Viljum vekja athygli á að nú er brýn þörf á að nota endurskinsmerki. Höfum fengið ábendingar frá vegfarendum um að börn á leið í skólann á morgnanna séu vart sjáanleg í myrkrinu og snjóleysinu. Verum dugleg að nota endurskinsmerkin í skammdeginu.
Category Archives: Fréttir og tilkynningar
Starfskynningar hjá nemendum í 9. bekk
Í lok nóvember stendur til að nemendur í 9. bekk Oddeyrarskóla fari í starfskynningar í fyrirtæki hér á Akureyri eða í nágrenni.
Starfskynningar eru liður í náms- og starfsfræðslu skólans og byggja m.a. á aðalnámsskrá grunnskóla (2011) en þar er m.a. kveðið á um tengsl skóla og nærsamfélags.
Þá er óskað eftir því að strákar kynni sér vinnustað/starfsgrein þar sem konur eru almennt í meirihluta og að stelpur kynni sér vinnustað/starfsgrein þar sem karlar eru almennt í meirihluta. Nemendur mega einnig vera báða dagana á ,,óhefðbundnum“ vinnustað ef vilji er fyrir hendi og samþykki fæst á vinnustaðnum.
Þessi kynjabundni þáttur er liður í jafnréttisáætlun Oddeyrarskóla sem m.a. byggir á 23. gr. jafnréttislaga þar sem segir: Í náms- og starfsfræðslu og við ráðgjöf í skólum skulu piltar og stúlkur óháð kyni hljóta fræðslu og ráðgjöf í tengslum við sömu störf.
Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands eru konur t.d. í miklum meirihluta starfa í heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu og fræðslustarfsemi. Karlar eru hins vegar í miklum meirihluta starfa í mannvirkjagerð og iðnaði svo dæmi séu tekin. Að starfskynningu lokinni fræða nemendur foreldra sína, samnemendur og kennara um það sem þeir hafa kynnt sér á vinnustað. Umsjón með framkvæmd starfskynninga hafa Þuríður námsráðgjafi og Hrafnhildur umsjónarkennari.
Jólamatur 16. desember
Þriðjudaginn 16. desember verður jólamatur hér í Oddeyrarskóla. Þann dag stendur öllum til boða að kaupa jólamáltíðina, hvort sem þeir eru skráðir í mataráskrift eða ekki. Þeir sem eru ekki skráðir í mat þurfa að láta vita hvort þeir þiggi þetta boð og greiða fyrir 1. desember kr. 500.- og má greiða hjá ritara eða stjórnendum.
Boðið verður upp á reykt svínakjöt, brúnaðar kartöflur og annað gott meðlæti.
Um morguninn sama dag munu nemendur skera út og steikja laufabrauð sem þeir geta borðað með matnum.
Spennandi sjóræningjaþema í 1. og 2. bekk
Síðustu tvær vikurnar hafa börnin í 1. og 2. bekk upplifað mikil ævintýri. Einn daginn barst þeim flöskuskeyti með bréfi frá sjóræningjahrói sem sagðist vera villtur og rataði ekki heim. Síðan þá hafa börnin skrifast á við sjóræningjann og kennt honum ýmislegt. Til dæmis hafa þau þurft að leiðbeina honum með muninn á stöfunum b, p og d, kenna honum áttirnar og fjöllin í kringum okkur auk þess að leiðbeina honum með almenna mannasiði og kurteisi. Hver og einn nemandi hefur skrifað honum bréf með ýmsum spurningum og leiðbeiningum. Einn daginn þegar nemendur mættu í skólann voru blaut fótspor um alla stofu ásamt litlum demöntum. Þetta þótti börnunum afskaplega spennandi. Tvö bréf fundust svo í stofunni. Í öðru þeirra voru vísur en í hinu, sem var sendibréf, mátti finna vísbendingu um nafn sjóræningjans. Þar voru allir stafirnir í rugli og nú ætla börnin að takast á við það verkefni um helgina að leysa stafaruglið og komast að því hvað sjóræningjahróið
heitir. Ef til vill koma foreldrar til hjálpar 🙂
Sjóræningjaævintýrið er hluti af vinnu í byrjendalæsi og hafa kennarar í gegnum það samþætt vinnuna við nám í fleiri greinum, s.s. stærðfræði, lífsleikni, myndlist, landafræði og ritun.
Myndir eru komnar á myndasíðu skólans, athugið að þær eru í tveimur möppum.
Íslenska sem annað mál
Á hverju ári eru margir nemendur við skólann sem læra íslensku sem annað mál. Helga Hauksdóttir kennsluráðgjafi gefur reglulega út fréttabréf þar sem lesa má um það sem þessir nemendur taka sér fyrir hendur í skólum bæjarins. Þar má oft fá góðar hugmyndir að kennslu fyrir alla svo og ýmsar gagnlegar upplýsinga um málefni innflytjenda og stöðu mála í kennslu barna með íslensku sem annað tungumál.
Nemenda- og foreldraviðtöl á morgun (ekki skóladagur)
Við minnum á að á morgun, miðvikudaginn 5. nóvember, eru nemenda- og foreldraviðtöl í Oddeyrarskóla. Þann dag koma nemendur eingöngu í viðtal til umsjónarkennara með foreldrum/forráðamönnum. Því fer engin hefðbundin kennsla fram þennan dag. Þeir sem eru búnir að koma í viðtal eða koma seinna í það í samráði við umsjónarkennara eru alveg í fríi þennan dag.
Starfsáætlun 2014-2015
Nú er starfsáætlun skólans fyrir skólaárið 2014-2015 komin á heimasíðuna. Hún er vistuð undir tenglinum „starfshættir“. Við hvetjum foreldra til að kynna sér hana, enda geymir hún margar gagnlegar upplýsingar um skólastarfið.
Nemendum haldið inni í dag vegna mengunar
Þar sem loftgæði mælast óholl á Akureyri í dag vegna eldgossins í Holuhrauni verður nemendum haldið inni í frímínútum. Við förum samkvæmt ráðleggingum umhverfisstofnunar, lokum gluggum og slökkvum á loftræstingu í skólanum.
Brynja Sif Skúladóttir heimsótti nemendur á miðstigi
Rithöfundurinn Brynja Sif Skúladóttir heimsótti á dögunum nemendur á miðstigi Oddeyrarskóla. Í heimsókninni ræddi hún um sköpun ævintýra og las fyrir nemendur úr nýjustu bók sinni Nikký og baráttan um bergmálstréð.
Fyrir heimsóknina hafði Brynja Sif útbúið verkefni sem miðar að því að efla ímyndunarafl nemenda. Verkiefnið kallast „Ævintýrið í mér – veistu hvað þú getur?“ Krakkarnir á miðstigi unnu verkefnið og virtust þeir hafa bæði mikið gagn og gaman af heimsókn Brynju Sifjar.
Sjónvarspsstöðin N4 fylgdi Brynju Sif í heimsóknina og ef smellt er á eftirfarandi slóð má sjá myndbrot úr heimsókninni og viðtal við Brynju Sif: http://www.n4.is/is/thaettir/file/ny-barnabok-fra-brynju-sif
Skipulagsdagur og haustfrí nemenda.
Minnum á að 23. okt. er skipulagsdagur og þá er frí hjá nemendum. Föstudaginn 24. okt. og mánudaginn 27. okt. er haustfrí hjá nemendum og því enginn skóli þessa daga.
Vonum að allir hafi það gott í haustfríinu og komi endurnærðir til baka þriðjudaginn 28. okt.