Í morgun var haldin rýmingaræfing í skólanum. Allt gékk vel fyrir sig, krakkarnir snöggir að koma sér út og á sinn stað á íþróttavellinum. En eins og við var að búast komu fram nokkur atriði sem við þurfum að huga betur að.
Category Archives: Fréttir og tilkynningar
Fjölgreindardagur á fimmtudaginn, skipulagsdagur á föstudag
Næstkomandi fimmtudag, 2. október, verður hinn árlegi fjölgreindardagur hjá okkur í Oddeyrarskóla. Þá verður nemendum skólans skipt í 18 aldursblandaða hópa sem fara á milli stöðva og vinna ólík verkefni. Nafnið á deginum vísar í fjölgreindakenningu Gardners, en hugmyndin er að stöðvarnar verði fjölbreyttar og reyni þannig á og þjálfi ólíkar greindir barnanna.
Við vekjum athygli á því að dagurinn er styttri en hefðbundinn skóladagur (og því gulmerktur á skóladagatali) og er dagskrá búin um hádegi. Nemendur sem eru í frístund geta farið beint þangað að skóladegi loknum. Frí verður hjá nemendum í valgreinum þennan dag.
Foreldrar eru að sjálfsögðu velkomnir í skólann þennan dag eins og alla aðra daga!
Einnig minnum við á að föstudaginn 3. október er skipulagsdagur kennara og er því frí hjá nemendum þennan dag.
Rýmingaræfing í þessari viku
Í þessari viku verður rýmingaræfing í Oddeyrarskóla. Þá fer eldvarnarkerfið í gang og nemendur og starfsfólk æfa sig að rýma skólann á sem stystum tíma. Ekki láta ykkur bregða ef slökkviliðið sjáist á svæðinu þennan dag. Ef foreldrar vilja kynna sér rýmingaráætlun Oddeyrarskóla og undirbúa börn sín enn frekar má finna hana aftast í starfsáætlun skólans, sem er á heimasíðunni undir starfshættir.
Nemendur á miðstigi heimsóttu Grasrót
Hópur nemenda í 5. 6. og 7. bekk heimsótti Grasrót í síðustu viku. Félagið Grasrót er skapandi samfélag fyrir áhugasamt fólk sem vill þróa hugmyndir sínar með litlum kostnaði. Í heimsókninni spjölluðu krakkarnir við fólk sem vann að sínum hugðarefnum. Þeir fengu að sjá eldsmið, vefnað, sandblástur á gler, vinnu við gömul húsgögn, rennismíði og smíði flugmódela. Krakkarnir voru áhugasamir, kurteisir og fengu hrós fyrir. Þetta var virkilega skemmtileg heimsókn og vel tekið á móti okkur.
Þökkum Grasrótarfélaginu kærlega fyrir okkur!
Gleði í Norræna skólahlaupinu
Í dag tóku allir nemendur Oddeyrarskóla þátt í Norræna skólahlaupinu. Það var góð stemning í hópnum og veðrið gott.
Við byrjuðum á því að ganga á Þórsvöllinn (1,6 km) og á vellinum hlupu krakkarnir frá þremur og upp í átján hringi. Allir stóðu sig mjög vel og vorum við sérstaklega ánægð með að allir tóku þátt og hve krakkarnir voru duglegir að hvetja skólafélaga sína!
Norræna skólahlaupið er í samstarfi við MS og fáum við send viðurkenningarskjöl eftir áramót.
Þetta var frábær dagur og vonandi verðum við svona heppin með veður að ári 🙂
Kær kveðja frá Heimi Erni íþróttakennara og öðrum starfsmönnum Oddeyrarskóla.
Norræna skólahlaupið á föstudaginn
Næstkomandi föstudag, 19. september, taka nemendur Oddeyrarskóla þátt í Norræna skólahlaupinu. Við förum öll saman upp á Þórsvöll og hlaupið þar, mislangt eftir aldri nemenda. Lagt verður af stað á Þórsvöllinn kl. 8:45 og áætluð heimkoma er um kl. 11. Nemendur þurfa að hafa nesti með sér í poka, góða skó til að hlaupa í og vera klædd eftir veðri. Foreldrar eru eins alltaf hjartanlega velkomnir með okkur.
’64 árgangur heimsótti gamla skólann sinn
Laugardaginn 30. ágúst tók Kristín skólastjóri á móti flottum hópi fólks úr ’64 árgangi sem hafði verið í Oddeyrarskóla á árunum 1970-1980. Það var virkilega gaman að fá þau í heimsókn og heyra lýsingu þeirra á því hvernig umhorfs var í skólanum á þessum árum og hvernig skólastarfinu var háttað. T.d. var hátíðarsalur skólans þá staðsettur á efstu hæðinni og kennslustofur unglinganna á neðsta gangi. Hér eru tvær myndir af hópnum, en þau fagna öll 50 ára afmæli á þessu ári.
Hausthátíð Foreldrafélags Oddeyrarskóla
Frá Foreldrafélagi Oddeyrarskóla
Hausthátíð Foreldrafélags Oddeyrarskóla verður haldin laugardaginn 13. september. Hátíðin hefst með skrúðgöngu kl. 11:00 frá bílastæði sunnan skólans og nú er mál að grípa sér potta og prik og hvað annað sem má nota til að slá taktinn í göngunni.
Að skrúðgöngu lokinni býður Foreldrafélagið upp á grillaðar pylsur og 10.bekkur sér að vanda um leiki á lóðinni. Við hvetjum alla til að mæta og bekkina til að keppa sín á milli í þeim þrautum sem verða settar upp. Einnig verður andlitsmálun í boði frá kl. 10:30.
Bekkirnir hafa hver sinn lit til að merkja sig með í bekkjakeppninni:
1. bekkur – gulur
2. bekkur – rauður
3. bekkur – grænn
4. bekkur – blár
5. bekkur – svartur
6. bekkur – hvítur
7. bekkur – fjólublár
8. bekkur – brúnn
9. bekkur – bleikur
10. bekkur – appelsínugulur
1. bekkur er sérlega boðinn velkominn í skólann! Mætum öll og eigum glaðan dag. Endilega lítið við á síðu félagsins á fésbókinni þar sem fréttir af starfi eru birtar og vekja má umræðu um málefni sem tengjast skólastarfinu:
https://www.facebook.com/ForeldrafelagOddeyrarskola
Hátíðin er einnig á fésbókinni og þar má skrá sig og deila viðburðinum:
https://www.facebook.com/events/370306539799422/?context=create&source=49
Með kærri kveðju,
Hannela Matthíasdóttir
formaður Foreldrafélags Oddeyrarskóla.