Óskum ykkur öllum gleðilegra páska. Skólastarfið hefst á ný þriðjudaginn 22. apríl. Tengja aprílmánaðar er komin út og má sjá hana hér. Einnig má finna eldri tengjur undir tenglinum Tengja hér fyrir ofan.
Category Archives: Fréttir og tilkynningar
Uppskeruhátíð í dag – góður árangur!
Í dag voru allir nemendur skólans kallaðir á sal í tilefni þess að skólinn er að fagna góðum árangri á ýmsum sviðum.
Við fögnuðum frábærum árangri okkar nemenda í skólahreysti sem hömpuðu 3. sætinu, virkilega góðum árangri Oddeyrarskóla í stærðfræðilæsi í síðustu PISA prófum, 3. sætinu í Stóru upplestrarkeppninni og síðast en ekki síst afar vel heppnuðum smiðjudögum sem haldnir voru í þarsíðustu viku.
Í tilefni af þessu var öllum nemendum og starfsfólki boðið upp á vöfflu með ís og ekki laust við að nemendur gleddust 🙂
Myndir eru á myndasíðu skólans.
Lokahátíð stóru upplestrarkeppninnar í gær – Ingunn í 3. sæti
Í gær, miðvikudag, fór lokahátíð stóru upplestrarkeppninar í sjöunda bekk fram í Menntaskólanum á Akureyri. Fulltrúar Oddeyrarskóla voru þær Ingunn Erla Sigurðardóttir og Berenika Bernat. Þær stóðu sig af stakri prýði. Ingunn varð i í þriðja sæti.
Óskum við henni að sjálfsögðu til hamingju með glæsilegan árangur!
Fágæti og furðuverk – lestrarhvetjandi verkefni
Í dag byrjuðum við með lestrarverkefnið Fágæti og furðuverk í 4. bekk. Skólinn hefur komið sér upp bekkjarsetti af þematengdum pokum sem innihalda bækur fyrir nemendur, lesefni fyrir foreldra og fylgihluti (dót/mynddiska). Lagt er upp úr því að efnið tengist áhugasviði nemenda og hafa nemendur alltaf val um efni.
Ætlunin er að foreldrar lesi með börnunum heima og skapi þannig jákvæða lestrarfyrirmynd.
Verkefnið stendur yfir í fjórar vikur hjá hverjum hópi. Nemendur fá vikulega nýjan poka með sér heim og vinna með innihald hans í samvinnu við fjölskyldu sína.
Í dag var haldinn fundur með foreldrum nemenda í 4. bekk þar sem hvatinn að verkefninu var kynntur auk þess sem kennarar kynntu skipulagið á verkefninu. Í kjölfarið völdu nemendur sér poka sem þeir fóru með heim í dag og verða með í eina viku.
Jafnframt munu nemendur, kennarar og foreldrar fara saman á Amtsbókasafnið þar sem allir fræðast um safnið og sjáum til þess að allir nemendur sem ekki eiga bókasafnsskírteini fái slíkt.
Blár 2. apríl – alþjóðadagur einhverfunnar
Við ætlum að hafa bláan dag á morgun, miðvikudaginn 2. apríl n.k. í tilefni af alþjóðlegum degi einhverfu. Um heim allan er fólk hvatt til að klæðast bláum fötum þennan ágæta dag til að vekja athygli á málefninu og í ár ætlum við að taka þátt. Því hvetjum við ykkur til að senda börnin bláklædd í skólann á morgun.
Athyglisverðar staðreyndir um einhverfu:
- 1 af hverju 88 barni fæðist með röskun á einhverfurófi
- Hjá drengjum eru líkurnar 1 á móti 54 – fimm sinnum meiri en hjá stúlkum
- einhverfa er fötlun – ekki sjúkdómur (algengur misskilningur) og því ólæknandi
- Það skiptir sköpum fyrir einhverfa að fá viðeigandi þjálfun eins fljótt og hægt er
Einhverfa er röskun á taugaþroska barna. Röskunin hefur áhrif á félagslega færni, tjáskipti og getur komið fram í áráttukenndri hegðun svo dæmi séu nefnd. Börn með einhverfu skynja veröldina á annan hátt en aðrir og mæta áskorunum á degi hverjum. Með því að vera meðvituð um vanda barnanna getum við haft áhrif á umhverfi þeirra og hjálpað þeim að takast á við hindranir sem okkur sjálfum gætu þótt lítilvægar en geta reynst þeim mikil þraut. Hafa ber í huga að einhverfa er mjög persónubundin og brýst út með ólíkum hætti. Þeir sem greindir eru með röskun á einhverfurófi eru jafn ólíkir og þeir eru margir – alveg eins og við hin.
Fögnum fjölbreytileikanum og mætum í bláu á miðvikudag!
Nánari upplýsingar um einhverfu er að finna á www.einhverfa.is og www.greining.is.
Þeim sem vilja fræða börnin sín um einhverfu er jafnframt bent á skemmtilegt YouTube myndband eftir Jóhönnu Ýr Jónsdóttur sem kallast „Introvert“ sem ætlað er að útskýra einhverfu á einfaldan hátt. Hægt er að nálgast myndbandið á eftirfaraandi vefslóð: http://www.youtube.com/watch?v=ZFjsW2bozmM
Sköpunargleði í Frístund
Að fyrri smiðjudegi sem helgaður var tónlist loknum ákváðu nokkrir krakkar í 1. – 4. bekk upp á eigin spýtur að setja saman „dýrahljómsveit.“ Þarna voru saman komin kanína, köttur, rottur, refur og meira að segja varúlfur. Þeir sem að uppátækinu stóðu eru Elsa, Dagbjört, Móna, Ebba, Íris, Sesselja, Hanna Lára og Einar Kristinn. Á myndasíðunni má sjá fleiri myndir.
Smiðjudagar tileinkaðir tónlist
Dagana 27. og 28. mars eru smiðjudagar hjá okkur hér í Oddeyrarskóla og er þema þessa árs ýmiss konar tónlist. Öll stig voru því með tónlistartengd verkefni í allan dag og nemendum blandað milli bekkja.
Krakkarnir á yngsta stigi fóru á mismunandi stöðvar þar sem þau m.a. bjuggu til hljóðfæri, fóru í leiki og spurningakeppni.
Á miðstigi byrjuðu krakkarnir fimmtudaginn á því að fara í Hof þar sem þau fengu góða kynningu á húsinu og fóru síðan í dans og jóga í íþróttasal Oddeyrarskóla. Í lok dagsins fóru þau í stuttan tónlistarratleik.
Unglingarnir eru búnir að vinna að því að gera lag sem kallað er cup song, þar sem stór hópur nemenda slær takt með glösum og klappi og aðrir nemendur spila og syngja tónlist.
Þessa daga er starfandi fjölmiðlahópur við skólann sem fylgist með, myndar og semur fréttir. Þessi frétt er m.a. úr þeirra smiðju.
Fleiri myndir eru væntanlegar á heimasíðu skólans.
Tengja marsmánaðar
Nú er komin út ný Tengja. Hana má sjá hér.
Eldri Tengjur er hægt að finna á heimasíðunni undir tenglinum „TENGJA“ hér fyrir ofan.
FORELDRAR OG FORVARNIR – fræðsla fyrir foreldra
Fimmtudaginn 27. mars standa samtökin Heimili og skóli fyrir fræðslu fyrir foreldra sem ber heitið Foreldrar og forvarnir. Fræðslan verður í sal Síðuskóla og er öllum opin. Foreldrar eru hvattir til að fjölmenna. Ókeypis aðgangur.
Dagskrá:
- Sólveig Karlsdóttir verkefnastjóri hjá Heimili og skóla og SAFT: Samtaka foreldrar
- Björn Rúnar Egilsson, verkefnastjóri hjá Heimili og skóla og SAFT: Rafrænt uppeldi
- Guðrún Björg ÁgústsdóttirICADC ráðgjafi hjá Vímulausri æsku – Foreldrahúsi: Hvað er til ráða?