Stundvísi er dyggð sem mikilvægt er að allir tileinki sér. Langflestir nemendur Oddeyrarskóla mæta á réttum tíma í allar kennslustundir en þeir eru til sem ekki passa upp á það. Það getur valdið óþægindum bæði fyrir viðkomandi nemendur og bekkjarfélaga hans. Í haust leggjum við upp með skýrar reglur varðandi mætingar og viðbrögð ef eitthvað bregður út af. Reglurnar má finna á heimasíðunni undir flipanum starfshættir. Mikilvægt er að heimili og skóli taki höndum saman við að venja nemendur á að mæta stundvíslega til verka.
Category Archives: Fréttir og tilkynningar
6. bekkur siglir með Húna
Nemendur 6. bekkjar Oddeyrarskóla fóru í siglingu með Húna II miðvikudaginn 26. ágúst. Ferðin byrjaði á því að Steini Pjé fór yfir öll öryggisatriði skipsins og kenndi krökkunum hvað gera skildi ef eitthvað kæmi uppá í ferðinni. Svo fengu nemendurnir fræðslu um sjávardýr hjá Hreiðari Þór Valtýssyni líffræðingi og skoðuðu ýmis sýnishorn af skemmtilegum lífverum úr sjó sem búið var að þurrka. Þegar við vorum komin út á Hörgárgrunn sást hvalablástur við austurströndina og við hröðuðum okkur þangað, þar voru nokkrir Hnúfubakar á ferð og fengum við stórkostlega sýningu hjá þeim. Að því loknu var rennt fyrir fisk og fiskurinn krufinn og innyflin skoðuð. Veiði var ágæt og margir sýndu mikla veiðitakta. Á heimleiðinni var fiskurinn grillaður og þeir sem vildu gátu smakkað. Við vorum heppin með veður, það var þurrt og lítill vindur en þegar við vorum á leiðinni í land byrjaði að rigna og hvessa. Þetta var frábær ferð, nemendur 6. bekkjar stóðu sig vel og voru til fyrirmyndar.
Við þökkum áhöfninni á Húna, skóladeildinni og Háskólanum á Akureyri fyrir fróðlega og skemmtilega ferð!
Fleiri myndir úr ferðinni má sjá á myndasíðu skólans.
Byrjendalæsi í Oddeyrarskóla
Oddeyrarskóli er einn af fyrstu skólunum til að taka upp Byrjendalæsi sem kennsluaðferð í lestrarkennslu yngstu barnanna. Hér var unnið mikið frumkvöðlastarf fyrstu árin í innleiðingu aðferðarinnar. Kennarar höfðu ekki námsefni til að styðjast við og unnu hörðum höndum að því að skapa góða umgjörð um læsiskennslu í 1. og 2. bekk með dyggum stuðningi starfsmanna Háskólans á Akureyri.
Kennarar skólans eru sammála um að aðferðin hafi marga kosti umfram það sem áður var notað, hún bjóði upp á stöðuga þróun og hafni jafnframt engum öðrum góðum lausnum í læsisnámi barna. Mikið er lagt upp úr því að allir þættir læsis fái athygli; þ.e. umskráning, lestur, ritun og talað mál. Verkefnin innan þessara þátta eru fjölbreytt og fær sköpunarkraftur nemenda og kennara að njóta sín við val á þeim. Mikil áhersla er lögð á að nálgast þarfir nemenda út frá reglulegu mati á stöðu þeirra svo þeir fái verkefni við hæfi. Mikil vinna hefur verið lögð í að finna og útbúa verkefni og leiðir til að bregðast við á markvissan hátt þegar árangri er ábótavant í þeim skimunarprófum sem lögð eru fyrir.
Árangur Oddeyrarskóla á samræmdum prófum er sveiflukenndur og má skýra það með ýmsum þáttum. Kennsluhættir eru ávallt skoðaðir þegar rýnt er í niðurstöður prófa og tökum við fagnandi hverjum þeim leiðum sem geta fleytt okkur áfram í átt að betri árangri með nemendum okkar. Skólinn hefur nýtt PALS aðferðina í læsisvinnunni sem styður vel við það sem gert hefur verið í Byrjendalæsi. PALS er þó ekki heildstæð leið sem hægt er að nota allt skólaárið en góð viðbót sem hentar mörgum nemendum. Eins nýtum við skimunarprófið Leið til læsis til að skima eftir lestrarvanda og fylgja eftir framförum. Leið til læsis fellur einnig vel að hugmyndum Byrjendalæsis og styður vel við það. Við teljum Byrjendalæsi vel til þess fallið að hjálpa börnum að ná árangri í námi í 1. og 2. bekk en fjölmargir aðrir þættir skipta þar einnig máli.
Byrjendalæsi fellur einkar vel að hugmyndum sem birtast í Aðalnámskrá grunnskóla frá 2011, bæði hvað varðar markmið í íslensku og áherslum á að efla lykilhæfni nemenda.
Við upphaf innleiðingar á byrjendalæsi var búið til myndband til að kynna þessa nálgun í lestrarnámi og hvetjum við aðila skólasamfélagsins til að skoða það hér.
Meðfylgjandi myndir eru frá heimsókn Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra þegar hann kom á degi íslenskrar tungu 16. nóvember 2013 til að kynna sér hugmyndafræði byrjendalæsis.
7. bekkur byrjar skólaárið að Reykjum í Hrútafirði
Nú eru nemendur 7. bekkjar í skólabúðum að Reykjum í Hrútafirði. Við sækjumst gjarnan eftir því að fara snemma að hausti til að nota tækifærið til að þétta nemendahópinn í upphafi skólaárs og um leið eiga meiri möguleika á að vera að Reykjum í góðu veðri.
Á mánudagsmorgunn fór frá Oddeyrarskóla 24 nemenda hópur og með þeim eru tveir starfsmenn og tveir kennaranemar. Við fengum góðar fréttir af þeim í gær og kennari segir að þarna séu á ferðinni sjálfstæð, dugleg og kurteis börn. Allir geri sitt besta í einu og öllu og vinátta, virðing, samkennd og sjálfstæði ráði ríkjum 🙂 Ekki amaleg ummæli það!
Við eigum von á þeim til baka næstkomandi föstudag um kl. 15, en foreldrar fá nánari upplýsingar í tölvupósti þegar nær dregur.
Þeir sem vilja kynna sér skólabúðirnar að Reykjum í Hrútafirði nánar geta skoðað heimasíðu skólans hér.
Frá íþróttakennara
Hér eru örfáir punktar frá íþróttakennara um veturinn framundan:
Íþróttakennsla úti og inni
Íþróttakennslan verður utandyra fyrstu 4-5 vikurnar, vonandi til 23.september en það fer allt eftir veðri. Nemendur þurfa að koma klæddir eftir veðri og ekki síst í góðum útiskóm. Mæting í útitímana er á sparkvellinum við skólann. Nemendur geta nýtt búningsklefa og sturtur.
Í íþróttatímum sem eru inni eiga nemendur að nemendur vera í stuttum eða síðumí þróttabuxum og íþróttabol. Nemendur 1.- 4. bekkjar eiga að vera berfættir í íþróttum en í 5.-10. bekk er æskilegt að nemendur séu í skóm. Ætlast er til að nemendur fari í sturtu eftir tíma. Nauðsynlegt er að merkja vandlega allan íþróttafatnað, þar sem reynslan sýnir að ótrúlega mikið af óskilafötum safnast upp hjá okkur.
Sundkennsla
Nemendur eiga að vera mættir í Sundlaug Akureyrar 5 mínútum áður en kennslustund hefst. Nemendum verður ekið að og frá sundlaug og mun skólabíllinn leggja af stað frá Oddeyrarskóla 15 mínútum áður en tími hefst.
Nemendur skulu vera í sundfötum við hæfi í sundtímum. Strandbuxur og efnislítil bikini eru ekki hentug sundföt.
Forföll í íþróttum og sundi þarf að tilkynna til ritara skólans.
Foreldrar eru alltaf velkomnir í íþrótta- og sundtíma eins og aðrar kennslustundir og ég bið ykkur endilega um að hafa samband við mig ef þið teljið þörf á.
Skólasetning föstudaginn 21. ágúst 2015
Skólasetning verður í Oddeyrarskóla föstudaginn 21. ágúst 2015.
Nemendur 1. – 4. bekkjar mæta á sal skólans kl. 9:00 og nemendur 5.-10. bekkjar mæta kl. 10.00. Skólastjóri setur skólann á sal og síðan fara nemendur með umsjónarkennurum sínum í kennslustofurnar.
Skólastarfið hefst síðan samkvæmt stundaskrá mánudaginn 24. ágúst 2015.
Frístund – opnun o.fl. hagnýtar upplýsingar
Kæru foreldrar/forráðamenn barna sem fara í Frístund
Næsta föstudag (skólasetningardaginn) opnar Frístund kl. 9:30. Margir eiga enn eftir að staðfesta skráningu í Frístund með því að koma í skólann og ganga frá dvalarsamningi hjá ritara eða Sigrúnu umsjónarmanni Frístundar. Við hvetjum ykkur til að klára það í þessari viku. Nauðsynlegt er að vita af því ef foreldrar hyggjast nýta Frístund á föstudaginn.
Allar hagnýtar upplýsingar varðandi Frístund er að finna hér á heimasíðu skólans, undir hlekknum Frístund. Þar má m.a. sjá verð, opnunardaga og dvalarsamning.
Þá minnum við einnig á að ef foreldrar þurfa að ná sambandi við starfsmenn Frístundar er best að hringja í beint númer þangað, þ.e. 460-9557 (skrifstofa) og 460-9558 (leikherbergi).
Frístund – staðfesting á skráningu
Nú er komið að því að staðfesta skráningu barna í Frístund.
Foreldrar barna í 1.- 4. bekk sem skráðu börn sín í vor og ætla að nýta þjónustu frístundar fyrir börn sín næsta skólaár eru beðin um að koma í skólann á föstudaginn 14. ágúst til að staðfesta dvöl í frístund með undirskrift dvalarsamnings.
Kristín ritari Oddeyrarskóla tekur á móti staðfestingum föstudaginn 14. ágúst frá kl. 9-14. Þeir foreldrar sem ekki komast þennan dag eru beðnir um að hafa samband við Kristínu ritara í s. 460-9550 eða netfangið kh@akmennt.is til að ákveða tíma.
Námsgögn
Nú styttist í að skólastarfið hefjist á ný og einhverjir e.t.v. farnir að huga að innkaupum á skólavörum. Ef smellt er á neðsta tenglinn hér til vinstri á heimasíðunni má finna innkaupalista fyrir 2.-10. bekk. Við bendum foreldrum barna sem fara í 1. – 4. bekk á að skólinn býðst til að annast innkaup á ritföngum fyrir nemendur og þá þurfa foreldrar eingöngu að útvega skólatösku og sundföt.
Nemendur Oddeyrarskóla hlupu til styrktar UNICEF
Nemendur Oddeyrarskóla hafa til margra ára hlaupið til styrktar UNICEF samtökunum.
Þetta árið fór hlaupið fram miðvikudaginn 3. júní 2015 og söfnuðust 152.487 krónur sem nú hafa verið lagðar inn á styrktarreikning UNICEF. Þetta er frábær árangur hjá krökkunum og hafa þau látið virkilega gott af sér leiða. Við þökkum þeim f0reldrum og velunnurum sem lögðu söfnuninni lið innilega fyrir aðstoðina.
UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, er heimsins stærsta hjálparstofnun fyrir börn. Þetta eru óháð samtök í pólitískum og trúarlegum skilningi. Samtökin starfa að langtíma þróunarverkefnum í 156 löndum og þau standa bæði fyrir neyðaraðstoð og langvarandi hjálparstarfi. Starfsemin er rekin á frjálsum framlögum frá ríkisstjórnum, fyrirtækjum og einstaklingum.