Blár 2. apríl – alþjóðadagur einhverfunnar

large_autismdayVið ætlum að hafa bláan dag á morgun, miðvikudaginn 2. apríl n.k. í tilefni af alþjóðlegum degi einhverfu. Um heim allan er fólk hvatt til að klæðast bláum fötum þennan ágæta dag til að vekja athygli á málefninu og í ár ætlum við að taka þátt. Því hvetjum við ykkur til að senda börnin bláklædd í skólann á morgun.

Athyglisverðar staðreyndir um einhverfu:

  • 1 af hverju 88 barni fæðist með röskun á einhverfurófi
  • Hjá drengjum eru líkurnar 1 á móti 54 – fimm sinnum meiri en hjá stúlkum
  • einhverfa er fötlun – ekki sjúkdómur (algengur misskilningur) og því ólæknandi
  • Það skiptir sköpum fyrir einhverfa að fá viðeigandi þjálfun eins fljótt og hægt er

Einhverfa er röskun á taugaþroska barna. Röskunin hefur áhrif á félagslega færni, tjáskipti og getur komið fram í áráttukenndri hegðun svo dæmi séu nefnd. Börn með einhverfu skynja veröldina á annan hátt en aðrir og mæta áskorunum á degi hverjum. Með því að vera meðvituð um vanda barnanna getum við haft áhrif á umhverfi þeirra og hjálpað þeim að takast á við hindranir sem okkur sjálfum gætu þótt lítilvægar en geta reynst þeim mikil þraut. Hafa ber í huga að einhverfa er mjög persónubundin og brýst út með ólíkum hætti. Þeir sem greindir eru með röskun á einhverfurófi eru jafn ólíkir og þeir eru margir – alveg eins og við hin.

Fögnum fjölbreytileikanum og mætum í bláu á miðvikudag!

Nánari upplýsingar um einhverfu er að finna á www.einhverfa.is og www.greining.is.

Þeim sem vilja fræða börnin sín um einhverfu er jafnframt bent á skemmtilegt YouTube myndband eftir Jóhönnu Ýr Jónsdóttur sem kallast „Introvert“ sem ætlað er að útskýra einhverfu á einfaldan hátt. Hægt er að nálgast myndbandið á eftirfaraandi vefslóð: http://www.youtube.com/watch?v=ZFjsW2bozmM

Sköpunargleði í Frístund

IMG_3081Að fyrri smiðjudegi sem helgaður var tónlist loknum ákváðu nokkrir krakkar í 1. – 4. bekk upp á eigin spýtur að setja saman „dýrahljómsveit.“ Þarna voru saman komin kanína, köttur, rottur, refur og meira að segja varúlfur. Þeir sem að uppátækinu stóðu eru Elsa, Dagbjört, Móna, Ebba, Íris, Sesselja, Hanna Lára og Einar Kristinn. Á myndasíðunni má sjá fleiri myndir.

Smiðjudagar tileinkaðir tónlist

IMG_4679 IMG_4653 IMG_4570Dagana 27. og 28. mars eru smiðjudagar hjá okkur hér í Oddeyrarskóla og er þema þessa árs ýmiss konar tónlist. Öll stig voru því með tónlistartengd verkefni í allan dag og nemendum blandað milli bekkja.

Krakkarnir á yngsta stigi fóru á mismunandi stöðvar þar sem þau m.a. bjuggu til hljóðfæri, fóru í leiki og spurningakeppni.

Á miðstigi byrjuðu krakkarnir fimmtudaginn á því að fara í Hof þar sem þau fengu góða kynningu á húsinu og fóru síðan í dans og jóga í íþróttasal Oddeyrarskóla. Í lok dagsins fóru þau í stuttan tónlistarratleik.

Unglingarnir eru búnir að vinna að því að gera lag sem kallað er cup song, þar sem stór hópur nemenda slær takt með glösum og klappi og aðrir nemendur spila og syngja tónlist.

Þessa daga er starfandi fjölmiðlahópur við skólann sem fylgist með, myndar og semur fréttir. Þessi frétt er m.a. úr þeirra smiðju.

Fleiri myndir eru væntanlegar á heimasíðu skólans.

Tengja marsmánaðar

connectingNú er komin út ný Tengja. Hana má sjá hér.

Eldri Tengjur er hægt að finna á heimasíðunni undir tenglinum „TENGJA“ hér fyrir ofan.

FORELDRAR OG FORVARNIR – fræðsla fyrir foreldra

hogsFimmtudaginn 27. mars standa samtökin Heimili og skóli fyrir fræðslu fyrir foreldra sem ber heitið Foreldrar og forvarnir. Fræðslan verður í sal Síðuskóla og er öllum opin. Foreldrar eru hvattir til að fjölmenna. Ókeypis aðgangur.

Dagskrá:

  • Sólveig Karlsdóttir verkefnastjóri hjá Heimili og skóla og SAFT: Samtaka foreldrar
  • Björn Rúnar Egilsson, verkefnastjóri hjá Heimili og skóla og SAFT: Rafrænt uppeldi
  • Guðrún Björg ÁgústsdóttirICADC ráðgjafi hjá Vímulausri æsku – Foreldrahúsi: Hvað er til ráða?

Hér er auglýsingin frá Heimili og skóla

Þjálfunarefni fyrir unga lestrarhesta

kids-school-computerNú er komið efni á heimasíðuna til að þjálfa nefnuhraða og lestur hjá yngstu nemendunum. Þar eru t.d. 150 algengustu íslensku orðin í glærukynningu sem má fletta og láta börnin spreyta sig á (einnig skipt niður í minni einingar). Þá er einnig tengill á heimasíðu Laugarnesskóla með myndböndum sem þjálfa stærðfræði hjá yngsta aldurshópi grunnskólans. Þetta má allt finna á neðsta tenglinum hér til vinstri, þjálfunarefni fyrir nemendur.

Oddeyrarskóli hampaði 3. sæti í skólahreysti

Skólahreysti logoÍ dag var Akureyrarkeppnin haldin í Skólahreysti. Keppt var í upphífingum, armbeygjum, dýfum, hreystigreyp og hraðabraut. Fulltrúar Oddeyrarskóla sem voru valdir í undankeppni innan skólans fyrir nokkru voru Egill 9. bekk, Alexander Ívan 10. bekk, Ágústa Jenný 8. bekk og Birta 8. bekk. Varamenn voru Don 9. bekk og Tara 10. bekk. Hópurinn stóð sig frábærlega og náði 3. sætinu af 8 skólum.

Við óskum þeim innilega til hamingju með góðan árangur!

 

Vetrarfrí framundan

Nú eru nemenda- og foreldraviðtölin afstaðin. Nú skundum við í vetrarfrí  fram yfir helgi. Við vonum að nemendur njóti allir frísins og komi endurnærðir í skólann mánudaginn 10. mars.

Kynning á Strumpaþema hjá 4. bekk

IMG_4957Í dag kynntu nemendur í 4. bekk afrakstur vinnu sinnar síðastliðinna þriggja vikna um Strumpana í byrjendalæsinu. Vinnan fólst í allskyns málfræðiæfingum, sögugerð o.fl. Einnig útbjuggu nemendur sérstakan lestrarsvepp sem ætlaður er sem afdrep til lestrar og saumuðu hvert sinn strump. Myndir frá verkefninu og kynningunni eru komnar á myndasíðu skólans.

Opnanir í félagsmiðstöðinni Tróju

  • Félagsmiðstöðin Trója_logoMánudaga 19:30-21:30 í Tróju.
  • Þriðjudaga 19:30-21:30 í Naustaskóla.
  • Miðvikudaga 19:30-21:30 í Tróju.
  • Alla fimmtudaga er opið eingöngu fyrir 7. bekkinga í Tróju.
  • Á fimmtudagskvöldum er klúbbakvöld (stelpu- og strákaklúbbar) frá klukkan 19:30 til 21:30.
  • Engin sérstök dagopnun er í gangi en unglingar eru alltaf velkomnir í Tróju svo framalega sem starfsmaður er á svæðinu.
  • Fyrsta miðvikudag í mánuði er opnun fyrir 5.-7. bekk í Tróju og annan miðvikudag í mánuði fyrir sama aldurshóp í Naustaskóla.