Frá íþróttakennara

íþróttirHér eru örfáir punktar frá íþróttakennara um veturinn framundan:

Íþróttakennsla úti og inni

Íþróttakennslan verður utandyra fyrstu 4-5 vikurnar, vonandi til 23.september en það fer allt eftir veðri. Nemendur þurfa að koma klæddir eftir veðri og ekki síst í góðum útiskóm. Mæting í útitímana er á sparkvellinum við skólann. Nemendur geta nýtt búningsklefa og sturtur.

Í íþróttatímum sem eru inni eiga nemendur að nemendur vera í stuttum eða síðumí þróttabuxum og íþróttabol. Nemendur 1.- 4. bekkjar eiga að vera berfættir í íþróttum en í 5.-10. bekk er æskilegt að nemendur séu í skóm. Ætlast er til að nemendur fari í sturtu eftir tíma. Nauðsynlegt er að merkja vandlega allan íþróttafatnað, þar sem reynslan sýnir að ótrúlega mikið af óskilafötum safnast upp hjá okkur.

Sundkennsla
Nemendur eiga að vera mættir í Sundlaug Akureyrar 5 mínútum áður en kennslustund hefst. Nemendum verður ekið að og frá sundlaug og mun skólabíllinn leggja af stað frá Oddeyrarskóla 15 mínútum áður en tími hefst.
Nemendur skulu vera í sundfötum við hæfi í sundtímum. Strandbuxur og efnislítil bikini eru ekki hentug sundföt.

Forföll í íþróttum og sundi þarf að tilkynna til ritara skólans.

Foreldrar eru alltaf velkomnir í íþrótta- og sundtíma eins og aðrar kennslustundir og ég bið ykkur endilega um að hafa samband við mig ef þið teljið þörf á.

Skólasetning föstudaginn 21. ágúst 2015

Skólasetning verður í Oddeyrarskóla föstudaginn 21. ágúst 2015.

Nemendur 1. – 4. bekkjar mæta á sal skólans kl. 9:00 og nemendur 5.-10. bekkjar mæta kl. 10.00. Skólastjóri setur skólann á sal og síðan fara nemendur með umsjónarkennurum sínum í kennslustofurnar.

Skólastarfið hefst síðan samkvæmt stundaskrá mánudaginn 24. ágúst 2015.

Frístund – opnun o.fl. hagnýtar upplýsingar

Kæru foreldrar/forráðamenn barna sem fara í Frístund

Næsta föstudag (skólasetningardaginn) opnar Frístund kl. 9:30. Margir eiga enn eftir að staðfesta skráningu í Frístund með því að koma í skólann og ganga frá dvalarsamningi hjá ritara eða Sigrúnu umsjónarmanni Frístundar. Við hvetjum ykkur til að klára það í þessari viku. Nauðsynlegt er að vita af því ef foreldrar hyggjast nýta Frístund á föstudaginn.

Allar hagnýtar upplýsingar varðandi Frístund er að finna hér á heimasíðu skólans, undir hlekknum Frístund. Þar má m.a. sjá verð, opnunardaga og dvalarsamning.

Þá minnum við einnig á að ef foreldrar þurfa að ná sambandi við starfsmenn Frístundar er best að hringja í beint númer þangað, þ.e. 460-9557 (skrifstofa) og 460-9558 (leikherbergi).

Frístund – staðfesting á skráningu

logo -stafalaustNú er komið að því að staðfesta skráningu barna í Frístund.

Foreldrar barna í 1.- 4. bekk sem skráðu börn sín í vor og ætla að nýta þjónustu frístundar fyrir börn sín næsta skólaár eru beðin um að koma í skólann á föstudaginn 14. ágúst til að staðfesta dvöl í frístund með undirskrift dvalarsamnings.

Kristín ritari Oddeyrarskóla tekur á móti staðfestingum föstudaginn 14. ágúst frá kl. 9-14. Þeir foreldrar sem ekki komast þennan dag eru beðnir um að hafa samband við Kristínu ritara í s. 460-9550 eða netfangið kh@akmennt.is til að ákveða tíma.

 

Námsgögn

skóladótNú styttist í að skólastarfið hefjist á ný og einhverjir e.t.v. farnir að huga að innkaupum á skólavörum. Ef smellt er á neðsta tenglinn hér til vinstri á heimasíðunni má finna innkaupalista fyrir 2.-10. bekk. Við bendum foreldrum barna sem fara í 1. – 4. bekk á að skólinn býðst til að annast innkaup á ritföngum fyrir nemendur og þá þurfa foreldrar eingöngu að útvega skólatösku og sundföt.

Nemendur Oddeyrarskóla hlupu til styrktar UNICEF

unicef-logoNemendur Oddeyrarskóla hafa til margra ára hlaupið til styrktar UNICEF samtökunum.

Þetta árið fór hlaupið fram miðvikudaginn 3. júní 2015 og söfnuðust 152.487 krónur sem nú hafa verið lagðar inn á styrktarreikning UNICEF. Þetta er frábær árangur hjá krökkunum og hafa þau látið virkilega gott af sér leiða. Við þökkum þeim f0reldrum og velunnurum sem lögðu söfnuninni lið innilega fyrir aðstoðina.

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, er heimsins stærsta hjálparstofnun fyrir börn. Þetta eru óháð samtök í pólitískum og trúarlegum skilningi. Samtökin starfa að langtíma þróunarverkefnum í 156 löndum og þau standa bæði fyrir neyðaraðstoð og langvarandi hjálparstarfi. Starfsemin er rekin á frjálsum framlögum frá ríkisstjórnum, fyrirtækjum og einstaklingum.

Sumarfrí

olaf-in-summerÞá er búið að slíta skólanum vorið 2015. Við þökkum nemendum og foreldrum fyrir ánægjulegt samstarf í vetur og hlökkum til áframhaldandi samstarfs. Við vonum að allir njóti sumarsins vel og svo sjáumst endurnærð í ágúst. Skólasetning verður föstudaginn 21. ágúst og námsgagnalistar verða aðgengilegir á heimasíðu skólans innan tíðar.

Vordagar og skólaslit

logo -stafalaustÍ næstu viku verða vettvangsdagar í Oddeyrarskóla og þá verða nemendur mikið úti. Þriðjudaginn 2. júní verður ratleikur og sund, miðvikudaginn 3. júní hlaupa neemndur til styrktar UNICEF (svokallað apahlaup) og fimmtudaginn 4. júní verða útileikar í skólanum. Því er mikilvægt að allir séu klæddir eftir veðri. Föstudagurinn 5.júní er síðasti skóladagurinn á þessu skólaári og þá verðum við með SMT uppskreruhátíð á sal skólans og munu nemendur troða upp.

Klukkan 13:00 þann dag verða skólaslit hjá 1.-7. bekk. Skólaslitin fara fram í íþróttasal skólans þar sem Kristín skólastjóri mun spjalla stuttlega við hópinn og slíta skólanum. Eftir það fara nemendur í stofur til umsjónarkennara og fá afhent námsmat.

Skólaslit hjá 8. – 10.bekk verða á sal sama dag kl. 17:00. Við þá athöfn fá nemendur námsmat, viðurkenningar verða veittar og 10. bekkurinn útskrifast. Við þetta tækifæri kveðjum við þá starfsmenn sem eru að hætta hjá okkur. Eftir dagskrá í sal er nemendum 10. bekkjar og foreldrum þeirra boðið í kaffisamsæti ásamt starfsfólki skólans.

Við bjóðum foreldra/forráðamenn sérstaklega velkomna á skólaslitin.

Tækni og sköpun í 9. bekk

FullSizeRenderIMG_1443

 

Nemendur í 9. bekk voru í vikunni að vinna verkefni þar sem þau áttu að búa til sinn eigin bíl. Markmiðið með verkefninu var að dýpka skilning nemenda á hugtökunum ferð (hraði), hröðun, vegalengd og tími og að öðlast færni við að vinna með formúlur tengdar þeim.

Sköpun og lausnaleit er stór þáttur í verkefninu. Sett var upp keppni, hvaða bílli kæmist lengst, færi hraðast, væri með flottustu hönnunina og hver gæti keyrt í hring. Ef bíllinn virkaði ekki sem skyldi þurfti hópurinn að fara aftur í pittinn og laga og endurhanna bíllinn til að geta átt möguleika á að vinna keppnina. Hver bíll mátti fara brautina eins oft og hópurinn kaus. Mælingar og útreikningar fóru upp á töflu og var breytt eftir þörfum ef bíllinn náði betri tíma í næstu ferð. Margir voru með smáatriðin á hreinu, svo sem að skoða grip dekkja og fleira.

Nemendur fengu mótora, rafhlöður, blöðrur, sogrör, grillpinna, dekk, pappa og lím sem efnivið í bílana.

Þetta var virkilega flott hönnun hjá nemendum, mjög skemmtilegur tími og allir tóku virkan þátt.

Viðurkenningar skólanefndar

IMG_1416

Verðlaunahafarnir Kristín Bergþóra Jónsdóttir og Linda Rós Rögnvaldsdóttir. Á myndina vantar Margréti Aðalgeirsdóttur

Verðlaunahafarnir Kristín Bergþóra Jónsdóttir og Linda Rós Rögnvaldsdóttir. Á myndina vantar Margréti Aðalgeirsdóttur

Í dag, þriðjudaginn 26. maí boðaði skólanefnd Akureyrarbæjar til samkomu í Hofi og veitti nemendum og starfsfólki í grunnskólum Akureyrarbæjar viðurkenningar fyrir að hafa skarað fram úr í starfi. Heiðar Gauti Jóhannsson, nemandi í 7. bekk Oddeyrarskóla hlaut viðurkenningu, en hann var því miður ekki viðstaddur. Honum verður afhent viðurkenningin við skólaslitin 5. júní. Við óskum Heiðari Gauta innilega til hamingju með viðurkenninguna!

Þrír starfsmenn Oddeyrarskóla hlutu einnig viðurkenningu, en það eru kennararnir sem standa á bakvið innleiðingu á notkun Google umhverfisins í skólastarfinu. Þetta eru þær Kristín Bergþóra Jónsdóttir, Linda Rós Rögnvaldsdóttir og Margrét Th. Aðalgeirsdóttir. Þær stöllur hafa unnið ötullega að því að þróa kennslu- og starfshætti þar sem umhverfið er nýtt til náms og starfa og hafa þær deilt þekkingu sinni um skólann og víðar. Við óskum þeim Kristínu, Lindu og Margréti innilega til hamingju með viðurkenninguna!