Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk

Miðvikudaginn 10. febrúar fór fram undankeppni þar sem fulltrúar Oddeyrarskóla í lokakeppni stóru upplestrarkeppninnar voru valdir. Margir nemendur tóku þátt og stóðu sig með stakri prýði. Þá voru nemendur bekkjarins í heild til fyrirmyndar sem áheyrendur og hefði mátt saumnál detta þann tíma sem keppnin fór fram. Fjóla, Þórarinn og Helga voru dómarar. Fulltrúar Oddeyrarskóla í lokakeppninni verða Arney, Helgi og Gunnar til vara.

Bókagjöf frá foreldrafélaginu

Það var kærkomin gjöfin sem börnin færðu Þórarni á bókasafninu í morgun fyrir hönd foreldrafélagsins, en um var að ræða fjöldan allan af nýjum barna- og unglingabókum. Við þökkum kærlega fyrir þessa góðu gjöf og munum svo sannarlega njóta þess að lesa, skoða og ræða saman um efni bókanna.

Árshátíð skólans frestað

Ákveðið hefur verið að fresta árshátíð skólans sem fyrirhuguð er skv. skóladagatali laugardaginn 23. janúar. Þess í stað stefnum við á árshátíð föstudaginn 16. apríl og laugardaginn 17. apríl og vonum að þá verði búið að rýmka samkomutakmarkanir en við lögum okkur að þeim reglum sem verða í gildi á þeim tíma. Eftir sem áður verður skipulagsdagur mánudaginn 25. janúar.

Skólastarf frá 5. janúar

Skólinn hefst á morgun kl. 8:10 skv. stundaskrá nemenda og vonandi verður hægt að halda skipulaginu en það er eins og allir vita háð því að covid19 smit blossi ekki upp á ný. Það nota allir venjulega innganga, þ.e. yngsta stig kemur inn austast og nemendur í 5. bekk og eldri inn um aðalinngang á suðurhlið. Allir nemendur eiga kost á að kaupa mat í mötuneyti og verða matmálstímar skv. stundaskrá. Boðið verður upp á hafragraut frá kl. 7:45-8:05. Frístund er opin fyrir nemendur í 1. – 4. bekk.

Gleðileg jól

Starfsfólk Oddeyrarskóla óskar nemendum, foreldrum og öðrum velunnurum skólans gleðilegrar jólahátíðar og farsældar á nýju ári með þökk fyrir gott samstarf á árinu sem er að líða.

Skólahald hefst að nýju þriðjudaginn 5. janúar en við sendum upplýsingar þann 4. janúar varðandi skipulag skólastarfsins í upphafi ársins 2021.

Skipulagsdagur 17. nóvember

Við minnum á næsta skipulagsdag sem verður þriðjudaginn 17. nóvember en þá eru nemendr í fríi.

Frístund verður opin frá 7:45-16:15