýsingar vegna árshátíðar er að finna hér.
Þennan dag verður makkarónusúpa í hádegismat í staðinn fyrir pizzu. Pizzan verður á öðrum degi í staðinn 🙂
Nemendum 1. bekkjar boðið upp á skíðkennslu í Hlíðarfjalli um helgina
Skíða- og brettaskólinn í Hlíðarfjalli býður 1. bekkingum á Akureyri að koma í tveggja tíma kennslu á skíðum eða bretti þeim að kostnaðarlausu. Nemendum í 1. bekk í Oddeyrarskóla er boðið að koma laugardaginn 17. janúar eða sunnudaginn 18. janúar frá kl. 10-12. Það þarf að panta kennsluna á heimasíðu Hlíðarfjalls,www.hlidarfjall.is fyrir kl. 17 fimmtudaginn 15. janúar. Til að skrá sig í skólann er farið inn á eftirfarandi tengil: http://www.hlidarfjall.is/is/skidaskolinn/barnaskidaskolinn/skraningarblad-i-skidaskolann
Við skráningu þarf að skrifa nafn skólans í dálkinn „Annað“. Einnig þarf að merkja við ef óskað er eftir búnaði úr leigunni, hann er einnig ykkur að kostnaðarlausu. Í leigunni er hægt að fá hjálm.
Á skráningarblaðinu þarf að skrá getu:
- 0 stig (þeir sem ekki kunna að stoppa)
- 1-2 stig (geta bjargað sér í Hólabraut/diskalyftu, beygt og stoppað)
- 3+ (geta farið í stólalyftuna)
Mikilvægt er að mæta tímalega, sérstaklega ef búnaður er fenginn úr leigunni. Nánari upplýsingar í síma 462-2280 eða skidaskoli@hlidarfjall.is
Með skíðakveðju, Skíða- og brettaskólinn í Hlíðarfjalli
Tannlæknar barna – skilaboð frá hjúkrunarfræðingi
Samningur Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) og Tannlæknafélags Íslands um tannlækningar barna, sem tók gildi þann 15. maí 2013 mun taka til 8 og 9 ára barna frá og með 1. janúar 2015.
Tannlækningar eru greiddar að fullu af Sjúkratryggingum Íslands fyrir utan 2.500 kr., árlegt komugjald.
Samningurinn tekur einnig til allra barna í bráðavanda, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, óháð áfangaskiptingu samningsins.
Forsenda greiðsluþátttöku SÍ er skráning barna hjá heimilistannlækni en nú þegar hafa um 50.000 börn verið skráð.
Gjaldfrjálsar tannlækningar hafa komið inn í skrefum frá 15. maí 2013, í upphafi tók samningurinn til 15,16 og 17 ára barna en síðan hafa bæst við 3ja, 10, 11, 12 13 og 14 ára börn og nú 1. janúar 2015 bætast við 8 og 9 ára börn. Frá og með 1. janúar 2018 munu öll börn yngri en 18 ára falla undir samninginn.
Síðbúin desembertengja
Nú er desembertengjan loksins komin í loftið og er hún að vanda undir flipanum Tengja sem sjá má hér fyrir ofan. Desembertengjan inniheldur skemmtilegar myndir frá hæfileikakeppninni og frá kaffihúsi sem 9. bekkurinn hélt utanum. Einnig er þar að finna fréttir um niðurstöður samræmdra könnunarprófa og skólapúlsins.
Janúartengjan, sem inniber allar nauðsynlegar upplýsingar um skipulag árshátíðar er væntanleg undir lok næstu viku.
Skólastarfið hefst á morgun
Gleðilegt nýtt ár kæru nemendur og foreldrar! Á morgun hefst skólastarfið á ný og verður kennsla skv. stundaskrá.
Hlökkum til að sjá ykkur öll!
Stekkjastaur í lestrarkennslu hjá nemendum í 1. og 2. bekk
Fyrir nokkru síðan heimsótti Stekkjastaur nemendur í 1. og 2. bekk og komust þeir þá að því að hann skorti færni í lestri og ritun. Þau buðu honum að heimsækja sig aftur svo þau gætu þá kennt honum að lesa og skrifa.
Á dögunum mætti Sveinki aftur með forláta skólatösku á bakinu og eins og sjá má á myndasíðu skólans brugðust krakkarnir honum ekki, heldur aðstoðuðu þeir hann við að læra að lesa, skrifa og reikna.
Heimsókn Stekkjastaurs vakti afar mikla kátínu hjá nemendum og starfsfólki!
Hæfileikakeppni í Oddeyrarskóla
Í dag stóð nemendaráð Oddeyrarskóla fyrir hæfileikakeppni í skólanum.
Margir nemendur skráðu sig til leiks. Þeir ýmist sungu, spiluðu á hljóðfæri, dönsuðu eða sýndu töfrabrögð. Það var virkilega ánægjulegt að sjá alla þessa hæfileikaríku krakka sýna listir sínar. Það þarf mikið hugrekki til að sýna atriði fyrir alla nemendur og starfsmenn skólans, en það er ljóst að hér eru margir sem oft eiga eftir að stíga á stokk.
Hæfileikakeppnin er ákaflega skemmtileg tilbreyting í skólastarfið auk þess að vera góð upphitun fyrir árshátíð skólans sem verður haldin í lok janúar, en þá munu allir nemendur skólans sýna atriði.
Sigurvegarar í hæfileikakeppninni að þessu sinni voru þau Gísli Erik og Elín Ylfa í 1. bekk, en hún söng lagið Ríðum sem fjandinn (sem Reiðmenn vindanna fluttu um árið) og hann dansaði með. Í öðru sæti var Rebekka Rut í 2. bekk, en hún söng lagið Dansaðu vindur. Krakkarnir fengu gjafabréf á Greifann að launum.
Við þökkum nemendaráði skólans innilega fyrir að standa svo vel að þessari hæfileikakeppni.
Fleiri myndir frá morgninum eru komnar á myndasíðu skólans.
Litlu jólin í Oddeyrarskóla
Litlu jólin verða haldin hér í Oddeyrarskóla föstudaginn 19. desember.
Nú verður sú nýbreytni að við verðum öll á sama tíma á litlu jólum. Dagskráin verður þó með svipuðum hætti og áður:
Allir nemendur mæta í sína heimastofu kl. 9:30 og þar verður hátíðleg stund með umsjónarkennurum. Kl. 10:00 hringir skólastjóri alla á jólaball í salnum þar sem við syngjum og dönsum saman í kringum jólatré. Að því loknu förum við aftur stutta stund í kennslustofur. Við gerum ráð fyrir að skóla ljúki um kl. 11.
Þar sem við ætlum að eiga hátíðlega stund saman er við hæfi að mæta í betri fötunum.
Jólasöngsalur á miðstigi
Síðasti söngsalurinn fyrir jól var í morgun á miðstigi. Þá buðum við 4. bekk í heimsókn til að syngja með okkur því þau munu auðvitað koma upp til okkar næsta haust. Nemendur tóku hraustlega undir í söngnum og sungu fjögur vel valin jólalög, m.a. Dansaðu vindur með Eivöru Pálsdóttur sem þau syngja eins og englar.